Stelpurnar á Nesinu

Ásgeir Ólafsson
Ásgeir Ólafsson

Sem foreldri verð ég að geta sett mig í spor þeirra sem taka sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum sem dæmi.   Hvernig var ég sjálfur?   Kúnstin er að skilja og fara ekki fram á eitthvað sem er óraunhæft.   Þau eru öll að leggja sig eins mikið fram og þau geta.  Ég man vel hvað ég lagði mig mikið fram. En ég skil það núna að verkvit mitt þá, var ekki eins og það er í dag. Það gerir reynslan og öll mistökin sem ég hef fengið að gera og leiðrétta.

Það er auðvelt að gagnrýna ungt vinnuafl í dag og kenna þar um leti og framtaksleysi.   En ef þú kennir frekar sjálfum þér að líta til baka þá kemstu fljótt að því að við vorum ekkert öðruvísi.  Þegar við vorum að vaxa úr grasi þá voru aðrir tímar jú.  En framtakið og verkvitið var nákvæmlega það sama.

Á mínum yngri árum varð ég stundum það sáttur við verk mitt að ég varð að sýna verkstjóra mínum það fullur stolti. En hjá honum fékk ég aldrei neitt nema skammir tilbaka um lélegt verkvit  og framtaksleysi. Sama hversu vel mér þótti það gert. Sama hversu stoltur ég var. Sama hversu mikið ég lagði mig fram. Ég man ekki neitt eftir þeim ágæta manni. Ég hef lítið fylgst með honum.  

Við flesta þá verkstjóra sem leiðbeindu mér í að gera betur og  gagnrýndu mig ekki einungis er ég enn í samskiptum við í dag. 30 árum síðar. Okkar samskipti byggja á virðingu og kurteisi til hvors annars.    

Það var árið 2011 sem allt breyttist hjá mér. Ég hætti að setja óraunhæfar kröfur á sjálfan mig og fólkið í kringum mig. Það voru nokkrar unglingsstelpur á Nesinu sem kenndu mér það. Ég starfaði sem knattspyrnuþjálfari 2. flokks kvenna á Seltjarnarnesi fyrir knattspyrnufélagið Gróttu. Ólíkt öllum þeim klúbbum sem ég hef starfað hjá þá vorum við þjálfarar í beinum samskiptum og kaffibollahjali við helstu stjórnarmenn félagsins. Engin göt voru í tjáskiptaformúlu starfsfólks og stjórnar Gróttu. Hversu hár titillinn var eða hver hann bar skipti engu máli innan veggja félagsins.  

Enginn setti sig ofar öðrum. Enginn var ofar klúbbmeðlimum.  Þetta er og var virkilega vandað fólk og vel rekinn klúbbur í alla staði.  Þarna ríkti frábær starfsandi. Ég er enn í góðum samskiptum við fyrrum samstarfsfélaga mína á Nesinu.   Í dag kalla ég þá vini mína.     

Þegar ég skrifaðu undir samninginn þá logaði í mér raketta. Eg ætlaði mér stóra hluti.   Sigrar og titlar voru ofarlega í huganum.  Ég taldi mig vera með tækifæri í höndunum til að tryggja mér titil þjálfara ársins svo mikill var metnaðurinn og svo mikill var viljinn að sigra.

Hópurinn var mjög þéttur en hann var ekki stór.    Við fengum lánaðar stelpur allt niður í 5. flokk til að spila og æfa með okkur.     Þetta var ævintýri líkast. Metnaður minn var samt sem áður mikill og hlakkaði mig til fyrsta æfingaleiksins sem svo kom á endanum.      

Ræðan fyrir fyrsta leik fyllti stelpurnar eldmóði og roðna ég og hitna sjálfur að innan þegar ég rifja upp það atvik. Ræða ársins hugsaði metnaðarfullur þjálfarinn. Við fórum yfir kerfin sem átti að spila. Leikur hófst. Tvær mínútur búnar.  Mark!   Við fengum strax mark í andlitið á okkur á heimavelli.  Klaufaleg mistök. “Ekkert mál,  stelpur áfram.”, kallaði ég.

