PISA

Ásgeir Ólafsson. Mynd: Þröstur Ernir
Ásgeir Ólafsson. Mynd: Þröstur Ernir

Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunar PISA (Programme for international Student assessment)

Prófið er tekið á þriggja ára fresti og er fyrir unglinga í tíunda bekk. Af hverju skora börnin okkar svona lágt? „Við þurfum að taka þessar kannanir föstum tökum og halda fundi og ræða málin,“ segir málssvari skólayfirvalda í fréttum.

Er þetta allan tímann á könnu skólans? Eða kennaranna? Eða þeirra sem leggja línurnar innan veggja þeirra? Hið Íslenska Menntamálaráðuneyti?

Hér gætu legið ástæður

Þessar nýju leiðir í að hrósa öllum, sama hversu vel og illa þeim gengur í lífinu er það fyrsta sem ég vil nefna. Eru þeir að hrósa útliti frekar en árangri? Nánar um það neðar í pistlinum.

Er líklegt að unglingunum okkar sé beint í kolvitlausar áttir innan veggja skólanna með nýstárlegum og þá mögulega röngum kennsluleiðum? Ég er alls ekki að taka alla ábyrgð af nemendunum en frelsi er orðið of mikið innan skólans. Hér með opna ég þetta bréf til yfirvalda. Hver sem er innan vébanda þeirra getur svarað þessu bréfi ef áhugi er á.

Í mars næstkomandi er ég að fara að eignast mitt annað barn. Ég á eitt fyrir sem verður sautján ára þegar nýja systkinið kemur í heiminn. Þegar það er orðið sex ára byrjar það í skóla. Það er stór ástæða þess að ég skrifa þetta bréf.

Síðastliðin 15 ár hef ég unnið með börnum og unglinum. Innan veggja grunnskóla og og einnig innan veggja líkamsræktarstöðva og annarrar íþróttaþjálfunnar. Þessa þróun á prófi sem PISA kemur með og slær okkur svona harkalega í kinnina og birtist í fréttum, kemur mér ekkert á óvart. Ef barnið mitt stendur sig vel í einhverju þá hrósa ég því. Ef það stendur sig ekki vel þá hrósa ég því ekki. En ég ræði við það hvað megi fara betur. Hvað sé hægt að bæta. Skólarnir í dag leggja allt of mikið upp úr að hrósa krökkunum okkar. Þetta nær alveg nið­ur í leikskóla þar sem barn er að mótast í að vera innan um önnur börn í fyrsta sinn. Heilu leikskólarnir byggja fræði sín á hrósi. Það er sama hvað barnið gerir, það skal vera fundinn grundvöllur fyrir hrósi. Ef barn meiðir annað barn er því hrósað fyrir að biðjast afsökunar. Það gæti kallað á hegðun sem leiðir barnið á rangar leiðir. Það fer að meiða og biðst svo afsökunar til að fá hrós.

Ég var skammaður þegar ég var lítill ef ég meiddi einhvern viljandi. Þetta er alröng nálgun þykir mér sem faðir sem alið hefur upp eitt barn og unnið með fjölda barna. Ég hef engin fræði sem styðja við bak mitt í uppeldi. En á þessu máli hef ég skoðun. Mjög svo sterka skoðun. Mögulega eru einhverjir fræðimenn sem segja mig hafa rangt fyrir mér.

Hér eru nokkrar spurningar til fræðimanna og skólayfirvalda almennt. Af hverju á ég að hrósa barni fyrir að gera viljandi eitthvað rangt sem leiðréttir það svo til að fá hrós? Við sem þjóðfélag hrósum allt of mikið. Og, af hverju eru símar leyfðir í kennslustofum? Af hverju er nemanda ekki vikið úr kennslustund fyrir að sýna símanum sínum meiri áhuga en námsefninu? Hvað er það með þessi tæki sem gerir það svona afskaplega erfitt að meina notkun þess meðan á kennslu stendur?

Og foreldrar. Ef barnið þitt þarf að bæta sig í skóla. Af hverju leyfið þið barninu að taka með sér síma í skólann? Þið eruð foreldrarnir. Þið megið segja nei. Það er hlutverk uppeldis að segja já og nei. Eru símarnir kannski að hjálpa þeim í að ná fullri einbeitningu í kennslustofunum? Er mögulegt að ef við myndum hætta að samþykkja þessi tæki innan skólans þá myndum við skora hærra í næstu PISA úttekt? Getur það verið svo auðvelt? Síminn?

Gaman væri að sjá einn skóla taka af skarið og sjá hvað gerist innan þess skóla eftir þrjú ár. Kannski skorar sá skóli hærra. En, sjá fræðimenn okkar ekkert slæmt við símann? Það væri gaman að sjá einhvern ungan húmorista taka með sér sjónvarp og vídeótæki í tíma. Það hlýtur að vera í lagi. Hann tekur bara með sér heyrnartól svo það trufli ekki aðra. Setur svo eina góða ræmu í tækið meðan kennarinn talar og reynir að ná athygli hans.

Er einhver munur nema á stærð tækjanna í þessu tilfelli? Af hverju ætti að banna þessum uppátækjasama nemanda þetta ef annar nemandi má sitja við hlið hans og glápa á Youtube myndbönd í símanum sínum.

Aftur að PISA

Málið er, að það er ekkert að börnunum okkar. Það er skólakerfið sem er að klikka. Þeir leyfa of mikið. Foreldrar líka. Meðan skólinn tekur sér mörg ár í að ákveða eins einfalda reglu og að setja blátt bann á síma í skólatímum sem ætti að taka 30 mínútur að leysa á einum hádegsifundi, þá ættum við foreldrar að taka af skarið á meðan. Krakkar hafa nákvæmlega ekkert að gera með þessi tæki í skólatímum. Ekkert.

Svo að lokum. Ef við sem samfélag ætlum ekki að verða undirlögð af útlitsdýrkun af komandi kynslóð. Málið er að PISA könnunin er að hluta á ábyrgð foreldranna. En númer eitt og tvö á mestri ábyrgð skólayfirvalda. SkólayfirVÖLD. Þau hafa valdið til að breyta. Þau ættu líka að sjá með þessari breytingu hvort það gangi betur fyrir kennara að ná til nemenda sinna þegar þeir hanga ekki í símanum.

Einnig má nefna það að til að ná að byggja heildrænna og fallegra samfélag innan skólans ættu skólarnir að hætta með þessi kjánalegu útlitsverðlaun eða hvað þetta má kalla, sem veitt eru árlega. „Kroppur ársins“. „Rass ársins“. „Fallegust 2016“.

Er einhver heil brú í þessari verðlaunaafhendingu á hátíð skólans sem er stærsti viðburður hans ár hvert? Er verið að kyngera börnum okkar? Flokka þau í hópa? Hvaða hegðun skapast innan skólans? Allir sem skóla hafa gengið vita það. Þeir sem vinsælastir verða, hópa sig saman og þetta verður jafn rotið og hvert annað samfélag sem byggt er upp í pýramída þeirra sem ríkastir og frægastir eru. Nema þarna stjórnar útlitið.

Af hverju að ala þetta í börnum? Hrósum heldur þeim sem eiga það skilið og veitum akademísk verðlaun til þeirra sem skara framúr fræðilega. Ekkert annað. Engin útlitsleg verðlaun. Heldur verðlaun byggð á grunni þess sem skólinn byggir grunn sinn á. Vegna menntunar og hæfileika í að skara framúr.

Þeir sem mig þekkja og hafa lesið pistla mína finna á skrifum mínum að þetta er mér hjartfólgið og af þessu hef ég áhyggjur. Það er meiri ólga í þessum pistli en öðrum sem ég hef látið frá mér. Við verðum að leggja frá okkur þessa meðvirkni og samþykkja allt.

„Við höfum litla stjórn á þessari þróun“, segjum við foreldrar með afsökunartón. Tækin hafa tekið yfir. En hin ískalda staðreynd er sú að þú sem uppalandi misstir ekki stjórn. Það er mikið alvarlegra en það. Þú slepptir henni. En það er hægt að ná henni aftur með almennilegu barnauppeldi sem leyfir börnum að leiðast til finna sér eitthvað að gera. Að leiðast er samþykkt tilfinning. Sem leyfir börnum að langa í eitthvað án þess að fá. Að langa eitthvað er líka samþykkt tilfinning.

Ég sóttist eftir skólastjórastarfi sem stóð laust til umsóknar á síðasta ári. Allt þetta sem ég nefni hér að ofan átti að vera það fyrsta sem ég ætlaði að breyta innan þess skóla. Ég fékk ekki stöðuna. Þótti líklega of róttækur. Fyrir viku var valin „Hottie“ í sama skóla. Hún er fimmtán ára.

Góðar stundir.

Nýjast