Mótum framtíðina saman

Sem íbúi á Akureyri og fyrrum formað­ur samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði árið 2005 fagna ég að umræða um sameiningu sveitarfélaganna. Árið 1990 voru sveitarfélögin 33 talsins á svæði Eyþings en eru 13 í dag þannig að hægt og sígandi hefur okkur miðað áfram í rétta átt.

Það er alltaf gagnlegt að skoða söguna og hvaða lærdóm má draga af henni. Sameiningarverkefnið var mér mikil og dýrmæt reynsla og má segja að það hafi verið mín eldskírn í pólitík. Í sameiningarnefndina voru skipaðir tveir einstaklingar frá hverju sveitarfélagi sem unnu sameiginlega að greiningum og kynningarefni. Samstarfsnefndin vann prýðisvel við að greina kosti og galla sameiningar. Farið var yfir styrkleika hvers samfélags og möguleika.

Sameiningin átti að skila aukinni samkeppnishæfni svæðisins en einnig sókn og krafti til að takast á við aukin þjónustuverkefni í þágu íbú­anna. Einfalda átti stjórnsýsluna með fækkun samstarfsverkefna. Tillögurnar áttu að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri, auka fagmennsku og fækka í yfirstjórn. Vel sóttir íbúafundir voru haldnir í hverju sveitarfélagi og þar voru hreinskiptar umræður og líka hörð gagnrýni.

Árið 2005 voru íbúar hér í Eyjafirði rétt um 23.000 talsins í níu sveitarfé­lögum. Skoðanakönnun sem RHA gerði sumarið 2005 sýndi töluvert fylgi með sameiningu á Akureyri og Siglufirði en skýra andstöðu í hinum sveitarfélögunum þannig að okkur varð strax ljóst að það væri við ramman reip að draga. Umræður í fjölmiðlum, og í heita pottinum, á haustdögum voru síð­an mjög neikvæðar og togstreitan á milli sveitarfélaga var opinber.

Niðurstöður kosninganna 8. októ­ber voru mjög afgerandi og tillögunar hér, sem og á landsvísu, voru flestar kolfelldar. Það er líka athyglisvert að skoða kosningaþátttökuna. Hún var almennt betri í fámennum sveitarfélögum. Hér á Akureyri var hún vægast sagt dræm eða tæp 23% og af þeim sögðu 44.4% já en 55,6 % voru á móti. Til samanburðar var hún 82% í Grýtubakkahreppi. Þar á bæ voru 99% á móti sameiningatillögunni en 1% með! 

Það er ljóst að samstarfi sveitarfélaganna er háttað á marga vegu. Þau eiga í samstarfi um t.a.m. Vaðlaheiðargöng, heilbrigðiseftirlit,  ferðamál, atvinnu­þróun, skólamál og rekstur hafna, svæð­isskipulag og menningarstarfsemi. Flest verkefnin ganga þokkalega vel og án þess að íbúar finni í raun fyrir því hver sinnir verkefnum og þeir spyrja þá af hverju þarf að breyta? Það viðhorf kemur líka fram í svörum sveitarstjóra í síðasta tölublaði Vikudags. Þeir eru hæstánægðir með skipan mála þrátt fyrir augljósan lýðræðishalla og takmarkaða getu til að hafa áhrif á samstarfsverkefnin.

Hér eru sjö sveitarfélög að þjónusta tæplega 25.000 íbúa. Íbúafjöldinn er aðeins minni en í Hafnarfirði. Á þessum tólf árum sem liðin eru frá síðasta sameiningarátaki hafa orðið miklar framfarir í rafrænni þjónustu við íbúa og eðli samskipta við bæjar eða sveitarskrifstofurnar breyst.

Átakið 2005 var gagnrýnt fyrir að frumkvæðið og dagsskipanin væri frá ráðherra. Sömu aðferðarfræði hafði verið beitt árið 1993 og árangurinn rýr. Þá var kallað eftir að frumkvæðið ætti að koma frá íbúunum sjálfum. Og nú kemur frumkvæðið frá Akureyringum og þá verða sennilega fyrstu viðbrögð litlu sveitarfélagana að pakka í vörn. Þrátt fyrir að íbúar þeirra að stórum hluta sæki atvinnu, þjónustu og afþreyingu til Akureyrar þá virðist enn ríkja óskiljanlegur ótti og tortryggni í garð Akureyrar.

Reynslan af sameiningu við Grímsey og Hrísey gefur ekki tilefni til þessa ótta. En það er full ástæða til að greina tortryggnina og svara henni.

Í umræðunni árið 2005 þá birtist þessi ótti og skortur á trausti líka. Og óttinn var margs konar. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna var misjöfn og það vakti ótta um að íbúar þyrftu að taka á sig auknar byrðar. Það var ótti við að skólahald myndi leggjast af í dreifbýlinu. Óttast var að öll störf myndu flytjast til Akureyrar. Ótti var við að snjó­mokstri yrði hætt í sveitum. Óttast var að Akureyringar myndu taka yfir fjallskilin. Og hvert yrði nafnið á sveitarfélaginu – yrði það Eyjafjarðarborg, Súlubyggð eða Akureyri? Myndi staðarvitundin hverfa við nýtt stjórnsýsluheiti? Hættum við að vera Svarfdælingar, Grenvíkingar og verðum eitthvað annað ef að við sameinumst? Í hvern á að hringja ef að það er laus hestur á Eyjafjarðarbraut? – ekki hringjum við í Kastalann við Geislagötu! Allt voru þetta spurningar og gagnrýni sem sett var fram á íbúafundum og var svarað, en málefnaleg svör dugðu ekki til.

Þetta er ekki ótti sem einskorðast við Íslendinga. Það eru nákvæmlega sömu áskoranirnar í sameiningarvið­ræðum í Luxembourg eða Svíþjóð. Fólk er hrætt við breytingar og það er það sem þarf að vinna með í næstu sameiningarviðræðum.

Átakið 2005 átti að efla sveitarstjórnarstigið og færa fleiri verkefni þangað frá ríkinu. En samskipti ríkis og sveitarfélaga eru eilíft og súrt þrætuepli. Sporin hræða og lítill vilji er að taka að sér aukin verkefni þegar ásættanlegt fjármagn fylgir ekki. Enda er lítið rætt um tilfærslu verkefna af hálfu ríkisvaldsins.

Þá hljóta sameiningarhugmyndir bæjarstjórnar Akureyrar í dag að snúast um betri rekstur og nýta útsvarið betur sem á að vera skylda sveitarstjórnarmanna og allra hagur. Það munu alltaf koma fram efasemdir um hvort að þetta sé rétta sameiningin, rétti tíminn og hvort að vinnubrögðin séu rétt. En ég hvet sveitarstjórnarfólk til að vinna áfram að sameinuðum Eyjafirði – draga upp mynd af sjarmerandi sveitaborg sem myndar enn betra mótvægi við höfuð­borgarsvæðið. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við sterkari saman.

Höfundur er fv. formaður í samstarfsnefnd um sameiningu Eyjafjarðar árið 2005.

Nýjast