90 mínútum  síðar hafði bugaður markmaðurinn okkar sótt boltann níu sinnum í netið sitt. Markmaður hins liðsins fékk væga lungnabólgu í norðvestan garranum á Nesinu í októbermánuði sökum hreyfingarleysis. Lokatölur, 0-9.

Í  hálfleik, þá fimm mörkum undir, innihélt ræða þjálfarans mun færri eldglæðingar og meira vonleysi en í sigurræðunni fyrir leik.  Ég hafði sem þjálfari aldrei tapað jafn stórt.  Eftir leik tók ég eftir einu. Stelpurnar voru ekkert að hugsa þetta of mikið nema mögulega í 10 mínútur eftir leikinn þegar farið var yfir hann.   Svo var það bara búið.   Lífið hélt áfram hjá þessum stúlkum.  Það drapst aldrei á vélinni sem stýrði því að brosa og hafa gaman.

Þegar þær gengu framhjá skrifstofunni og kvöddu andlega gjaldþrota þjálfara sinn sem hallaði sér aftur í skrifstofustólnum  með hendur hangandi í gólf starandi í flúorljósið í loftinu sögðu þær skælbrosandi. “Sjáumst á morgun á æfingu coach”. Svo héldu þær heim á leið. Ég þurrkaði slefið og sagði takk fyrir daginn. Stelpurnar voru þarna á allt öðrum forsendum en ég. Ég átti eftir að komast að því.

Veturinn gekk og sumarið gekk. Aldrei kom sigurleikur. En við fundum leið.  Við tókum leikinn og skiptum honum í tvennt. Fyrri hálfleikur og seinni hálfleikur. Tveir leikir. Ef við vorum 5 - 0 undir eftir fyrri hálfleik og unnum svo síðari hálfleik 1-0.  Þá endaði leikurinn fyrir okkur 1-1.  Ekki 5-1 fyrir hinum.

Þeim var nokk sama hvar þær stóðu innan veggja KSÍ. Í hvað sæti þær voru hverju sinni. Þær voru þarna ekkert fyrir KSÍ. Þær voru þarna fyrir liðið og þær sjálfar. Áhorfendum og stjórninni þótti alltaf magnað að sjá hversu kraftmiklar þær voru þegar þær komu inn í seinni hálfleik þegar leikar stóðu illa. Fyrir þeim voru þær ekki mörgum mörkum undir eins og stóð á stigatöflunni. Þær voru bara 1-0 undir.

Nýr leikur var hafinn. Síðari hálfleikur. Þetta gerðum við. Vegna þess að við vorum ekki með mannskap. Ég vildi ekki sameiningu við KR á þeim tíma og vildi taka eitt ár til fyrir samrunann. Og við vildum gera þetta og hafa gaman af.

Það sem við gerðum var að búa til okkar eigin keppni sem var raunhæf. Miðað við að þurfa að sækja stelpur allt ofan í 5. flokk. 

Á þessum tíma snérist allt fyrir mér sem þjálfari.  Til betri vegar. Ég lærði að skilja þetta upp á nýtt. Ég lærði að hlusta og leiðbeina betur. Ég lærði að vera leiðtogi um leið og mér tókst að reynast þeim traustur og góður félagi.

Þessi tími var mér afar dýrmætur. Stelpurnar á Nesinu kenndu mér þetta. Ég lærði að fótbolti eða hvaða íþrótt sem er á að snúast um það að hafa  gaman.  Það hlýtur að rugla unga leikmenn í ríminu þegar þeir lesa fréttir um það að einn leikmaður er seldur á 55 milljarða króna.

Ungir leikmenn kunna að hugsa þetta.  “Hann er að gera það sama og ég. Ég er í A-liðinu. Ég ætla að ná mér í 55 milljarða”.     

Útgerð. Pressa. Gleðin tekin úr boltanum. Alvarleikinn verður ofaná og yfirleitt endar það með því að vonbrigðin rífa þig niður.

Vertu heldur með. Taktu þátt. Gerðu þitt besta og hafðu gaman af íþróttinni. Leggðu þig alltaf jafn mikið fram og þú getur hverju sinni. Suma daga getur þú það ekki. Það er allt í lagi. 55 milljarða maðurinn er alveg eins og þú með það.

