Mikilvægi hreyfingar í veirufaraldri

Arna Valgerður.
Arna Valgerður.

Það þarf kannski ekki að fjölyrða um mikilvægi hreyfingar og líkamsræktar, það hafa allir heyrt um kosti þess að hreyfa sig. Margsinnis hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif reglulegrar hreyfingar með rannsóknum. Hreyfing hefur áhrif á hjarta- og æðakerfi, bein, liði og vöðva og svo auðvitað ónæmiskerfið. Regluleg hreyfing hefur þó ekki aðeins áhrif á líkamlega þætti, hreyfing er nefnilega eitt sterkasta meðalið við streitu og kvíða. Það að taka sér smá tíma frá amstri dagsins, ná púlsinum upp, svitna aðeins og ýta undir endorfín framleiðslu líkamans með góðri æfingu gerir öllum gott og dregur úr streitu.

Áhyggjur yfir margvíslegum hlutum sækja að okkur þessa dagana, margir þurfa að endurskipuleggja sig að miklu leyti og okkur eru settar hinar ýmsu takmarkanir. Við þurfum hins vegar að muna eftir að hugsa um okkur sjálf, ekki bara að þvo hendurnar og nota sótthreinsipritt, við þurfum að gæta heilsu okkar á fleiri vegu. Þrátt fyrir að aðgengi okkar að líkamsræktarstöðvum og íþróttaæfingum sé skert þá er þetta tíminn til að hugsa í lausnum og út fyrir kassann. Gefið ykkur tíma til að hreyfa ykkur. Það þarf ekki að vera nema 30 mínútur á hverjum degi og það eru ótal margar leiðir aðrar en að fara í ræktina.

Fáðu þér göngutúr þegar veður leyfir, veldu lengri eða meira krefjandi gönguleið þegar þú vilt taka meira á. Farðu út að leika með börnunum eða upp í brekku að renna á sleða. Útivistarsvæðin í Kjarnaskógi og í Naustaborgum eru opin öllum og því tilvalið að skella sér á gönguskíði eða göngutúr. Það er líka hægt að gera æfingar heima, taktu hnébeygjur, armbeygjur, framstig og afturstig, dýfur, maga- og bakæfingar – notaðu ímyndunaraflið! Það þarf ekki alltaf að eiga flottar græjur heima til að gera æfingar, settu dót í tösku eða bakpoka og gerðu æfingar með þyngd ef þig langar.

Ef þig skortir hugmyndir þá er afar einfalt og skemmtilegt að skoða hinar ýmsu heimaæfingar á netinu. Það þarf ekki að vera flóknara en að slá inn „home workout“ í leitarvél og þú færð yfir tvær milljónir niðurstaðna. Það má líka benda á að okkar helsta íþróttafólk er flest allt í sömu aðstæðum og við, margir þessara einstaklinga eru mjög duglegir að deila með okkur sínum æfingum á samfélagsmiðlum og það er ekki bara skemmtilegt að fylgjast með heldur líka fróðlegt.

Láttu þér líða vel á erfiðum tímum – ekki gleyma að hreyfa þig!

-Arna V. Erlingsdóttir, B.A. í sálfræði og M.Sc. í íþróttavísindum og þjálfun og handboltakona

 

Nýjast