Samstarf og sameining sveitarfélaga í Eyjafirði

Þann 6. desember sl. var eftirfarandi bókun samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar:

„Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar samþykkir að óska eftir samstarfi við önnur sveitarfélög í Eyjafirði um að gera fýsileikakönnun á sameiningu sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag. Þá verði jafnframt skoðað hvort aðrar sameiningar þyki fýsilegri í ljósi að­ stæðna. Lögð er áhersla á að öll sveitarfélögin gangi óbundin til þessarar könnunar, en bæjarstjórn telur mikilvægt að taka umræðuna og skoða kosti og galla og standa að málefnalegri umræðu meðal íbúa á svæðinu.“

Í kjölfarið var sent bréf til allra sveitarfélaga við Eyjafjörð og óskað eftir afstöðu þeirra til erindisins. Nú hafa sveitarfélögin svarað erindinu þannig að sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar, Grýtubakkahrepps, Hörgársveitar og Fjallabyggðar hafa hafnað samstarfi og telja flest ekki tímabært að skoða málið frekar að sinni. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps og Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hafa hins vegar tekið jákvætt í erindið.

Það vekur athygli í skrifum og umræðu um þetta erindi bæjarstjórnar að umræðan fer strax á það stig að ræða hvort sameining sé fýsleg eður ei án þess að málið sé skoðað frekar. Þetta er í raun merkileg niðurstaða og ber vott um að sveitarstjórnarfulltrúar vilji hreinlega ekki opna á umræðu um málið og skoða á málefnalegan hátt hvort það liggi tækifæri í því að sameina tvö, fleiri eða öll sveitarfélögin við Eyjafjörð til þess að styrkja svæðið, efla þjónustu og þar með lífsgæði íbúanna. Til þess að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun í máli sem þessu þarf að afla gagna um núverandi stöðu sveitarfé­ laganna, velta upp spurningum um æskilegt þjónustustig á öllum sviðum og hvernig því verði viðkomið, takst á við og svara spurningum um þætti sem íbúar minni og dreifaðri byggðanna hræðast vegna stærðar Akureyrar og að lokum þarf að stilla upp sviðsmyndum af nýju sveitarfélagi sem hægt er að taka afstöðu til á málefnalegum grunni en ekki eingöngu tilfinningalegum.

Þetta virðist ekki vera vilji til að gera nú, miðað við afgreiðslur flestra sveitarstjórnanna. Því er m.a. borið við að lýðræði muni minnka og sveitarfé­ lögin standi ekki eins sterk eftir því samstilltur kór veki meiri eftirtekt en einsöngur, þegar kemur að því að fylgja málum eftir gagnvart ríkinu. Þegar svona fullyrðingum er haldið fram, að því er virðist til að slá umræðuna út af borðinu, er verið að gefa sér niðurstöðu um hvernig stjórnkerfi hins nýja sveitarfélags verði fyrirkomið. Það er nefnilega þannig að í dag á sér stað mikil umræða í mörgum sveitarfélögum um aukið íbúalýðræði, sem gengur út á það að færa ákvarðanatökuna nær íbúum eftir málefnum og aðstæðum á hverjum stað. Þetta er einmitt það sem þarf að ræða og skoða í fýsileikakönnun sem til stóð að gera og vinna úr. Svo er það hitt að samstillti kórinn sé eftirtektarverðari en einsöngur er í hæsta máta einkennileg framsetning þegar verið er að ræða áhrif sveitarfélaga. Það hefur t.d. komið berlega í ljós í umræðu um Reykjavíkurflugvöll að það tók svo langan tíma samstilla kórinn að það var búið að stór skaða flugvöllinn þegar loksins heyrðist í honum. Þá er nú öflugur, sterkur og fagur einsöngur áhrifaríkari, sem bregst við þegar á þarf að halda. Viðbragðshraði í nútímasamfélagi skiptir miklu máli og þá líka aflið að baki honum þegar að samskiptum kemur við ríkið og höfuðborgarsvæðið.

Þegar íbúaþróun á svæðinu er skoð­ uð kemur í ljós að íbúar við Eyjafjörð eru í lok árs 2015 24.546 en voru í lok árs 2010 24.083. Þeim hefur fjölgað um 463 íbúa á 6 ára tímabili. Á sama tíma hefur íbúum á Akureyri fjölgað um 566 íbúa sem þýðir að þeim hefur þá fækkað verulega í öðrum sveitarfé­lögum á svæðinu. Íbúum hefur fækkað í Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð og Hörgársveit, nánast staðið í stað í Eyjafjarðarsveit en fjölgað í Grýtubakkahreppi og Svalbarðsstrandarhreppi.

