L-listinn 20 ára
Það eru 20 ár síðan hópur fólks sem hafði áhuga á bæjarmálum á Akureyri hittist. Hugsjón okkar allra var, að gera góðan bæ betri. Eftir stutta skoðun var ákveðið að setja saman lista og bjóða fram í bæjarstjórnarkosningum í maí árið 1998. Við stofnuðum L-listann. Við höfum átt bæjarfulltrúa allar götur síðan og skemmst er að minnast þegar við fengum hreinan meirihluta, eða 6 bæjarfulltrúa, á Akureyri í kosningunum 2010.
Í fyrsta og eina skiptið sem það hefur gerst. Það sem batt okkur saman í upphafi og gerir enn, er sameiginlegur áhugi á nærumhverfi okkar og hvernig við getum gert mest gagn fyrir bæinn okkar. Það var hugsjón sem rak okkur áfram. Hugsjónin um að gera bæinn okkar betri og láta gott af okkur leiða sameinaði okkur undir merkjum L-listans.
Við höfum alltaf haft töluverða sérstöðu frá stjórnmálaflokkunum. Við höldum ekki félagatal, þannig að í raun og veru er enginn skráður í L-listann. Enginn bundinn. Öllum er frjálst að koma og fara þegar þeir vilja. Við spyrjum engan um flokksskírteini og því hefur starfað með okkur fólk sem er flokksbundið og starfar með sínum flokki í landsmálunum. Allir eru jafnir í L-listanum. Allir hafa rétt á að hafa skoðun og láta hana heyrast.
Ég var aldrei einn
Ýmislegt hefur gerst á 20 árum, það mun sagan geyma, en við erum stolt af okkar verkum. Það eru enn sömu gildin sem telja. Áhugi, hugsjón, samviskusemi, trúmennska og heiðarleiki. Þau höfum við haft að leiðarljósi. Ég var bæjarfulltrúi fyrir L-listann í 16 ár, stundum sá eini sem við áttum. Það var alltaf góður hópur félaga sem starfaði með mér, sat í nefndum og mætti á fundi þar sem málin voru rædd. Allir lögðu eitthvað til málana og ákvarðanir voru teknar í sameiningu. Ég var aldrei einn.
Þegar ég lít til baka finnst mér þetta ferðalag okkar hafa verið ein samfelld sigurganga. L-listinn er fyrsta sérframboðið, sem kom manni í bæjarstjórn á Akureyri. L-listinn er eina aflið, sem hefur haft hreinan meirihluta í bæjarstjórn. L-listinn er sennilega elsta sérframboð á Íslandi. Eftir 20 ár á L-listinn enn erindi í bæjarstjórn. Öll þau gildi sem við vinnum eftir eru enn í fullkomnu gildi og rödd okkar verður að heyrast, Akureyri og íbúum hennar til farsældar. Við munum því að sjálfsögðu bjóða fram í vor.
Í dag, sunnudaginn 18. mars eru nákvæmlega 20 ár frá stofnfundi L-listans. Af því tilefni ætlum við að fagna saman í Hofi frá 15.00-17.00 og bjóðum alla velkomna að fagna með okkur.
Þar verður líka nýr framboðslisti kynntur.
Lifið heil X-L,
Oddur Helgi Halldórsson