20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Mikilvægt að rödd hjúkrunar heyrist
Deild hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð var stofnuð þann 16. janúar 2018. Undirbúningsvinna hófst í mars 2017 þegar Norðurlandsdeild FíH var lögð niður en sú deild spannaði stórt svæði, allt frá Þórshöfn vestur á Blönduós. Hin nýja deild tekur því yfir mun minna svæði og er von félaga hennar að það leiði til öflugra starfs innan félagsins og auki samstarf á milli hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð.
Stofnfundur var haldinn á Öldrunarheimili Akureyrar í Hlíð og var mæting nokkuð góð. Lög voru samþykkt og stjórn kosin, hana skipa Lóa Maja Stefánsdóttir formaður, Kristjana Þórisdóttir gjaldkeri, Helga Erlingsdóttir ritari, Sigrún K. Óskarsdóttir og Þórdís Rósa Sigurðardóttir meðstjórnendur.
Mikilvægt er að rödd hjúkrunar heyrist og eru helstu stefnumál deildarinnar að vinna að eflingu og framgangi hjúkrunar við Eyjafjörð. Standa vörð um fagmennsku í hjúkrun, stuðla að fræðslu og þróun hjúkrunarþekkingar og vera málsvari hjúkrunar. Allir hjúkrunarfræðingar við Eyjafjörð hvort sem þeir eru starfandi eða hættir störfum eru velkomnir að skrá sig í deildina á netfang eyjafjordur@hjukrun.is en samkvæmt skrá Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga erum við 426 talsins á svæðinu.
Tilgangur deildarinnar er eins og áður segir að efla framgang hjúkrunar, það verður ekki gert án aðkomu hjúkrunarfræðinga og er mikilvægur liður í því að efla samvinnu hjúkrunarfræðinga og þeirra stofnana sem þeir vinna hjá. Að okkar mati er lykilþáttur í eflingu hjúkrunar og ímynd hennar að hjúkrunarfræðingar sem og þeirra vinnustaðir beri virðingu fyrir kollegum sínum og störfum sem þeir inna af hendi. Með þetta í huga var ákveðið að fyrsta verkefni deildarinnar væri kynningarherferð á störfum hjúkrunarfræðinga á hinum ýmsum stöðum svæðisins.
Hjúkrunarfræðingar munu skrifa grein um sinn starfsferil og vangaveltur um hjúkrunarstarfið. Einnig er hafin undirbúningsvinna fyrir alþjóðadag hjúkrunar hinn 12. maí og viku hjúkrunar en Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) og Öldrunarheimili Akureyrarbæjar (ÖA) standa að því saman, en þessar stofnanir hófu samstarf fyrir 2 árum. Einnig er samstarf á milli hjúkrunarráðs SAK og LSH sem hinar stofnanirnar fá að njóta góðs af.
Slíkt samstarf er hluti að því að efla hjúkrun. Deild hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð mun nú einnig vera með í þessari vinnu og er þetta afar mikilvægur þáttur í þeirri vinnu sem deildin leggur áherslu á efla. Á komandi vikum og mánuðum munu hjúkrunarfræðingar í Eyjafirði skrifa pistla í Vikudag þar sem þeir segja frá og kynna starf sitt.
-Stjórn deildar hjúkrunarfræðinga