Skilaboð samgönguráðherra

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Á þessum síðustu og verstu tímum veirunnar voðalegu má greina almenna samstöðu meðal landsmanna um að hefja gagnsókn strax og sigur er unninn á vágestinum. Gert er  ráð fyrir að í þeirri sókn muni ríki og sveitarfélög hafa frumkvæði að framkvæmdum víða um land og hvetja um leið fjárfesta til að fylgja í kjölfarið og taka þátt í enn frekari uppbyggingu innviða samfélagsins.

Í viðtali við RÚV á dögunum við samgönguráðherra og formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, áréttaði hann að ríkisvaldið myndi leggja fram verulega fjármuni í ýmis konar uppbyggingu víða um land.  Hann bætti síðan við að nauðsynlegt væri að sveitarfélögin gerðu slíkt hið sama, fjárfestu í uppbyggingu til framtíðar og tækju jafnvel lán ef það þyrfti til að koma hlutunum í framkvæmd.  Í orðunum fólst að sveitarfélögin gætu ekki  látið nægja að gera kröfur á ríkisvaldið; þau þyrftu líka að leggja sitt fram og sýna að þeim væri alvara. 

Meiri kröfur til annarra

Eins og við Akureyringar þekkjum vel er forsvarsfólk í bæjarmálum töluvert iðið við að lemja á "þeim fyrir sunnan" þegar því þykir seint ganga í ýmsu sem ríkisvaldið á að hafa á sinni könnu hér fyrir norðan. Eru þá ekki spöruð stóru orðin um deyfð og jafnvel skilningsleysi valdhafa fyrir sunnan. Allt í góðu með það enda full ástæða til að halda ríkisvaldinu og alþingi við efnið. Hins vegar verður allur þessi ákafi næsta broslegur þegar kemur að þeim verkefnum sem þetta ágæta fólk ber sjálft ábyrgð á að komist til framkvæmda hér hjá okkur. Þá slær það jafnvel sunnanmönnum við með tafaleikjum og sjúklegri frestunaráráttu. Frægasta dæmið er auðvitað miðbæjarskipulagið sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014 eftir tíu ára undirbúning. Frekar en að  koma því í framkvæmd hefur bæjarstjórn skipað nefnd á nefnd ofan til að fjalla um einstaka liði skipulagsins eða það í heild. Enn sem komið er hefur nákvæmlega ekkert komið út úr því starfi nema mas og kostnaður fyrir bæjarsjóð. Á meðan gerist ekkert og það sem sorglega er að engin leið er að kenna þeim fyrir sunnan um seinaganginn.

Nýta tækifærið

Með þetta í huga eru þessi ágætu hvatningarorð samgönguráðherra, um frumkvæði heimamanna við uppbyggingu í kjölfar veirunnar, bæði tímabær og skynsöm. Að þessu sögðu tel ég vel viðeigandi að minna á tillögu mína í Vikudegi 26.09.2019 þess efnis að bærinn taki lán til að hefja framkvæmdir samkvæmt miðbæjarskipulaginu og leysi þetta mikilvæga verkefni með því úr læðingi. Þá geta áhugasamir fjárfestar og byggingafyrirtæki loks sótt um þessar dýrmætustu lóðir bæjarins og hafið uppbyggingu í samræmi við gildandi skipulag. Samkvæmt óvísindalegri rannsókn minni bendir flest til þess að öflugir fjárfestar muni þá sjá sér leik á borði og beina umtalsverðu fé til þessarar uppbyggingar. Rís þá nýr og vistvænn miðbær við hlið þess gamla í samræmi við vilja fjölmennasta íbúaþings sem haldið hefur verið á Akureyri og þó víða væri leitað. Vonandi verður hvatning samgönguráðherra til þess að  bæjaryfirvöld á Akureyri bregðist loks við og hefji framkvæmdir við uppbyggingu miðbæjar sem mun taka öðrum slíkum fram með fjölskrúðugt og lifandi mannlíf. Þar munu einnig blómstra fjöbreytt þjónustufyrirtæki sem þrífast best í kröftugum og aðlaðandi miðbæ.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

Nýjast