Mikilvægi fjölbreytni í ferðaþjónustu!
Þegar fólk er spurt hvað knýi efnahagsbatann á Íslandi síðustu ár er svarið jafnan: „Ferðaþjónustan.“ Gróskan í ferðaþjónustu er orðin styrkasta stoð íslensks efnahagslífs, enn stærri en sjávarútvegur og orkusækinn iðnaður, og eykur á nauðsynlega fjölbreytni atvinnulífs. Með sama hætti er mikilvægt að næg fjölbreytni sé innan ferðaþjónustunnar sjálfrar.
Þegar talað er um fjölbreytni innan ferðaþjónustu er ekki einungis átt við margbreytilegt framboð á afþreyingu og þjónustu við ferðalanga. Miklu skiptir líka fjölbreytni þeirra hópa gesta sem hingað sækja. Engu að síður koma annað veifið fram gagnrýnisraddir sem reyna að gera lítið úr sumum hópum ferðafólks, rétt eins og stýrð einsleitni sé lausnarorð til framtíðar. Hér má nefna gagnrýni á bakpokaferðalanga sem gangi eða hjóli um landið og fari sparlega með peningana sína og á farþega skemmtiferðaskipa sem séu „fyrir öðrum ferðamönnum!“
Einn besti mælikvarðinn á velgengni fyrirtækja er ánægja viðskiptavina, sem mæla gjarnan með þjónustu viðkomandi fyrirtækis við aðra. Sama lögmál gildir um ánægju viðskiptavina með áfangastaði á borð við Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Bakpokaferðalangarnir, sem landið okkar laðar til sín, eru margir hverjir efnalitlir námsmenn er að loknu námi komast í meiri álnir og sækja okkur aftur heim sem slíkir. Farþegar skemmtiferðaskipa eru andstæða við fátæka bakpokaferðalanga að því leyti að þeir eru yfirleitt vel stæðir. Líkt og bakpokaferðalangarnir koma þeir gjarnan aftur til lengri dvalar á öðrum forsendum sem „hefðbundnari ferðamenn“. Gríðarmiklu skiptir líka gott umtal þessara ólíku hópa um landið eftir góð kynni. Gott orðspor er viðvarandi verkefni innan ferðaþjónustunnar sem alltaf þarf að hlúa að og þar þurfum við að eiga sem flesta og fjölbreyttasta meðmælendur.
Reynsla annarra þjóða sýnir að ferðaþjónusta getur verið afar viðkvæm fyrir ytri áhrifum. Hér heima er skemmst að minnast gossins í Eyjafjallajökli og áhrifa þess á flugsamgöngur, afbókanir og fækkun ferðamanna á þeim tíma. Alkunna er að ferðaþjónustan gæti átt undir högg að sækja ef hér yrði stórgos á næstu árum sem jafnvel hamlaði flugi til og frá landinu um lengri tíma. Í því sambandi er vert að benda á að skemmtiferðaskip eru ekki nándar nærri eins viðkvæm fyrir slíkum náttúrhamförum. Þannig hafði gosið í Eyjafjallajökli lítil sem engin áhrif á komu skemmtiferðaskipa hingað til lands. Við slíkar aðstæður getur því verið gott að hafa ekki öll eggin í sömu körfu!
Til fróðleiks
Komur skemmtiferðaskipa skiluðu þjóðarbúinu á 8. milljarð króna í tekjur árið 2017 og sköpuðu um 300 heilsársstörf, mörg hver á landsbyggðinni þar sem ferðaþjónustan á undir högg að sækja. Þetta gerðist þrátt fyrir að farþegar skemmtiferðaskipa væru einungis um 6% ferðmanna hér á landi.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands og formaður Cruise Iceland.