Sjálfsögð réttindi

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Miðflokkinn og skipar 2. sæti listans…
Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Miðflokkinn og skipar 2. sæti listans fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Lítil og meðalstór fyrirtæki hafa verið undirstaða byggðar í landinu. Þessi undirstaða riðar nú til falls ef heldur áfram sem horfir. Þessi fyrirtæki eru í nauðvörn. Þau fyrirtæki eru til dæmis fjölskyldubúin sem mynda íslenskan landbúnað. Okkur ber að standa vörð um þennan menningarlega, sögulega, efnahagslega og samfélagslega arf. Miðflokkurinn hefur einn flokka lagt fram heildarstefnu um eflingu landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Íslenskur landbúnaður er umhverfisvænn og með aukinni áherslu á skógrækt mun mikilvægi hans í umhverfismálum aukast.

Landbúnaður er ekki eina atvinnugreinin sem við höfum stundað frá landnámi, sjávarútvegur, skipar einnig sérstakan sess í menningu og sögu þjóðarinnar. Það er mikilvægt að landsmenn skynji að það kerfi sem greinin starfar eftir sé sanngjarnt, gagnsætt og hagkvæmt. Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjum eða ýtir undir samþjöppun.

Miðflokkurinn hefur lagt til að arður af auðlindum renni beint og óskipt til eigenda þeirra, þjóðarinnar.

Miðflokkurinn hefur lagt fram tillögur um breytilegt tryggingagjald. Byggðarlögum skal skipta í fjóra flokka með tilliti til þess hversu miklum hindrunum fyrirtæki mæta á hverjum stað. Í þeim byggðarlögum sem mæta mestum hindrunum verður tryggingagjaldið 0% en 6% þar sem þær eru minnstar.

Í byggðarlögum þar sem íbúar búa við skerta þjónustu ríkisvaldsins munu þeir eiga rétt á skattaafslætti. Það er nefnilega til hagsbóta fyrir ríkið og þar með skattgreiðendur að hægt sé að halda uppi þeirri þjónustu sem þegnunum ber. Sá misskilningur ríkir stundum að það að leggja t.d. niður læknisþjónustu spari, sem er ekki rétt. Horfa verður á heildarmyndina og hagsmunir íbúa vega þar mest.

Markmiðið á alltaf að vera að tryggja öllum aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Samþjöppunarstefna liðinna ára skilar því ekki. Við munum snúa þeirri þróun við og færa heilbrigðisþjónustuna aftur nær fólki um allt land.

Til að ná markmiðinu um að veita öllum landsmönnum góða þjónustu þarf að laga kerfið og nýta fjármagnið þannig að árangurinn skili sér til þjóðarinnar.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að nýbygging Landspítalans við Hringbraut er þegar komin langt fram úr áætlun þótt hún sé varla komin upp úr jörðinni.

Allir landsmenn hafa tilkall til sömu þjónustu óháð búsetu. Það á við hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu, menntun, öryggi, aðgang að orku og fjarskiptum, samskipti við ríkisvaldið eða aðra þætti. Þar sem skortur á innviðum eða aðrar aðstæður valda því að íbúar njóta ekki jafnræðis á við aðra skal það bætt.

Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Norðausturkjördæmis fyrir Miðflokkinn

og skipar 2. sæti listans fyrir alþingiskosningarnar 25. september.

Nýjast