20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Létum ekki á okkur fá þó bylturnar yrðu all svakalegar“
Ingólfur Sverrisson skrifar
Fátt jafnaðist á við að renna sér niður skíðabrekkurnar á Akureyri um miðja síðustu öld. Þær voru fjórar: Fagrabrekka, fyrir neðan Brekkugötuna, Lallatún, austan Klettaborgar, Skátagilið í miðbænum og svo Búðargil í innbænum. Eitt af því fyrsta sem ykkar einlægur man eftir á fimmta áratugnum var að Fagrabrekka var upplýst fyrir skíðafólkið og þar var oft líf og fjör fram á kvöld. Síðar sóttum við Eyrarpúkar í þessa sömu brekku sem lá frá horni Brekkugötu og Hamarsstígs og niður þar sem nú er stúka íþróttavallarins. Í þeirri brekku voru tveir strákar áberandi bestir enda áttu þeir eiginlega heima við brekkubrúnina – þetta voru þeir Ívar Sigmunds og Moni eða Hallgrímur Jónsson. Þeir urðu síðar afreksmenn í þessari íþrótt. Þegar við fengum leið á að skíða þarna fyrir neðan Brekkugötuna tókum við okkur stundum upp og héldum vestur á Lallatún. Þar var forláta stökkpallur og við svifum þaðan um loftin blá og létum ekki á okkur fá þó bylturnar yrðu all svakalegar og við á kafi í fönn. Það var einasta ávísun á gleði og kæti sem gerði lífið skemmtilegt enda þótt við værum komnir þetta langt frá sjálfri Oddeyrinni!
Svo var stundum farið í Skátagilið og ýmist rennt sér í einni buni frá Oddeyrargötunni eða beint austur af Bjarmastígnum og þvert yfir gilið. Þegar eitthvað fataðist í rennslinu og við ekki með fullt vald á atburðarásinni var neyðarúrræði að kasta sér á vatnsrörið sem gegndi hlutverki handriðs niður gilið og gerir raunar enn í dag. Margar beyglurnar á því góða röri eiga eflaust rætur að rekja til þess þegar vaskir skíðakappar björguðu sér með því að kasta sér á það og koma með því í veg fyrir að gluða beint niður á húsin fyrir neðan. Spakir menn telja að ástæðan fyrir því að enn í dag er haldið upp á handriðið atarna sé sú að það hafi mikið varðveislugildi vegna umræddra skemmda og sú sögulega staðreynd komi í veg fyrir að færa þessa gönguleið til nútímahorfs!
Úr Búðargili komu nokkrir mestu skíðakappar bæjarins og raunar landsins alls. Ekki er nokkur vafi á að fremstur þeirra var Magnús Guðmundsson sem var margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum og einnig afburða golfleikari. Árið 1958 var hann Íslandsmeistari í báðum þessum gjörólíku greinum. Íþróttafréttamenn töldu hann samt ekki vera einn af tíu bestu íþróttamönnum landsins það árið. Þetta hneykslaði okkur strákana á Eyrinni stórlega. Óstaðfestar fregnir úr Innbænum hermdu að aðdáendur Magnúsar þar hefðu íhugað að gera ferð suður og lemja á þeim sem ekki kynnu að meta afrek hans. Við Eyrarpúkar vildum bjóða fram liðveislu okkar til þessa þarfaverks og það í fullum herklæðum. Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum og hlutur okkar manns leiðréttur fyrir fullt og allt. Úr þessu varð þó aldrei en við héldum bara áfram að renna okkur í bæjarbrekkunum. Fórum auk þess öðru hvoru á sunnudögum á vörubíl frá Hótel KEA í Útgarð. Gengum svo þaðan með skíðin á herðunum upp að Ásgarði í Hlíðarfjalli þar sem brekkurnar voru bæði brattar og langar. Þá var óendanlega gaman.
Ingólfur Sverrisson