Kennarar upplifa ofbeldi í meira mæli, hótanir og áreiti frá nemendum í grunnskóla
Í danskri grein sem ég las kemur fram að nemendur í grunnskólanum færa sig upp á skaftið og kennarar verða oftar fyrir ofbeldi, hótunum og áreiti. Þetta kom fram í nýrri skýrslu sem gefin var úr af ,,Vinnueftirlitinu“ í Danaveldi.
Nemendur kalla kennara sína ýmsum nöfnum eða tala illa um þá heima fyrir. Skýrslan sýnir að hegðun grunnskólabarna hefur versnað undanfarin ár. Fimmti hver kennari í Danmörku segist hafa orðið fyrir ofbeldi síðustu ár og fjórði hver fékk hótun frá grunnskólabarni. Frá árinu 2010 má greina aukning á fjarveru kennarar vegna atvinnusjúkdóms sem er fylgifiskur hótana um ofbeldi eða upplifun tengda áfalli. Í kjölfarið tók Menntamálaráðherra á málinu og hefur útbúið vegvísi til að grunnskólar geti komið í veg fyrir eða tekið á ofbeldi og hótunum af hálfu nemenda. Ekki á að sætta sig við ofbeldið né heldur víkka mörkin segir ráðherrann.
Hjá kennarafélagi Danmerkur eru menn ánægðir með að ráðherra taki á málinu en varaformaður kennarafélagsins bendir á að betri fókus þurfi á nemendur sem hafa blandast öðrum í bekk, í tengslum við skóla án aðgreiningar, með það fyrir augum að auka stuðning.
Varaformaður kennarafélagsins telur aukið ofbeldi og hótanir hafi aukist vegna blöndunar, sem var 2012, og án þess að nægilegur stuðningur hafi fylgt hinum ólíku nemendum. Í stað þess að fá sérkennslu er þeim kennt í almennum bekkjardeildum. Það eru nemendur í skólunum sem fá ekki þann stuðning sem þeir þurfa og kennari getur ekki veitt, því ríflega 20 aðrir nemendur eru í bekknum. Það getur auðveldlega valdið ergelsi og ringulreið hjá nemendum þegar þeir fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa. Það er synd bæði fyrir nemanda og kennara.
Þó ég hafi tekið danska grein fyrir í skrifunum get ég allt eins beint skrifum mínum að kerfinu hér á landi. Ofbeldi á hendur kennara, hótanir og kærur hafa aukist undanfarin ár. Það helst í hendur með að öllum nemendum er blandað saman án nægilegs stuðnings auk þess sem börnum eru ekki sett mörk hvað uppeldi varðar s.s. kurteisi og virðingu fyrir kennara sínum og fólki almennt. Skólarnir virðast varnalausir þegar kemur að slíkum ósóma. Uppvöðslusamnir nemendur geta haldið bekkjardeildum í heljargreipum án þess að nokkur lausn sé til fyrir þá. Í íslenska grunnskóla vantar úrræði líkt og hjá þeim dönsku. Ekki síður vantar rannsóknir á hve víðtækt þetta vandamál er hér á landi. Sama má segja með veikindi grunnskólakennara, sjúkrasjóður þeirra tæmist hratt vegna kennarar sem kulna í starfi sem vissulega má að hluta rekja til þeirra þátta sem hér hafa verið nefndir. Mikilvægt er að rannsaka orsök og afleiðingu.
-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari