Orðin áhrifavaldandi. Góðir lesendur.
Alla jafna bregst ég illa við áskorunum. Í slíkum aðstæðum á ég það til að fara í kerfi, fara undan í flæmingi og fara loks út um þúfur en að þessu sinni ákvað ég að taka á mig rögg, fara ekki neitt og bregðast við áskorun Önnu Lilju frænku minnar sem var penni síðasta blaðs. Ég læt öðrum það eftir að dæma um hvort það var góð ákvörðun hjá mér eða ekki.
Fyrir þá fáu sem ekki þekkja mig þá heiti ég Einar og er 34 ára gamall viðskiptafræðingur, starfsmaður á endurskoðunarskrifstofu, vinnumaður í sveit, sjálfboðaliði, gjaldkeri, starfsmaður Urðakirkju, lífstílsbloggari og aukaleikari í kvikmyndum sem teknar eru upp í Svarfaðardal. Gagnrýnendur eru almennt sammála um að mín besta frammistaða hingað til hafi verið í íslensku sveitaraunsæisdramatíkinni Svaninum þar sem óvænt innkoma mín í 3,24 sekúndur á lykilstað í kvikmyndinni undirstrikaði á áreynslulausan hátt þá mannlegu angist og djúpstæðu tilfinningalegu togstreitu sem aðalsögupersónur myndarinnar glímdu við. Óþarfi er að taka það fram að þetta tiltekna atriði var ekki talið vera við hæfi ungra barna og fólks með undirliggjandi sjúkdóma.
Ég er Svarfdælingur og þar eins og víðar eiga flestir íbúar allt sitt undir veðri og vindum. Yfirstandandi vetur er með þeim allra leiðinlegustu í seinni tíð hvað veðurfar snertir og hefur þetta ástand haft skelfileg áhrif. Einkum er það sálarlíf fólks sem beðið hefur mikinn skaða. Þegar veðurfréttastefið glymur í sjónvarpstækinu fyllist fólk réttlátri reiði í bland við hræðslu og skelfingu og ekki skánar það þegar hver óveðurskrákan á fætur annarri birtist á skjánum í líki veðurfræðings, veifandi gulum og appelsínugulum viðvörunum glottandi við tönn.
Heima hjá mér hefur það verið reiknað út á vísindalegan hátt að ákveðin fylgni er á milli þess hvaða veðurfræðingur flytur veðurfréttirnar hverju sinni og hversu hörmulega vond spáin er. Það er því afar auðvelt að skjóta sendiboðann og skella skuldinni á ómögulega og tafsandi veðurfræðinga sem engu kunna að spá þegar hvert stórviðrið og eignatjónið rekur annað. Auðvitað væri hægt að láta allt lönd og leið og hlusta ekki á veðurspánna í þeirri von að andlega ástandið skánaði en það er ekki endilega víst að veðrið myndi eitthvað skána þrátt fyrir það.
Það má alltaf gera veður út af veðrinu jafnvel þó það sé ekkert veður. Síðan má líka gera veður út af útlitinu. Ekki bara veðurútlitinu heldur útlitinu almennt. Nú færist það sífellt meira í vöxt að fólk sem er vel við vöxt fari í fegrunaraðgerðir sem eru jafnvel framkvæmdar af viðvaningum í heimahúsum, baksundum og bílskúrum. Þá er alls konar hættulegum eiturefnum á borð við kítti, frauð og sílikon sprautað í líkama fólks og skinnbútar færðir til með frumstæðum verkfærum utan alls regluverks og án eftirlits heilbrigðisyfirvalda. Sérstaklega hafa saklausar og varnarlausar ungar stúlkur og aðþrengdar ráðvilltar eiginkonur orðið fyrir barðinu á fegrunaraðgerðaplágunni enda hefur samfélagið brenglað gildismat þeirra svo mjög að allri skynsemi er kastað fyrir róða. Allar konurnar vilja jú fá fylltar varir, lögulega líkamsbyggingu og fullkomna kjálkalínu. Útlitið hefur oft verið slæmt en aldrei sem nú.