Taktu svo því sem kemur. Það vinnur ávallt með þér sem leikmaður. Hugaði alltaf fyrst um íþróttina sem þu stundar. Ekki láta samninga sem eru óraunhæfir og komnir langt út fyrir það sem telst eðlilegt rugla þig. 

Í fyrsta lagi. Þá hefur þú sem einstaklingur ekkert með 5 milljarða eftir skatt á ári að gera.  Þú ert ekki risatórt fyrirtæki sem þarft að borga laun fyrir 1000 manns á ári. Þú ert bara einn einstaklingur. Þú þarft ekki 5 milljarða. Punktur.

Að setja á sig óraunhæfar kröfur getur unnið gegn þér. Stelpurnar á Nesinu hafa nú sameinast KR og er það frábært.  Það var alltaf næsta skref áfram. En þessi tími hefði aldrei náðst með þessum hóp ef við hefðum ekki fengið að fara “okkar leið”. Þessi tími með stelpunum breytti hugsjónum mínum sem þjálfari til betri leiðar.

Með því hugarfari hef ég náð betri árangri með einstaklinga og hópa sl sex árin en ég gerði í rúmlega 20 ár á undan. Ég skila betri árangri með það sem ég geri sjálfur af því að ég næ að koma að  gleðinni við verkefnið og tek alvarleikann út. Fyrir vikið kárast hlutir og þeir eru gerðir vel.

Ég hef komist að því að stjórnun (diktík) á sér engar málsbætur þegar kemur að þjálfun meðal unglinga. Ekkert frekar en að skipa sumarstarfsmanni fyrir og krítisera vinnuframlag hans. Í dag leiðbeini ég um leið og ég reyni að læra af honum. Þú talar ekki við fólk eins og hunda. Alveg sama hver aldur hans eða hennar er. Þú leiðbeinir því ef þess þarf. Annars hlustar þú. 

Ég er ekki að tala um að hrósa þegar það á ekki við.   Alls ekki,  og hef mjög sterkar skoðanir gegn því að hrósa of mikið. Þegar þú nærð að vera félagi, sem hlustað er á. Sem nær athygli um leið og þú talar. Þá ertu kominn á góðan stað í þjálfun unglinga  og fullorðinna að mínu mati. Þá hlýtur þú virðingu. Þá færð þú hlutverk og síðast en ekki síst þá færð þú stað í þeirra lífi  það sem eftir er og þú færð þakkir fyrir að hafa leiðbeint þeim til betri vegar. 

Ef þú ferð diktík leiðina og ætlar að stjórna og setja þig ofar þeim án þess að útskýra.   Þá ertu bara einhver sem kemur inn í líf þeirra á einhverjum tímapunkti  og ert farinn úr lífi þeirra jafn hratt þegar og þú hættir að þjálfa þau. Það er sama hver pressa þjálfara þíns er, þú ert alltaf að fara þangað sem þú ert að fara sjálfur og ákveður. Þú stjórnar því.

Yfirleitt eru kröfur þjálfarans óraunhæfar. Mínar voru það með stelrpurnar á Nesinu þegar ég byrjaði. Það er alveg sama hvort þú sért tekin úr A-liðinu eða settur í B- liðið. Með því stjórnar þjálfarinn ekki  leiðinni sem þú ert að fara. Taktu ákvörðun. Settu fjölskyldu þína ofar íþróttinni sem þú stundar. Farðu í sumafrí með fjölskyldunni og láttu íþróttina bíða.

Taktu þér frí og finndu hvað það gerir. Þú sorterar líf þitt rétt og setur það sem skiptir máli ofar áhugamálinu. Ef þjálfarinn setur þig í B- liðið fyrir vikið. Taktu því þeigjandi og brosandi og hugsaðu ekki of mikið um það. Þessi þjálfari er ekki að leiðbeina þér. Hann er að refsa þér.

En mundu þetta. Hann mun aldrei koma við í þínu lífi það sem þú átt eftir ólifað og vera í samskiptum við þig eftir 30 ár. Hann er bara þarna núna. Þar til hann verður látinn fara. Hann mun ekki stýra því hvert þú ert að fara. Þú gerir það alltaf sjálfur.

Höfundur hefur starfað sem þjálfari í 29 ár og með unglinga sem afreksfólk í 17 ár.   

Góðar stundir,

Ásgeir Ólafs

Nýjast