20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Menningarslys við strendur landsins ef ekkert verður að gert!
Fyrir skemmstu bárust svör frá þremur ráðherrum við spurningum mínum varðandi sjóvarnir almennt og skráningu og vernd menningaminja á ströndum landsins sem bornar voru fram af gefnu tilefni.
Vitað er að víða hefur hafið gengið á ströndina og afmáð menningarminjar sem þar voru. Þá er ljóst að þær breytingar sem eiga sér nú stað á loftslagi, veðurfari og sjávarstöðu geta orðið til þess að auka þörf fyrir sjóvarnir og annan viðbúnað til að bregðast við hættu af sjávarflóðum.
Sjávarborðsbreytingar og sjávarborðsmælingar
Það er í verkahring sveitarfélaga að fylgjast með sjávarrofi og leggja fram óskir um varnir gegn sjávarflóðum og aðgerðum til að stöðva rofið. Ýmis vitneskja um sjávarrof og þörf fyrir sjóvarnir liggur fyrir hjá sveitarfélögunum og Vegagerðinni, sem annast gerð sjóvarnaáætlunar, og Vísindanefnd um loftslagsbreytingar, sem vinnur að skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi, mun leggja mat á líklegar breytingar á sjávarborðshæð vegna loftslagsbreytinga og afleiðinga þeirra. Ætlunin er að Veðurstofa Íslands og fleiri aðilar nýti þá þekkingu sem fyrir liggur á þessu sviði, og safnast mun, til þess að gera hættumat vegna sjávarflóða og er það vel.
Talsverð þekking á sjávarborðsbeytingum og sjávarrofi liggur fyrir hér á landi og ekki fer á milli mála að nauðsynlegt er að fylgjast vel með þróuninni á þessum vettvangi þar sem byggð í þéttbýli og dreifbýli er í húfi. Það vekur því nokkra undrun að enginn opinber aðili beri ábyrgð á því að gera sjávarborðsmælingar, halda saman þeirri vitneskju sem þær myndu skila og koma henni á framfæri á vettvangi samfélagsins. Nauðsynlegt er að bæta þar úr hið fyrsta.
Menningarminjum skolar burt
Undanfarin ár hafa borist ábendingar úr ýmsum áttum um að menningarminjar á ströndum landsins séu í hættu vegna sjávarrofs og vitað er að sums staðar hefur hafið þegar afmáð slíkar minjar til óbætanlegs tjóns fyrir íslenska menningarsögu.
Minjastofnun Íslands hefur þróað aðferðir til að skrá fornleifar við ströndina og gert drög að áætlun um það verkefni, sem er hafið í litlum mæli, en gengur alltof hægt vegna fjárskorts og þar verður að spýta í lófana svo ekki fari illa í ljósi þess að vitað er um fjölda minjastaða sem liggja undir skemmdum eða eru í yfirvofandi hættu vegna ágangs sjávar.
Í svari mennta- og menningamálaráðherra við spurningum mínum um skráningu og vernd menningarminja á ströndum landsins, sem unnið var af Minjastofnun Íslands, kemur fram að skráning allra minja á strandlengju landsins myndi að líkindum kosta um 330 millj. kr. Þetta er í rauninni ekki mikið fé en málefnið er aðkallandi og ættu stjórnvöld að gera það að forgangsmáli að hrinda því í framkvæmd áður en mikilvægur þáttur í menningarsögu þjóðarinnar fer í sjóinn og hverfur um aldur og ævi.
Nauðsyn ber til að gerð verði verndar og aðgerðaráætlun fyrir menningarminjar á ströndum landsins. Verstöðvar, sjóbúðir, naust, uppsátur og önnur mannaverk sem voru liður í lífsbaráttu fyrri kynslóða eru mikilvægur hluti menningararfs okkar.
Við höfum ekki til að dreifa glæsihöllum eða húsagerðarlist kónga og keisara Evrópu. Saga okkar er varðveitt í lágreistum menningarminjum hvarvetna á strandlengju landsins og okkur ber að sýna henni tilhlýðilegan sóma og tryggja fjármagn til skráningar, rannsókna, vöktunar og sjó varna þar sem því verður við komið.
Höfundur er alþingismaður VG í Norðvesturkjördæmi.