Þessi þróun hlýtur að vera ákveðið áhyggjuefni. Eins og sést þá er íbúafjöldi í Eyjafirði töluvert undir fjölda íbúa í Hafnarfirði og Kópavogi og því ekki hægt að segja að um stóra stjórnsýslueiningu verði að ræða. Þá er einnig vert að skoða kostnaðinn við stjórnsýsluna. Samkvæmt upplýsingum í Árbók sveitarfélaga 2016, þar sem dregnar eru fram tölulegar upplýsingar um stöðu sveitarfélaga árið 2015, er kostnaður við stjórnsýslu allra sveitarfélaganna í Eyjafirði 1.064.215.870,kr. árið 2015. Tæplega ellefuhundruð milljónir er há upphæð. Kostnaðurinn á hvern íbúa er lægstur á Akureyri eða 34.073 kr. en er mestur 96.559 kr. á íbúa. Ef við gefum okkur að við sameiningu verði til samlegð þannig að þessi kostnaður á íbúa verði 36.000 kr. lækkar heildarkostnaðurinn um tæpar 200 milljónir. Þá fjármuni mætti t.d. nota til að bæta og efla þjónustu við íbúa, en það er einmitt það sem gerist í sveitarfélögum við sameiningu að þjónustan við íbúa eykst en stjórnsýslukostnaðurinn lækkar á móti vegna samlegðar. Þetta er einfalt reikningsdæmi og alveg þess virði að hugleiða útkomuna vel.

Það er alveg skiljanlegt að íbúar fá­ mennari sveitarfélaganna óttist yfirburðastærð Akureyrar í ljósi sameiningar. Íbúar á Akureyri eru tæp 75% af heildaríbúafjölda Eyjafjarðar. Þetta er einmitt einn af þeim þáttum sem þarf að fá umræðu um á svæðinu og hvernig þess verður gætt að allir sitji við sama borði eftir sameiningu. Í þessu sambandi er rétt að benda á hvernig til hefur tekist eftir að Hrísey og Grímsey sameinuðust Akureyri og læra af því. Óttanum við þessa stöðu verður aldrei eytt ef málin verða ekki rædd og lausna leitað.

Að sama skapi er það einmitt styrkur svæðisins hve stórt sveitarfélag Akureyri er. Stóra sveitarfélagið hefur afl og getu til að byggja upp mjög öfluga þjónustu sem íbúar nágrannasveitarfélaganna hafa notið góðs af.

Má þar nefna íþróttamannvirki og öflugt íþróttastarf, lista- og menningarstarf, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Í dag geta öll börn, unglingar og fullorðnir skráð sig í hvaða íþróttafélag sem er á Akureyri og tekið þátt í æfingum í að­ stöðu sem Akureyrarbær hefur einn kostað uppbyggingu á. Gerðir hafa verið samningar um félags- og skóla­ þjónustu við nágrannasveitarfélögin á kostnaðarverði stóra sveitarfélagsins sem dregur verulega úr kostnaði sem ella hefði lent á fámennu sveitarfé­lögunum og þá aukið tilkostnað þeirra við þjónustuna.

Í ljósi þessa er gott að velta því upp hver fjárhagsleg heilsa litlu sveitarfélaganna við Eyjafjörð væri ef þessa nyti ekki við ásamt framlögum úr Jöfnunarsjóði. Árið 2015 námu framlög úr Jöfnunarsjóði allt að 38% af tekjum minni sveitarfélaganna í Eyjafirði og 25-26% hjá þeim sem voru að­ eins stærri. Tekjur úr Jöfnunarsjaóði koma frá ríkinu og sveitarfélögunum, það verðum við að muna og því snýst málið um hvernig þessir fjármunir eru nýttir og til hvers. Aðeins hefur verið ýjað að því að lýðræði verði minna við sameiningu. Eins og fram hefur komið skil ég þá fullyrðingu ekki því núverandi staða kallar á samstarf sveitarfélaganna um mörg mál. Sum mál eru leyst með tví­hliða samningi við stóra sveitarfélagið Akureyri eins og fram hefur komið. Önnur mál eru sett í umsjá ákveðinna stofnana eða samtaka. Þar má nefna til Hafnarsamlagið, Eyþing og Atvinnu­þróunarfélag Eyjafjarðar. Verkefni eru færð til þeirra frá sveitarfélögunum og sérstakar stjórnir eru skipaðar sem hafa umsjón með verkefnunum. Nauðsynlegt fyrirkomulag miðað við núverandi skipan sveitarstjórnarmála en um leið vísir að þriðja stjórnsýslustiginu. Sveitarstjórnir framselja vald til þessara stjórna og um leið er fjarlægð stjórnunarinnar orðin mikil við íbúa svæðisins.

Þetta fyrirkomulag dregur úr lýð­ræðinu þar sem kjörnir fulltrúar velja í stjórnirnar en ekki íbúar sjálfir. Að mín mati er þetta stórhættuleg þróun og alls ekki í samræmi við aukna vitund um aukið íbúalýðræði.

Ég hef hér reynt að draga upp í stuttu máli sjónarmið mín til þess verkefnis að leita leiða til að koma af stað og styrkja málefnalega umræðu um það hvernig við íbúar Eyjafjarðar getum styrkt stöðu okkar sem ein heild og bætt öll lífsgæði á svæðinu. Ég vil því hvetja þær sveitarstjórnir sem hafa hafnað því að ganga óbundnar til samstarfs við Akureyrarbæ um gerð fýsileikakönnunar um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð í eitt eða fleiri sveitarfélög að endurskoða ákvörðun sína og gefa þannig öllum íbúum tækifæri til að ræða málið og taka afstöðu út frá gögnum í ljósi málefnalegrar umræðu.

Höfundur er bæjarfulltrúi á Akureyri.

Nýjast