20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Meira; bara einn dropa af blóði úr Leikfélagi Húsavíkur
Leikfélag Húsavíkur var stofnað árið 1900 og fagnar því 120 ára afmæli sínu. Félagið hefur fengist við hvers konar verk í gaman, alvöru og söng og hlotið lof fyrir. Á sviðinu í gamla Samkomuhúsinu á Húsavík hafa verk verið sýnd í fyrsta skipti á Íslandi. Félagar í Leikfélagi Húsavíkur hafa gegnum áratugina skapað töfra hvort sem á sviði eða baksviðs; í leik, leikmynd, lýsingu eða förðun. Það eru forréttindi að starfa í leikfélagi sem þessu. Það skipta allir máli, sama hvaða hlutverki þeir gegna í leikhúsinu.
Á þessu afmælisári var ákveðið að setja upp Litlu hryllingsbúðina eftir Howard Ashman með tónlist Alan Menken. Verkið er byggt á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Verkið á sér áhugaverða sögu enda sérstakt söngverk í ákveðnu töfraraunsæi. Megas á íslenska söngtexta og Gísli Rúnar Jónsson þýddi talað mál.
Leikstjóri verksins hjá félaginu er Vala Fannell en við þekkjum bæði vel valdar persónur í verkinu og tónlist sem heilla alla sem á hlýða. Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem býr í kjallaranum í blómabúð hjá Markúsi blómasala sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga illa og fáir viðskiptavinir á ferli. En í búðinni starfar hin fallega Auður við afgreiðslu sem Baldur er ástfangin af. Hún á hinsvegar kærasta sem kemur illa fram við hana enda annálaður skíthæll. Baldur fjárfestir í plöntu sem breytir tilveru hans og allra í kringum hann. Hún talar og lofar honum frægð og frama en nærist hinsvegar á mannablóði og þarfnast þess að fá ferskt mannakjöt. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilega afleiðingar eins og leikhúsgestir munu sjá.
Arnþór Þórsteinsson fer með hlutverk Baldurs og sprengir tilfinningarskalann frá einfeldni til ástarblossa, frá reiði til haturs. Framúrskarandi leikur og næmni hans á sviðinu er áberandi. Valdís Jósefsdóttir leikur hina fríðu Auði afgreiðslustúlku sem skilar hlutverki sínu ákaflega vel með töfrandi tónum. Karl Hannes Sigurðsson leikur tannlæknadrullusokkinn þannig að maður spyr sig með bros á vör; hvað ertu eiginlega? Benóný Valur Jakobsson fer með hlutverk hins þreytta blómasala og bíður þess eins og komast burt úr búðinni. Sönghópurinn sem svífur um sviðið og tengir verkið ákaflega vel saman toppa Pointer Sisters í söng og gleðja alla sýninguna. Að henda í eins og eina hryllilega plöntu á sviðinu er vel að verki staðið auk þess sem tal og taktur hennar tóna reglulega vel saman hjá þeim Sigurði Illugasyni og Magnúsi Pétri Guðmundssyni. Á sviðinu er fimm manna band sem leikur undir og vandasamt að koma heilli hljómsveit fyrir á þessu litla sviði í gamla Samkomuhúsinu. Tónlistin spilar stóran þátt í verkinu og kemst frábærlega og hugljúft til skila til áhorfenda.
Það er full ástæða til að kíkja í gamla Samkomuhúsið á Húsavík og upplifa þessa sýningu sem er í senn skemmtilega kómísk og einlæg, stútfulla af söng og gleði þó að endalokin verði önnur en maður ætlaði sér í upphafi verks. Leikfélagi Húsavíkur tekst hér enn og aftur að tækla stórverk, gera að sínu með metnað að leiðarljósi og stuðla að nýliðun á sviði og utan sviðs um leið. Líttu við hjá Leikfélagi Húsavíkur og til hamingju með afmælið.
-Hjálmar Bogi Hafliðason