Kennarar mæta til starfa

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Skólaárið hefst áður en langt um líður. Grunnskólakennarar undirbúa komu nemenda á fyrstu dögum skólaársins og gera skólastofur klárar. Misjafnt er hve þungt sú vinna leggst á herðar kennara. Eins og fyrri daginn nóg að gera.

Gæta að eigin heilsu

Mikilvægt er að grunnskólakennarar gæti að eigin heilsu sem er það mikilvægasta sem nokkur maður á. Allir þurfa að líta í eigin barm. Eins og oft er sagt, ef þú passar ekki upp á þig gerir það enginn fyrir þig. Mikilvægt er að kennarar finni jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Hlaði maður of miklu á sig er það ávísun á að eitthvað gefi sig, andlega eða líkamlega. Nauðsynlegt að beina þessum orðum að kennurum ,,Vinnið af skynsemi-ekki hraðar eða lengur.“ Finnið meðalveginn.

Kjarasamningur

Á vordögum var skrifað undir kjarasamning við grunnskólakennara. Sumir sáttir, aðrir ekki. Það er eins og gengur og gerist þegar kjarasamningur liggur fyrir. Samningurinn gildir út skólaárið og það er von kennara að forystan noti veturinn til að vinna að nýjum samningi. Margt þarf að laga í þeim gamla að mati kennara. Launaliðinn mætti hækka verulega. Byrjunarlaus kennara eftir 5 ára háskólanám er 657.722 krónur. Ef kennari tekur að sér umsjón bekkjar eru launin, eftir 5 ára nám, 686.444 krónur.

Launað leyfi og ólaunað

Eftir að nýjar reglur um fjarvistir starfsmanna voru gefnar út hjá Akureyrarbæ spyrja margir hvort ekki þurfi að kveða fastar á um í kjarasamningi um fjarveru kennara t.d. vegna andláts nákominni ættingja. Reglur bæjarins um launað leyfi voru hertar á síðasta skólaári.

Í nýju reglunum, sem bæjarstjóri skrifaði undir áður en starfsmenn fengu þær í hendur, stendur. ,,Starfsfólk getur óskað leyfi yfirmanns til launaðrar fjarvistar til að vera við jarða[r]för nákomin ættingja/aðstandenda. Almennt eru slík leyfi hálfur dagur en einn dagur ef um lengri vegalengd er að ræða.“ Sé kveðið á um annað í kjarasamningi félags gildir það.

Síðan eru vinnustaðir hvattir til að setja sér verklag um hvort og þá hvaða ólaunaðar fjarvistir eru heimilaðar á vinnutíma. Bæjarstjóri bendir á í bréfinu, sem allir starfsmenn bæjarins fengu, að ljóst sé að möguleikar til að heimila slíkar fjarvistir eru mjög takmarkaðar á stórum hluta vinnustaða bæjarins. Nokkuð ljóst hvað skín hér í gegn.

Margir kennarar mennta sig með margskonar hætti á starfsárinu Veruleg óvissa er hvort þeir fái leyfi á launum til að sinna henni.  Það er í höndum stjórnenda á hverjum stað hvort það verði launað eða ólaunað.

BKNE er ekki kunnugt um hvort önnur sveitarfélög á svæði deildarinnar hafi sett svona reglur.

Veikindaréttur kennara

Kjarasamningur kennara eins og annarra opinberra starfsmanna gefur starfsmönnum góðan veikindarétt. Veikindarétturinn ákvarðast af fjölda ára sem starfsmaður hefur unnið. Veikindaréttur er réttur sem á að nota sé þess þörf. Því miður virðast margir kennarar feimnir við að nota þennan rétt sinn þegar þeir þurfa sannarlega á honum að halda. Hvet kennara til að skoða samhengið milli eigin heilsu og veikindaréttar.

Að lokum

Gangi ykkur vel í störfum ykkar á næsta skólaári. Vonandi hafið þið náð að hlaða rafhlöðurnar og eruð tilbúin þegar skólabjallan hringir, andlega og líkamlega. Minni ykkur á að kjarasamningur er gólf ekki loft og hægt að semja um meira, vilji stjórnandi það, en kjarasamningur kveður á um. Hafið kjarasamninginn til hliðsjónar þegar ákvarðanir um skólastarfið og víkkun þess er á dagskrá.

Munið kennarar að leita til trúnaðarmanns, BKNE eða Félags grunnskólakennara þurfi þið svör við einhverjum spurningum eða aðstoð. Þar er alltaf fólk sem er tilbúið að aðstoða ykkur.

Helga Dögg Sverrisdóttir,

formaður Bandalags kennara á Norðurlandi eystra.

Nýjast