20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kæru bæjarbúar og nærsveitungar
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur nú opnað aftur eftir ljómandi gott sumarfrí. Starfið er nú þegar hafið þar sem skrifstofan er opin mánudaga- fimmtudaga frá kl 13-16. Hjá félaginu starfa áfram þær Halldóra Björg Sævarsdóttir framkvæmdastjóri og Katrín Ösp Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur.
Við óskuðum eftir því í vor að fá styrk úr Velunnarasjóði Krabbameinsfélags Íslands til þess að ráða sálfræðing til félagsins. Það gekk eftir og hefur Regína Óladóttir, sálfræðingur hafið störf hjá KAON. Krabbameinsfélagið er einnig með tvo sjálfboðaliða sem eflir starf félagsins enn meira. Það eru þau Magnfríður (Magna) S. Sigurðardóttir iðjuþjálfi og Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir. Magna stýrði leshóp í vor og mun leiða leshópinn á mánudögum kl 13:30 í vetur, hefst 11. sept. Brynjólfur Ingvarsson læknir er maður með víðtæka reynslu en hann fékk sjálfur illkynja sjúkdóm árið 2014 og fór í geislameðferð það sama ár.
Brynjólfur og Ólafur Ólafsson hófu hópastarf hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis árið 2015 fyrir karlmenn sem greinst hafa með krabbamein og hefur Brynjólfur haldið utan um þann hóp síðan. Karlahópurinn hittist alltaf á laugardögum kl 13:30. Nú mun Brynjólfur ásamt Regínu sálfræðing fara af stað með nýjan hóp fyrir aðstandendur krabbameinsgreinda annanhvern miðvikudag og verður fyrsti fundur þann 20. september kl. 20:00. Regína og Katrín verða með annan hóp sem fer af stað í september sem er ætlaður fyrir fólk sem er að ljúka meðferð eða er í viðhaldsmeðferð. Þessi hópur verður á þriðjudagsmorgnum kl. 10:00 og hefst 3. október.
Halldóra Björg Sævarsdóttir, Regína Óladóttir og Katrín Ösp Jónsdóttir
Sr. Hildur Eir Bolladóttir, Regína og Katrín munu svo leiða hóp fyrir fólk sem hefur misst maka úr krabbameini en sá hópur hefst miðvikudagskvöldið 25. október kl. 20:00 og eru gamlir vinir úr fyrra hópastarfi hjartanlega velkomnir. Það verða fleiri hópar í vetur en þeir verða nánar auglýstir síðar. Frekari upplysingar um hópana og önnur störf má finna á síðu félagsins www.kaon.is og með því að senda tölvupóst á katrin@krabb.is eða kaon@simnet.is. Á miðvikudögum í vetur verður boðið upp á slökun sem Katrín leiðir kl. 10 í húsnæði KAON.
Halldóra greindist með krabbamein árið 2011 og ákvað í framhaldi af því að gerast sjálfboðaliði hjá KAON og byrjaði með hópastarf fyrir konur sem greinst hafa með krabbamein þar sem áherslan var lögð á skapandi handverk í góðum félagskap. Þetta hópastarf hefur gengið gríðarlega vel og er enn fastur liður hjá félaginu alla fimmtudaga kl. 13-16 hvort sem konur séu með handverk eða ekki, margar mæta einfaldlega til að njóta félagsskapsins og kaffisopans. Þann 16. september verður fyrsti karlahittingurinn á þessum vetri en á laugardögum kl. 13:30 er opið hús fyrir karlmenn sem greinst hafa með krabbamein. Þar er alltaf heitt á könnunni og góður félagsskapur.
Bleikur október mun sjálfsagt ekki fara fram hjá neinum og verður Bleika deginum fagnað þann 13. október. Jólunum verður fagnað hátíðlega þann 24. nóvember þar sem börnum sem hafa greinst með krabbamein eða eiga nákominn ættingja með krabbamein er boðið að koma að búa til sinn eigin jólakrans með leiðsögn eftir þörfum. Einnig verða áhugaverðir fyrirlestrar í hverjum mánuði. Eins og sjá má þá verður mikið um að vera í vetur hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis og vonum við innilega að fólk nýti sér þessa þjónustu. Allt starf verður auglýst á heimasíðu okkar www.kaon.is og á facebook síðu félagins Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.
Með kærri kveðju, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.