20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Íbúalýðræði og firran mikla
Ragnari, góðvini mínum, Sverrissyni finnst kjánalegt að ég spyrji af hverju Akureyringum sé aldrei boðið að taka af skarið um deiluefni er upp koma og varða bæinn okkar. Nema auðvitað þegar pólitíkusarnir komast ekki hjá því að hleypa okkur að kjörborðinu sem gerist á fjögurra ára fresti.
Svo er margt sinnið sem skinnið og verður það augljóslega enn um sinn hlutskipti okkar Ragnars að vera ósammála um lýðræðishugtakið.
Skilgreiningarvandi
Það getur vafist fyrir að skilgreina íbúalýðræði. Einn segir það almennan borgarafund þar sem fundargestir, í smáum hópum, láta gamminn geisa. Og þar sem örfáir, eigum við að segja þrír einstaklingar - að fundi loknum – velja það úr hugmyndum hópanna sem þeim líst best á og segja niðurstöðu fundarins.
Ég vil undirstrika að þetta er ekki það íbúalýðræði sem ég var að tala um. Enda kom út úr einu slíku „íbúalýðræði“ arkitektahugmynd sem féll í afar grýttan jarðveg hér á Akureyri svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.
Firran
Á sínum tíma voru rifin allmörg hús við Glerárgötu til að greiða þar fyrir umferð. Nú skal aftur þrengt að. Reka á tappa í samgöngukerfi bæjarins sem er ekkert annað en ávísun á svipað ófremdarástand og Reykvíkingar glíma nú við og ætla þjóðinni að leysa í 120 milljarða-happdrætti.
Til að bæta gráu ofan á svart hefur Vegagerðin áskilið sér rétt til að krefjast þess að gatan verði tvöfölduð á ný ef henni sýnist svo. Og takið eftir lesendur góðir að bæjarsjóður Akureyrar mun greiða allan kostnað. Fyrst af tilfærslu og þrengingu götunnar og síðan við að færa hana aftur í fyrra horf. Umrædd gata er nefnilega hluti af þjóðvegi eitt og því á forræði Vegagerðarinnar.
Við Akureyringar horfum því fram á fokdýra bráðabirgða-breytingu á gatnakerfi bæjarins þar sem okkur Ragnari mun á gamalsaldri verða hrösult þegar við reynum að staulast yfir gatnamótin hjá BSO. Allt verður þar upp í loft við tvöföldun götunnar á nýjan leik.
-Jón Hjaltason