20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þankar Ingólfs XXI
Ógn var erfitt í æsku að skilja þá þversögn að samviskusemi á einu sviði gæti orðið til tjóns á öðru. Til hvers að reyna að leggja sig fram og gera allt sem best ef sá gjörningur varð til þess að eitthvað allt annað og óskylt rynni út í sandinn? Þessar vangaveltur þutu í gegnum höfuðið þegar ykkar einlægur gekk út af skrifstofu Hannesar J. Magnússonar skólastjóra eftir að hafa tekið fullnaðarbróf frá Barnaskólanum eina. Sá mæti maður hafði að prófum loknum kallað mig á sinn fund og bauð mér sæti með alvörusvip. Ég velti fyrir mér hvort ég hefði gert eitthvað af mér. Hvað var að gerast?
Skólastjórinn hóf mál sitt blíðlega og sagði að ég hefði staðið mig vel á prófunum en hins vegar væri ekki unnt að ganga frá fullnaðarprófsskírteini vegna þess að mig vantaði sundið. Ef ég réði ekki bót á því yrði því miður ekki um frekari skólagöngu að ræða. Ég stundi upp að ég hafi þurft að fara strax á vorin eftir að skólanum lauk í sveitina til að hjálpa við sauðburðinn og þá var ekki búið að opna sundlaugina. Það væri ástæða þess að ég hefði aldrei farið í sund enda hefði ég hlutverki að gegna í sveitinni og vildi ekki bregðast fólkinu þar. Hannes spurði hvort ég gæti ekki komið á sundnámskeið um haustið. “Þá verð ég í göngum og svo kemur sláturtíðin,” sagði ég og taldi öll tormerki á því. Skólastjórinn andvarpaði og sagði góð ráð vera orðin nokkuð dýr því reglur gerðu ráð fyrir að allir taki sundprófið.
Þarna sat ég eins og klessa og allt benti til að námsferli mínum væri lokið vegna þess að ég hefði aldrei komist í sund! Þess í stað hafði ég alltaf þotið í sveitina á hverju vori til að hjálpa við sauðburðinn, heyskapinn, göngur og svo sláturtíðina. Sveitastörfin heilluðu mig og þar upplifði ég þá miklu lífsnautn að vinnuframlag mitt skipti máli og mér treyst til margra vandasamra verka. Sem ég horfði á skólastjóra minn í þessari vonlausu stöðu þótti mér ég vera eins og einmana ánamaðkur á miðju malbikuðu stræti þar sem engu skipti hvert skriðið væri; allt jafn vonlaust. Hvað var til ráða? Að lokum sagðist ég ætla reyna að fá mig lausan að loknum engjaslætti og gæti þá vonandi mætt í sundkennslu eftir miðjan september um haustið. Hannes samþykkti þessa tillögu og við skildum sáttir.
Á tilsettum tíma um haustið var ég mættur í skúrinn norðan við sundlaugina skrýddur glænýjum sundbuxum. Hikandi gekk ég þrettán vetra niður til laugar þar sem Tryggvi Þorsteinsson sundkennari tók mér opnum örmum. Hann afhenti mér kork og kút og leiðbeindi hvernig ég ætti að taka fyrstu sundtökin. Eftir hálfan mánuð var ég talinn syntur, tók prófið og allar götur greiðar til frekara náms. Samt nagaði samviskan mig að hafa brugðist velgerðarfólki mínu í sveitinni. Á móti kom að ég gat haldið áfram skólagöngu. Sannaðist enn einu sinni að vandasamt getur verið að þjóna samviskunni á einu sviði án þess að vinna gegn henni á öðru.
Ingólfur Sverrisson