Þá er ég ekki að tala um útlit umræddra kvenna heldur mitt eigið útlit. Í bloggskrifum mínum gegnum árin hef ég lagt mikla áherslu á innri fegurð þar sem það er marg sannað að flagð er undir fögru skinni. Tal mitt um innri fegurð tengist ytra útliti mínu ekki á nokkurn hátt. Alls ekki. Ef og þegar ég ákveð að fara í fegrunaraðgerð verður það gert að mjög ígrunduðu máli, eftir mikla yfirlegu og að undangengnu útboði meðal iðnaðarmanna og verktaka á evrópska efnahagssvæðinu samanber lög um opinber útboð þegar um stórframkvæmdir er að ræða.
Áhrifavaldar eru ekki bara með útlitsdýrkun þjóðarinnar á samviskunni heldur einnig gengdarlaust orkudrykkjaþamb landans daginn út og daginn inn. Hugsið ykkur glerungseyðinguna. Uss uss. Auðvitað eiga þessir áhrifavaldar miklu frekar að drekka mjólk og neyta íslenskra landbúnaðarafurða sem gefa hraustlegt og gott útlit en það þykir greinilega ekki nógu fínt. Bændasamtökin gætu nú alveg laumað að mér nokkrum mjólkurfernum og eins og einu krydduðu lambalæri í staðinn fyrir jákvætt umtal um íslenskar landbúnaðarafurðir árum og áratugum saman en ég er greinilega ekki nógu áhrifamikill áhrifavaldur til þess. Skellur.
Talandi um skell. Nú á enn einu sinni að freista þess að auðvelda fólki hér á landi að kaupa áfengi. Í þetta skiptið er þó ekki verið að tala um vín í matvöruverslanir heldur er verið að tala um vín í netverslanir. Þvílík og önnur eins þvæla. Auðvitað á bara að halda sig við að hafa þetta allt í röð og reglu. Mat í matvöruverslunum, net í netverslunum og áfengi í áfengisverslunum. Síðan á að hafa sumar í sumarbúðunum og fanga í fangabúðunum. Annars fer þetta allt bara út í tóma vitleysu.
Það er við hæfi að enda þennan alvarlega pistil á frumsömdu ljóði. Ljóðið heitir „Angist áhrifavaldsins“ og var samið þegar fréttir bárust af því að samkvæmt tekjublaði DV lifa margir hinna svokölluðu áhrifavalda undir fátæktarmörkum. Setti ýmsa hljóða við þær fréttir. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart þegar myndir af áhrifavöldunum eru skoðaðar nánar. Þá sést að oftar en ekki dvelja þeir á ódýrum sólarströndum eða í heitum löndum þar sem framfærslukostnaður er mun lægri en hér á landi. Margir áhrifavaldanna sem birtast á Instagram eru skringilegir á litinn, grindhoraðir og augljóslega vannærðir. Þá eru fjárráðin greinilega víða með þeim hætti að í stað venjulegs fatnaðar þurfa áhrifavaldarnir að klæðast skjóllitlum og götóttum fatapjötlum, jafnvel gegnsæjum. Viljum við að þessar vonarstjörnur okkar Íslendinga flýi land vegna bágra kjara?
Ég bara spyr.
Út við ystu sjónarrönd
sit ég einn á sólarströnd
og fáklæddur ég felli tár
fátæktin er býsna sár.
Ó sú pína ó sú raun
að vera með slík lúsarlaun.
Einn í hljóði harm minn ber
hugurinn er sem hálað gler.
Ein er leið úr krísu út
afklæðast og setja upp stút
ungur sexý pósur nam
og hala inn lækum á Instagram.
Ég þakka þeim er lásu og bið lesendur vel að lifa. Ég skora á vin minn Birki Örn Stefánsson að skrifa í næsta blað. Góðar stundir.