Taktlausir tafaleikir
Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar kynnti enginn flokkur og ekkert framboð ásetning um að hefja allsherjarendurskoðun á deiliskipulagi miðbæjarins sem samþykkt var samhjóða í bæjarstjórn árið 2014. Enginn. Þvert á móti áréttuðu framboðin nauðsyn þess að vinna að "enn vistvænni bæ", "bíllausum lífsstíl", ítrekuðu nauðsyn þess að ráðast í byggingu samgöngumiðstöðvar í miðbænum og að gengið yrði "frá vistvænni Glerárgötu í gegnum miðbæinn og byggja hann upp í samræmi við deiliskipulag," eins og sagði í stefnu Samfylkingarinnar sem enn er í gildi.
Engar meldingar til kjósenda um að breyta þurfi umræddu skipulagi miðbæjarins sem var samþykkt eftir margra ára vinnu, útgjöld, aðkomu almennings og ýmisskonar málamiðlanir sem er auðvitað forsenda sameiginlegrar niðurstöðu. Ekkert sem benti til að framboðin hyggðu á breytingar frá því sem ákveðið hafði verið - hvað þá að brjóta allt miðbæjarskipulagið upp eins og nú virðist vera í pípunum.
Skipulagsvinna er ekki dægurþras
Í kjölfar kosninga var myndaður meirihluti í bæjarstjórn sem gekk frá málefnasamningi vorið 2018 þar sem segir um þetta málefni: "Við leggjum áherslu á að uppbygging vistvæns miðbæjar taki mið af öryggi vegfarenda, skilvirku umferðarflæði, rými til uppbyggingar og fjárhagslegri skynsemi." Sem sagt: Allt innan ramma þeirrar ákvörðunar sem tekin var með nýja deiliskipulaginu 2014. Engin ástæða var til að ætla að fara ætti í meiriháttar kúvendingar með skipulagið. Eða hvað - liggur fiskur undir steini? Slíkar og þvílíkar spurningar vakna þegar einstakir bæjarfulltrúar fara að hjala um að eitthvað í skipulaginu sé úrelt án þess að færa fyrir því nokkur rök. Rétt eins og skipulag af þessu tagi sé einhvers konar dægurmál sem þarf að breyta frá degi til dags eftir því hvernig vindar blása. Það er ekki eðli skipulagsvinnu af þessu tagi enda er þar verið að horfa til langs tíma og taka ákvarðanir sem eiga að geta staðist tímans tönn.
Ný nefnd stofnuð
Svo gerðist það að bæjarráð í umboði bæjarstjórnar í sumarfríi ákvað að skipa nýja nefnd til að fara einu sinni enn yfir allt skipulag miðbæjarins og hefja glænýja og ferska píslargöngu sem gerir auðvitað ekkert annað en að tryggja að unnt verði að gefa sig aðgerðarleysinu fullkomlega á vald og nú til lengri tíma. Þetta segi ég vegna þess að reynslan sýnir að umræður í enn einni nefndinni um þetta flókna málefni munu dragast á langinn eins og venjulega vegna þess að blessað fólkið virðist ekkert vita á hvaða ferðalagi það er og því má með nokkrum rétti segja að þetta sé ferð án fyrirheits. Á sama tíma liggur samt fyrir hvernig standa skuli að uppbyggingu vistvæns miðbæjar eins og ég rakti í síðustu grein minni á þessum vettvangi og t.d. Samfylkingin hér í bæ styður heilshugar ásamt fleirum og vill að ráðist verði í án tafar - enda ekki eftir neinu að bíða.
Hagkvæmt fyrir bæjarsjóð
Heyrt hef ég þá kenningu að fjárhagur bæjarins þoli ekki að hefja fyrstu framkvæmdir við nýja miðbæjarhlutann sem hér er til umræðu. Þar er um að ræða að færa Glerárgötu ofan við Hof ofurlítið austar og mjókka um leið niður í eina akrein í báðar áttir. Markmiðið með því er að hægja umferð eins og gert er á vistvænum svæðum um víða veröld. Þar sem almenn samstaða virðist meðal bæjarbúa um að miðbærinn okkur skuli vera vistvænn var það samdóma álit allra sem komu að gerð skipulagsins að ekki verði komist hjá þessari framkvæmd. Síðar fengu einhverjir þá hugdettu að endurnýja verði götuna nákvæmlega þar sem hún nú er vegna þess að tilfærslan (samkvæmt skipulaginu) sé fjárhagslega ofviða bæjarsjóði.
Þetta er sem betur fer mikil misskilningur því eins og ég sýndi fram á í síðustu grein minni um þetta málefni kemur bæjarsjóður fjárhagslega mun betur út úr því að færa götuna strax því sú framkvæmd skapar þá þegar 5000 fermetra viðbótarsvæði vestan hennar fyrir hús í samræmi við fyrirliggjandi skipulag. Samkvæmt útreikningum verkfræðistofunnar Eflu munu þau útgjöld skila tekjum til baka af þessari viðbót til bæjarins á tíu til tuttugu árum vegna gatnagerða- og fasteignagjalda; eftir það munu fasteignagjöld af viðbótinni verða 15 milljónir króna á ári (á núgildandi verðlagi) um ókomin ár. Það er munurinn á hinum eilífu útgjöldum sem framundan eru vegna Listagils, Sundlaugarinnar og Hlíðarfjalls enda þó þær framkvæmdir séu allar ágætar út af fyrir sig.
Hik er sama og tap
Hitt er þó mun alvarlegra ef - frekar en að gera ekki neitt - farið verður í einhvers konar bráðabirgðaframkvæmdir við þennan hluta Glerárgötunnar en hún ekki flutt austar eins og gert er ráð fyrir í skipulaginu vegna þess að einhverjir telja sér trú um að það muni spara bæjarsjóði peninga. Þá yrði umrætt 5000 fermetra byggingarsvæði vestan götunnar úr sögunni um ótiltekin árafjölda og allt miðbæjarsvæðið í uppnámi. Þetta munu allir sjá og ekki síst þeir sem hugsanlega hefðu áhuga á að fjárfesta þar og byggja upp í samræmi við gildandi skipulag. Ekki mun áhugi þeirra vaxa við að byggingarsvæðið verði stórlega minnkað og öllu samræmi á því raskað þannig að úr verður óskapnaður sem enginn vill bera ábyrgð á - hvað þá að setja fjármuni í.
Sú kenning að betra sé að byrja á "einhverju" í miðbænum er því sannkölluð villukenning; raunar stórhættuleg því sú nálgun er bæði dýrari til lengri tíma litið vegna þess að hún minnkar lóðaframboð á þessum verðmætasta reit bæjarins um heila 5000 fermetra um ókomin ár. Þá er nú skynsamlegra að hefjast strax handa í samræmi við gildandi skipulag miðbæjarins okkar. Við það færu hjólin að snúast hratt og örugglega og það sem meira er: Öllum er ljóst hvert ferðinni er heitið.
Tillaga
Að öllu þessu metnu og til að leysa þetta mikilvæga mál úr læðingi legg ég til að hlutverki hinnar nýju miðbæjarnefndar verði breytt og hún hér eftir kölluð "Framkvæmdanefnd Akureyrarbæjar um uppbyggingu miðbæjarins í samræmi við gildandi skipulag." Tillagan byggir á þeirri vissu að ef raunverulegur vilji er fyrir hendi sé hægur vandi að hefja umræddar framkvæmdir á næstu vikum og mánuðum. Vilji er allt sem þarf. Fleiri tafaleikir verða aðeins til tjóns fyrir bæinn og bæjarbúa.
-Ragnar Sverrisson, kaupmaður