Hugleiðingar eftir fund framkvæmdaaðila við Bakkaverkefnið

Ofannefndur fundur var góður og fræðandi og þar fóru fulltrúar fjögurra stærstu framkvæmdaaðila yfir verkefnið, þ.e. PCC, þeir sem koma að hafnargerð, Landsnet og Landsvirkjun. Allir lögðu þeir mikla áherslu á góð samskipti við nærumhverfið og hvernig þeir gætu orðið þar að sem mestu liði.

Í framhaldinu af fundinum fór ég að hugleiða hvað ég myndi leggja til í þeim efnum og var af nógu að taka, því áhugamálin eru mörg. Læt þó nægja að nefna tvö atriði að þessu sinni.

Samstarf PCC og framhaldsskólanna?

Í fyrsta lagi: Hafa farið fram viðræður á milli fræðslustofnana á framkvæmdasvæðinu og PCC um menntun starfsmanna fyrirtækisins?

Á fundinum kom fram í máli fulltrúa PCC að væntanlegir starfsmenn fyrirtækisins þyrftu á margskonar námi og námskeiðum að halda. Og þá er spurningin hvort framhaldsskólarnir á svæðinu og Þekkingarnetið gætu ekki komið þar að málum? Fordæmið er til dæmis Alcoa og fræðslustofnanir á Austurlandi sem hafa samstarf um menntun starfsmanna Alcoa. Hugsanlega gæti slíkt samstarf stutt við framhaldsskólana á Húsavík og Laugum sem nú eiga í vök að verjast.

Aðstoð við nýtt skíða- og útvistarsvæði

Í öðru lagi þetta: Allir Húsvíkingar 30 ára og eldri muna þann tíma þegar snjór var í Húsavíkurfjalli og fjórar lyftur og togbrautir voru í fjallinu og náðu á toppinn. Á þeim árum voru Húsvíkingar stórveldi á skíðum og margir snillingar dönsuðu niður fjallið; fremstir í flokki Gísli í Ásgarði, allir fjölmörgu Íslandsmeistararnir og tveir ólympíufarar.

Nú er snjórinn að mestu hættur að setjast í fjallið og aðeins lyfturnar í Skálamel og Stöllum standa eftir og Stallalyftan ekki verið notuð í nokkur ár.

En í 10 mínútna fjarlægð frá Húsavík er búið að skipuleggja nýtt skíða- og útivistarsvæði. Þangað er kominn upphækkaður vegur með bundnu slitlagi og frá honum vegur að Reyðarárhnjúki, (Höskuldsvatnshnjúki), þ.e. að væntanlegum skíðabrekkum. Þar er einnig til staðar vatn og rafmagn sem nægir fyrir lyftur og annað tilheyrandi skíðasvæði. Það vantar bara skíðalyftuna, en hún er til staðar og bíður bara flutnings.

Þegar möstur voru sett upp í Stöllunum komst ekkert tæki upp svo mikinn bratta með steypu í sökklana svo fá þurfti þyrlu í það verk. Nú eru hér á svæðinu í tengslum við Bakkaframkvæmdir, öflug tæki svo sem beltagröfur sem gætu „labbað“ upp Stallabrekkur, tekið möstrin og komið á flutningsvagna, sem færu með þau á nýja skíðasvæðið og þau sett þar upp á nýjum stað.

Og þarna kemur að stuðningi aðila Bakkaframkvæmda. Ég legg til að þeir komi saman yfir kaffibolla og ákveði að sjá um þennan flutning og hafi það sem stuðning við samfélagið. Þeir eru með tæki og hafa yfirburðaþekkingu á að setja niður möstur.

Vilji og stefna allra

Með þessu væru þeir ekki aðeins að uppfylla hugmyndir mínar sérstaklega, því ég veit að sömu væntingar hafa allar fjölskyldur á Húsavík, svo og væntanlegar fjölskyldur sem eru að koma vegna aukinnar atvinnu á svæðinu. Ég veit einnig að forráðamenn sveitarfélagsins og sveitarstjórn Norðurþings, yrðu ykkur mjög þakklát – myndu ljúka verkinu og opna þetta frábæra skíða- og útivistarsvæði eins fljótt og mögulegt væri.

Og framfylgja með því stefnu allra framboða fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Vilhjálmur Pálsson.

Nýjast