Það eru ekki allir í stuði
Akureyri á að vera eftirsóknarvert sveitarfélag til búsetu og þar á að vera frjór jarðvegur fyrir nýsköpun og öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Til að svo megi verða á næstu árum þarf að tryggja raforkuflutninga til Eyjafjarðar.
Í nýlegri skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar lét vinna um raforkuskort í Eyjafirði kemur fram að flutningskerfi raforku til Eyjafjarðar sé æ oftar ofhlaðið. Þetta eykur spennuflökt og hættu á spennufalli sem vitað er að fer illa með rafmagnstæki og gerir fyrirtækjum erfitt fyrir. Þetta ásamt kerfishruni sem veldur rafmagnsleysi um lengri eða skemmri tíma getur valdið gríðarmiklu fjárhagstjóni. Við þessar aðstæður verður ekki búið mikið lengur og ljóst að það er ábyrgðarleysi að fjölga fyrirtækjum á Akureyri sem treysta á raforku til starfsemi sinnar. Þetta ástand er öllum orðið ljóst, sem kynnt hafa sér málin. Því er það sérstaklega tekið fram í Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023 að tryggja þurfi aukna raforkuflutninga til Norðurlands eystra, án þess að bent sé á augljósar lausnir.
Flutningsleiðir
Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi kosningar er lögð áhersla á að tryggja raforkuflutninga til Eyjafjarðar með 220 kV tengingu frá Fljótsdalsvirkjun og Blönduvirkjun. Það er í raun eina trygging okkar fyrir afhendingaröryggi á raforku inn á svæðið. Raunar þarf einnig að tryggja aukið flutningsafl frá Blönduvirkjun í Hvalfjörð, en það er annað mál.
Það hefur verið vitað í áratug eða meira að það þyrfti að styrkja flutningskerfið til Akureyrar. Í Blönduvirkjun ligga 10 MW sem ekki eru nýtt því flutningsgetuna vantar frá virkjuninni. Það lá því beint við fyrir Landsnet að byrja á því að leggja nýja 220 kV línu þaðan um Skagafjörð til Eyjafjarðar. Því miður fór Landsnet fram úr sér í þeirri vinnu og fékk flesta hagsmunaaðila upp á móti áformum sínum. Því hefur ekkert orðið úr þeirri framkvæmd enn. Sem betur fer hafa stjórnendur og starfsmenn Landsnets lært af þeirri reynslu og í undirbúningsferli Hólasandslínu 3 er allt öðrum vinnubrögðum beitt. Tekið hefur verið tillit til ábendinga þeirra sem málið varðar og reynt að mæta ólíkum sjónarmiðum eins og kostur er. Reiknað er með því að Hólasandslína 3 komist í gagnið árið 2021, sem myndi þá bæta afhendingaröryggi raforku nokkuð en ekki nóg. Það er ekki víst að tímasetningin standist ef það fara af stað eitt eða fleiri kæruferli sem gætu tafið framkvæmdina um ár eða meira ef illa fer. Við munum því búa við afar ótryggt afhendingaröryggi enn um sinn.
Vegna þess hve undirbúningsferlið er langt er mikilvægt að byrja sem fyrst undirbúning að framkvæmdum við Blöndulínu 3. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir frá Landsneti er sá undirbúningur hafinn og er það vel.
Umdeild verkefni
Raflínulagnir hafa verið mjög umdeildar á undangengum árum, sérstaklega vegna sjónrænna áhrifa. Þess vegna hefur umræðan snúist um það hvort ekki væri hægt að leggja strengi í jörð. Það hefur víða verið gert með strengi sem eru 30 eða 66 kV en er mikið mál með strengi sem eru 220 kV, fyrir utan að það er aðeins hægt að leggja hluta þeirra í jörð ef um lengri vegalengdir er að ræða. Þá hafa virkjunarkostir margir verið mjög umdeildir og því hefur Hrafnabjargavirkjun t.d. verið afskrifuð en hún er einn fárra stærri virkjunarkosta á Norðurlandi eystra. Atvinnuþróunarfélagið lét því gera könnun á möguleikum á smávirkjunum í Eyjafirði. Niðurstaðan var að þar má skoða all nokkra kosti. Þeir leysa alls ekki þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, en gæti verið góð viðbót við kerfið.
Niðurlag
Í allri þessari umræðu finnst manni það skjóta skökku við að flutningskerfi raforku er orðið svo dapurt að út því tapast á hverju ári orka sem nemur framleiðslu meðal stórrar virkjunar eða 60 MW. Það virðist ekki mega virkja og það virðist ekki heldur mega byggja mannvirki til að koma orkunni með öruggum hætti milli landshluta. Hvað er þá hægt að gera til að tryggja eðlilega atvinnuuppbyggingu á landssvæðum eins og í Eyjafirði og á Vestfjörðum. Það er búið að ræða málin í á annan áratug eða lengur en ekkert gerist. Ef raunin er sú að regluverkið í kringum þessi mál eru með þeim hætti að það er hægt að tefja framkvæmdir eða koma í veg fyrir þær með endalausum kærum, jafnvel ótengdra aðila, þá þarf að bregðast við því og breyta regluverkinu. Uppbygging og efling samfélaganna við Eyjafjörð er í hættu og við það verður ekki búið lengur. Gerum bæinn betri.
-Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og bæjarfulltrúi.