20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Mannekla kemur niður á almennri löggæslu
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að mönnun löggæslu á Íslandi þurfi að vera í takt við þarfir samfélagsins. Því þurfi að gera tímabundið átak með það að markmiði að fjölga í lögreglunámi á háskólastigi og tryggja þannig aukið öryggi og fagmennsku innan lögreglunnar. Með fjölgun menntaðra lögreglumanna er unnt að bæta þjónustu, stytta rannsóknartíma og auka gæði lögreglustarfa.
Viðvarandi mannekla
Því miður hefur ekki tekist að draga úr manneklu meðal lögreglumanna hérlendis síðustu fimmtán ár. Ísland er með einna fæsta lögreglumenn í Evrópu miðað við höfðatölu og hvergi hefur lögreglumönnum fækkað jafn mikið hlutfallslega sl. áratug og hérlendis. Mannekla kemur niður á almennri löggæslu, forvörnum og frumkvæðisvinnu og eykur álag á lögreglumenn. Samkvæmt skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur fólksfjölgun, fjölgun ferðamanna og fækkun lögreglumanna komið niður á löggæslu, ekki síst í dreifbýli.
Við vitum öll hversu mikilvægt það er að lögreglan búi yfir menntuðum lögreglumönnum, fjárveitingar til lögreglu hafa aukist síðustu ár og átaki hefur verið hrint í gang til þess að fjölga lögreglumönnum, en það mun þó taka nokkurn tíma þar til við komum til með að sjá þær aðgerðir bera almennilegan árangur. Nám til starfsréttinda tekur nú tvö ár og mögulegt er að bæta við sig einu ári til þess að ljúka náminu með BA-gráðu. En almennt tekur um 5 ár að mennta, þjálfa og byggja upp reynslu hjá lögreglumönnum. Enn eru nokkur ár í að búið verði að mennta og þjálfa nægilega marga lögreglumenn svo gott sé. Lögreglan vill geta gert betur en þarf til þess verkfæri í töskuna. Svo að lögreglan og önnur lögregluyfirvöld geti verið í stakk búin til þess að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og fjarskipta- og nettengingu þarf að leita annarra leiða til þess að styrkja lögregluna og það getum við gert með því að nýta sérfræðinga á öðrum sviðum í auknum mæli.
Borgaralegir sérfræðingar
Lögreglan á Akureyri auglýsti nýverið eftir rannsóknarlögreglumönnum og borgaralegum sérfræðingum til að rannsaka stafræn gögn, með áherslu á farsímarannsóknir. Meðal verkefna sérfræðinganna eru rannsóknir sem krefjast aukinnar sérhæfingar og sérþekkingar. Til að mynda afritun og rannsóknir farsíma og annarra stafrænna sönnunargagna og samskipti við erlenda samskiptamiðla og löggæsluyfirvöld með tilliti til réttarbeiðna. Þær menntunarkröfur sem gerðar eru fyrir borgaralegan sérfræðing er menntun sem nýtist í starfi. Ég tel að við þurfum að nýta með fjölbreyttari hætti borgaralega sérfræðinga til greiningarvinnu hjá lögreglunni, þannig skapast betra ráðrúm fyrir lögreglumenn til þess að starfa á vettvangi. Auk þess er lögreglan sem stofnun svo miklu meira heldur en lögregla sem fer með lögregluvald, með því að styrkja stofnunina með þessum hætti má efla lögregluna sem heild á mun skemmri tíma. Mikilvægt er að gera greiningu á hvaða störf það eru sem hægt er að fela hinum borgaralegu sérfræðingum, þannig má ná skilmerkilegum og markvissum árangri.
Að lokum langar mig að árétta að á sama tíma og farið er í átak við að fjölga lögreglumönnum er það afar mikilvægt að halda utan um þá lögreglumenn sem fyrir eru í starfi, en mannekla í lögreglunni er ein helsta uppspretta álags og streitu fyrir lögreglumenn með tilheyrandi hættu á brottfalli úr stéttinni. Við megum ekki láta skort á lögreglumönnum verða til þess að við missum fleiri úr stéttinni. Þá er það mikilvægt að lögreglan finni og fái stuðning, hvort sem er frá yfirvöldum eða íbúum þessa lands til þess að sinna því mikilvæga starfi sem löggæsla er.
Ingibjörg Isaksen er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis