20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Málefni barnafjölskyldna á Akureyri
Undafarið hefur verið töluverð umræða um stöðu barnafólks á Akureyri. Umræðan hefur fyrst og fremst beinst að því að óvenju margir foreldrar barna á leikskólaaldri eru ekki að fá inni í leikskóla fyrir börn sín og ekki er heldur nægjanlegt framboð á dagforeldrum til að taka við þeim börnum. Þetta er grafalvarleg staða. Þess vegna óskaði ég eftir því að umræða um málið yrði tekin í bæjarstjórn s.l. þriðjudag. Það liggur fyrir að börnum á leikskólaaldri er að fækka í bænum miðað við það sem var hér fyrir nokkrum árum.
Í 10 ára áætlun sem var unnin á árunum 2012-2013 var gert ráð fyrir því að fæðingarárgangar yrðu að meðaltali um 270 börn en staðreyndin er sú að þeir eru nú á bilinu 230-240 börn á ári. Þetta hefur leitt til þess að farið var að huga að fækkun leikskólarýma þar sem ekki væru not fyrir öll þau rými sem til staðar voru í bænum. Sunnubóli með 60 rýmum var lokað s.l. haust og Hlíðarbóli þar sem nýtt eru 45 af 52 rýmum, verður lokað næstkomandi haust. Þegar þetta var ákveðið lá fyrir að haustið 2017 kæmust ekki nema hluti 18 mánaða barnanna, þ.e. börn fædd í janúar til mars 2016, inn í leikskóla. Það var að hluta til brugðist við með því að fjölga starfsfólki frá hausti 2017 og reyna þannig að fullnýta rými leikskólans. Það lá einnig fyrir að það þyrfti þá að fjölga dagforeldrum aftur ef það ætti að takast að anna eftirspurn eftir daggæslu þeirra barna sem ekki komast í leikskóla.
Það má ekki gleymast í þessu samhengi að haustið 2015 voru tekin inn óvenju mörg börn á eins árs aldri inn í leikskóla, af því að rými voru til staðar. Þetta leiddi það af sér að ekki var eins mikil þörf fyrir alla dagforeldra sem voru þá starfandi. Þeim fækkaði og nú er að koma fram skortur sem bitnar á foreldrum sem eiga börn á þeim aldri sem almennt eru hjá dag-foreldrum. Það var því ekki búið í raun að finna lausn fyrir áramót fyrir alla þá foreldra sem þurftu að koma börnum sínum til dagforeldra eða í leikskóla.
Svo gerist það að óvænt koma 40 börn inn á umsóknarlista eftir leikskóla og það eru allt börn foreldra sem eru að flytja til Akureyrar. Því miður er ekki brugðist við þessu ástandi með skilvirkum og markvissum hætti þannig að foreldrar fái þau svör að börn þeirra fái vist hjá dagforeldri eða í leikskóla því Akureyrarbær muni finna lausn. Þar bregst meirihlutinn að mínu mati ekki rétt við skyldum sínum. Það er í raun látið líta svo út sem það sé verið að skoða málin en jafnvel ekkert hægt að gera. Við þessu bregst fólk að sjálfsögðu. Það fer af stað mjög neikvæð umræða um stöðu barnafólks á Akureyri sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir því lausnirnar eru og hafa verið til.
Það kom enda berlega fram í umræðum í bæjarstjórn nýverið þegar fjallað var um málið að það voru allir sammála um mikilvægi þess að bregðast við þeirri stöðu sem er uppi og finna lausnir þannig að það væri hægt að verða við óskum allra foreldra sem þurfa vist hjá dagforeldri eða í leikskóla fyrir börn sín. Að lokinni mikilli umræðu meðal bæjarfulltrúa bar formaður fræðsluráðs fram tillögu að eftirfarandi bókun sem var samþykkt samhljóða:
„Bæjarstjórn Akureyrar hefur ákveðið að skoða til hlítar leiðir sem áður hafa verið ræddar til að nýta húsnæði grunnskóla Akureyrarbæjar og fagþekkingu leikskólastigsins með því að setja upp tilraunaverkefni með stofnun 5 ára deildar í húsnæði grunnskóla með sambærilegum hætti og gert hefur verið með góðum árangri í Naustaskóla. Með þessu opnast leiðir til að innrita fleiri börn í leikskólana. Þessari vinnu verður flýtt þannig að hægt verði að meta kostnað við aðgerð sem þessa og taka ákvörðun sem fyrst. Það er von okkar að víðtæk sátt náist um þessa leið.“
Að mínu mati er fræðsluráði með þessari bókun falið að vinna að lausn sem felst í því að setja upp 5 ára deildir á forsendum leikskólans í þeim grunnskólum bæjarins þar sem nægjanlegt rými er til staðar nú. Það er nægjanlegt rými til að koma upp 5 ára deildum í a.m.k. fjórum grunnskólum. Þetta er að mínu mati einnig skref sem er eðlilegt að stíga því ég sé þá þróun fyrir mér að 5 ára börnin verði komin í grunnskólana innan fárra ára. En nú þarf að vanda til verka og mjög brýnt að þetta mál verði sett í algjöran forgang svo leysa megi úr fyrirliggjandi vanda.
Getum við dregið einhvern lærdóm af þessu máli, má spyrja nú. Við getum örugglega dregið þann lærdóm af málinu að pólitískir fulltrúar þurfa alltaf að vera á tánum, sérstaklega meirihlutinn sem er með alla þræði í höndum sér. Kerfin sem við erum með og rekum þurfa að vera þannig að það sé sveigjanleiki til staðar. Sá sveigjanleiki er til að hluta í leikskólakerfinu þar sem börnum hefur verið fjölgað inni í leikskólunum umfram almenn viðmið þegar sú staða hefur komið upp að árgangar eru óvenju stórir. Þetta lá fyrir að gert yrði næsta haust, en það lá einnig fyrir að það dygði ekki til. Það sem er einnig fyrisjáanlegt er að þetta ástand varir aðeins í eitt ár miðað við núverandi stöðu því eins og sést á myndinn um hlutfall eins árs barna sem komast í leikskóla á hverju ári er reiknað með að í stað 15% í haust verði hægt að taka við 35% eins árs barna næsta haust. Það lá því alltaf fyrir að það væri mjög hæpið að það tækist að efla dagforeldrakerfið aftur til að leysa vanda þessa árs, þar sem margir þeirra myndu missa vinnuna að ári. Það varð því að finna aðra lausn og það lá að mínu mati fyrir strax um áramót.
Þrátt fyrir fækkun barna á leikskólaaldri verðum við að horfa til þess að við viljum fjölga fólki í bænum sem er á barneignaaldri og því eigum við að fagna því þegar slík fjölgun blasir við eins og nú virðist vera. Það gerum við í raun ekki nema geta boðið fólki þá þjónustu sem það þarf til að geta sinnt vinnu. Við þurfum því að hafa skýra stefnu og úrræði í kjölfarið. Stefnuna vatnar hér eins og í sumum öðrum málaflokkum og það er á pólitíska ábyrgð meirihlutans. Við þurfum að gera betur og getum gert betur.
-Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Akureyrar