Söngleikjaunnendur landsins sameinist

„Vorið vaknar er óður til lífsneistans sem býr í ungu fólki. Þrátt fyrir að sögusviðið sé fjarri okk…
„Vorið vaknar er óður til lífsneistans sem býr í ungu fólki. Þrátt fyrir að sögusviðið sé fjarri okkur í tíma á boðskapur verksins vel við í dag og ærin ástæða til þess að sjá það,“ segir í leikdómi. Mynd/Auðunn Níelsson.

Í Samkomuhúsinu á Akureyri er nú verið að sýna margverðlaunaðan söngleik, Vorið vaknar, stórkostleg sýning sem enginn söngleikjaunnandi ætti að láta framhjá sér fara. 

Í verkinu fylgjum við hópi ungmenna í umróti unglingsáranna, tilfinningunum sem vakna, kynferðislegri spennu og þeirri hugmyndafræðilegu byltingu sem verður þegar þau átta sig á því að það sem hinir fullorðnu predika er ekki endilega satt og rétt. Leikritið sem söngleikurinn byggir á skrifaði Frank Vedekind árið 1891, gagnrýnin á þröngsýnt samfélag og viðfangsefni eins og kynlíf, samkynhneigð og fóstureyðingar ollu miklu fjaðrafoki. Verið þótti raunar svo róttækt og gróft að það var ekki sett upp fyrr en 15 árum síðar, jafnvel eftir það hefur verkið oft verið ritskoðað og “mildari” útfærslur settar upp. Það má heita kaldhæðnislegt að verk sem fjallar að miklu leyti um þöggun, skuli hafa verið þaggð. Það er hins vegar árið 2006 sem verkið verður að Broadway söngleik sem hefur hlotið átta Tony verðlaun og fern Grammy verðlaun.

En hvaða erindi á leikverk frá 19. öld við samfélagið í dag?

Sagan er í senn gömul og ný, alltaf mun einhver hluti eldri kynslóðarinnar býsnast yfir því að ungdómurinn nú til dags sé á hraðri leið til glötunar, algjörlega óminnug þess að hafa á sínum yngri árum sjálf tilheyrt þeim hópi sem olli hneykslun hinna eldri. Blessunarlega búum við í dag ekki við öll sömu vandamálin og ungmennin í sýningunni, þar sem stúlkur og drengir hafa ekki sömu tækifæri til náms og kynlíf er svo mikið tabú að unglingarnir hafa ekki einu sinni heyrt á það minnst þegar kynferðislegar langanir fara að gera vart við sig. Önnur stef þekkjum við því miður of vel, óraunhæfar kröfur og væntingar eru hluti af lífi margra ungmenna og þöggun, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi eru mein sem ekki hefur enn tekist að uppræta. Unglingsárunum fylgja alltaf róttækar breytingar, líkamlegar sem og andlegar, áleitnar spurningar vakna, forvitni og vilji til þess að kanna mörk, bæði eigin og annarra. Viðfangsefnin eru þannig tímalaus og eiga því ekki síður við í dag eins og fyrir þar síðustu aldamót. 

Þetta hljómar kannski mjög dramatískt og þungt í vöfum, en látið ekki blekkjast, í verkinu er töluverður húmor og söngleikurinn hefði varla hlotið öll þessi verðlaun ef umfjöllunarefnið væri eintómur dauði og djöfull. Sögusviðið er vissulega Þýskaland fyrir aldamótin 1900 en grípandi tónlistin og textar færa söguna nær okkur í tíma. Tónlistarflutningurinn er frábær og upplifun út af fyrir sig. Í sýningunni er margir kraftmiklir söngvarar og er ekki einn einasta löst að finna í flutningi þeirra og framkomu.Dans er ómissandi hluti af góðum söngleik og það er óhætt að segja að hér hafi öllu verið tjaldað til. Dansatriðin eru lifandi og full af krafti, enda er danshöfundurinn, Lee Proud, margverðlaunaður og hef samið dansa fyrir ótal söngleiki bæði hér á landi og erlendis. Leikararnir framkvæma dansatriðin glæsilega, sviðið er nýtt til hins ýtrasta og upplifunin þegar tónlist, söngur og dans koma saman er hreint út sagt mögnuð! 

Sviðsmyndin er hrá og minnir að nokkru leyti á vöruhús, hún helst óbreytt alla sýninguna en er þó svo snilldarlega hönnuð að sami strúktúrinn getur þjónað hlutverki leikvallar í einu atriði en sturtuklefa í því næsta. Stálgrindur, tröppur og hæðir skapa mismunandi rými og með verulega flottri og óhefðbundinni lýsingu er sviðsmyndinni gefið enn meira vægi. Ungu leikararnir halda á ljóskösturum sem þau beina að hverju öðru, það má ef til vill segja að það sé táknrænt fyrir valdeflingu, að ungt fólk varpi ljósi á veruleika ungs fólks.

Auður Ösp, leikmynda- og búningahönnuður hefur sýnt það og sannað að hún er afar fær á sínu sviði. Búningarnir eru fallegir og sýna á skemmtilegan hátt kynslóðabilið milli ungmenna og hinna fullorðnu. Föt ungmennanna, bjartir kjólar, stuttbuxur og hnésokkar, bera með sér barnslegt sakleysi meðan gráir og rykfallnir kennararnir minna helst á molnandi styttur, í takt við forneskjuleg viðhorf þeirra. Edda Björg Eyjólfsdóttir og Þorsteinn Bachmann fara með hlutverk allra fullorðnu persónanna í sýningunni. Í verki þar sem allar fullorðnar persónur eru holdgervingar sömu afturhaldssömu aflanna, er nokkuð viðeigandi að sömu leikarar skuli fara með hlutverk þessara persóna sem allar virðast steyptar í sama mót. Jafnvel sú persóna sem virðist hvað víðsýnust og bera hag ungmennanna fyrir brjósti, þarf að lúta í lægra haldi fyrir ströngum reglum samfélagsins.

Vorið vaknar er óður til lífsneistans sem býr í ungu fólki. Þrátt fyrir að sögusviðið sé fjarri okkur í tíma á boðskapur verksins vel við í dag og ærin ástæða til þess að sjá það. Jafnvel þó einhverjir kunni að vera ósammála þessu pólitíska rétttrúnaðarrausi mínu hér að ofan, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hér, í 19.000 manna bæjarfélagi, höfum við tækifæri til þess að sjá ótrúlega metnaðarfulla og glæsilega uppfærslu á margverðlunuðum söngleik, það eitt og sér er næg ástæða til að grípa tækifærið.

-Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennastarfs á Amtsbókasafninu.

 

Nýjast