Tangarfæðing umferðarmiðstöðvar
Í síðasta Vikudegi er haft eftir Ingibjörgu Ísaksen formanni umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar að illa gangi að finna heppilega staðsetningu fyrir samgöngu- eða umferðarmiðstöð og þrátt fyrir mikla leit hafi staðurinn ekki fundist enn. Þessi vandræðagangur vakti undrun mína og furðu með hliðsjón af þeirri staðreynd að í deiliskipulagi fyrir miðbæinn frá árinu 2014, sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn, var tekin ákvörðun um staðsetningu umferðarmiðstöðvar með formlegum hætti sem er enn í gildi. Þessa er að engu getið í umfjöllun blaðsins.
Hvar er þá þessi dularfulli staður sem allir í bæjarstjórn voru sammála um við gerð deiliskipulagsins eftir miklar vangaveltur og ítarleg skoðanaskipti? Í niðurlagi kafla 7.6.1 í greinargerð um skipulagið segir: „Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að umferðarmiðstöð verði staðsett norðan Ráðhúss Akureyrar og verður þar miðstöð almenningssamgangna, hvort heldur er innanbæjar eða landshluta á milli.“ Getur þetta verið öllu skýrar? Ennfremur er þar gert ráð fyrir annarri þjónustu sem almenningur og gestir bæjarins þurfa á að halda á slíkum stað. Eðlilega þarf að útfæra þessa ákvörðun frekar en því miður hefur ekkert verið gert í þá átt síðustu misseri þrátt fyrir að fjármunir hafi verið settir í það á fjárhagsáætlun bæjarins. Þess í stað er hjalað um staðsetningu sem löngu er búið að ákveða með lögmætum hætti.
Í því sambandi hef ég bent á að sjálf umferðarmiðstöðin gæti staðið neðst í Smáragötu. Nauðsynleg bílastæði geta verið þar í kring og moldarvöllurinn fyrir neðan Akureyrarvöll einnig nýttur til þess arna enda gera íþróttafélögin enga kröfur lengur um það svæði og raunar ekki heldur um íþróttasvæðið sjálft. Þarna er því álitlegt að byggja upp góða aðstöðu og móta um leið nauðsynlega þjónustumiðstöð sem sárlega vantar í bæinn. Þangað geta stórir bílar og smáir, sem koma að norðan, rennt til hægri af Glerárgötunni og inn að miðstöðinni og þeir sem koma að sunnan fara um væntanlegt hringtorg við Grænugötu og þaðan á sama áfangastað. Sem sagt: Mjög þægileg nálgun að nýrri umferðarmiðstöð úr öllum áttum en samt miðsvæðis.
Ég leyfi mér ennfremur að minna á þá hugmynd að byggja myndarlegt bílastæðahús á þremur hæðum austan Brekkugötu og ofan við nyrsta hluta Hólabrautar. Með þeirri framkvæmd og byggingu umferðarmiðstöðvar ofurlítið neðar væri búið að leysa mörg aðkallandi vandamál sem hamla nú frekari uppbyggingu miðbæjarins í samræmi við gildandi skipulag. Sjálfur tel ég að tími umræðu um þetta mál sé liðinn enda hefur hún staðið yfir síðustu fjórtán árin. Nú er kominn tími aðgerða og framkvæmda enda ekki eftir neinu að bíða. Grundvallarákvarðanir hafa þegar verið teknar.
-Ragnar Sverrisson, kaupmaður