Lestur barna í molum- hvað er til ráða?
Rannsóknir benda til að lestrargeta grunnskólabarna sé ábótavant. Margt er rætt og ritað á hvern hátt við getum brugðist við þessu ófremdarástandi. Skólinn er oftar en ekki drenginn til ábyrgðar þó vitað sé að foreldrar beri þar megin ábyrgð. Engum dytti í hug að kennara íþróttafélögum um að barn þeirra stæði sig ekki vel í viðkomandi íþróttagrein, nei það er æfingaleysið. Þeir sem skrifa um slaka hæfni skólabarna til lestrar virðast fara í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Sjaldan er minnst á að alltof margir foreldrar láta börn sín ekki lesa. Þjálfun í lestri er grundvallaratriði til að barn nái að fylgjast með í ólíku námsgreinum. Sé barn illa læst í grunnskóla gengur því illa, því nánast allar námsgreinar byggjast á lestri, ýmist litlum eða miklum. Lestur er undirstaðan og hafi foreldrar ekki sinnt þeirri skyldu sinni að þjálfa barn sitt í lestri veitir það ekki á gott.
Viðhorf foreldra er að þeir beri mikla ábygrð á námi barna sinna. Með það í farteskinu er það þeirra ábyrgð að barnið sé vel læst. Kennarar gera lítið annað en kenna undirstöðuatriðin og tæknina, foreldrar sjá um þjálfun. Mér er óskiljanlegt hvernig hægt er að bendla kennara við slakt læsi barna þar sem þjálfun er lykilatriðið. Allir sem átt hafa grunnskólabörn vita að kennarar hafa ekki tíma til að þjálfa hvert barn í lestri svo vel sé, um það bil 10-15 mín. á hverjum degi, því er þetta hlutverk foreldra. Í bekk eru að meðaltali 20 nemendur og það sér hver heilvita maður að þjálfun fer ekki fram í skólanum. Heimilið er góður staður til þjálfunar.
Því miður er það svo að margir foreldrar telja að skólinn eigi að sjá um þjálfunin og því fer sem fer hjá einstaka nemanda. Margir foreldrar vilja ekki eyðileggja samverustundirnar með lestri og sér í lagi ef barninu leiðist að lesa, ekki tilbúið að taka slaginn þó svo að lestrargeta barns sé í húfi. Barnið á ekki að ráða hvort það les, það er foreldrið sem stjórnar og skapi foreldrar það fordæmi, strax frá fysta bekk, að á heimilinu sé hlustað á barnið lesa verður það ekki vandamál. Það á að hlusta á börn lesa allt upp í 7. bekk og helst lengur. Eftir því sem barn eldist virðist hæfnin til að lesa upphátt minnka og er ábyggilega þjálfunarleysinu um að kenna.
Vilji Íslendingar sjá lestrarhæfni barna aukast þurfa foreldrar að taka sig á, þeir geta lyft Grettistaki í málaflokknum kæri þeir sig um. Það er ekki áhyggjulaus heiður að eiga barn, því fylgja miklar skyldur og ábyrgð.
-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.