Hólasandaslína 3 - aukin flutningsgeta og stöðugleiki
Markmiðið með Hólasandslínu 3, nýrri 220 kV raflínu milli Akureyrar og Hólasands norðan við Mývatn, er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni. Framkvæmdin er einnig mikilvæg fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi.
Hámarkslengd jarðstrengs 12 km
Línuleiðin er mislöng eftir valkostum en gera má ráð fyrir að hún nái allt að 70 – 80 km. Hún er að mestu leyti fyrirhuguð samhliða Kröflulínu 1, en víkur frá henni í Eyjafirði og á Hólasandi. Greining hefur verið gerð á því hversu langa jarðstrengi megi leggja innan meginflutningskerfisins á grundvelli tæknilegra forsendna og er niðurstaðan fyrir Hólasandslínu 3 að hámarkslengd jarðstrengs geti verið um 12 km.
Á línuleiðinni eru tvö svæði, í Eyjafirði og Laxárdal, sem falla að viðmiðum í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem vísa til þess hvenær lagt skuli mat á umhverfisáhrif jarðstrengja. Í undirbúningsferlinu hafa verið skoðaðir valkostir sem lúta að jarðstrengjum og loftlínum á þessum svæðum og eru þeir m.a lagðir fram sem valkostir í tillögu að matsáætlun. Aðrir raunhæfir kostir sem koma í ljós við framvindu verkefnisins, til dæmis frá hagsmunaaðilum, verða teknar til skoðunar og geta komið til álita sem valkostir við mat á umhverfisáhrifum. Aðalvalkostur verður lagður fram í frummatsskýrslu á grundvelli niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum og frekara samráðs.
Vinna við frummatsskýrslu að hefjast
Kynningu á tillögu að matsáætlun fyrir Hólasandslínu 3 lauk þann 14. september síðastliðinn og bárust Skipulagsstofnun athugasemdir og umsagnir frá 25 aðilum. Með hliðsjón af þeim ábendingum sem og viðbragða okkar hjá Landsneti sem send voru Skipulagsstofnun þann 17. október sl. vann Skipulagsstofnun að ákvörðun um matsáætlun sem birt var nú í byrjun árs 2018. Þar kemur fram að Skipulagsstofnun fellst á tillögu framkvæmdaraðila á matsáætlun með athugasemdum. Sjá nánar á heimsíðu Landsnets, Akureyri – Hólasandur. Óskað hefur verið eftir fundi með Skipulagsstofnun til að fara yfir niðurstöðu ákvörðunarinnar. Í framhaldi verður unnið að frummatsskýrslu verkefnsins.
Þín skoðun skiptir máli
Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi Hólasandslínu 3 í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaðaðilar aðrir en landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu. Markmiðið með stofnun þessar vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum. Við hvetjum íbúa Norður- og Austurlands að fylgjast með á heimsíðu Landsnets þar sem upplýsingar um framvindu verkefnsins eru settar inn sem og annað sem viðkemur verkefninu.
Hægt er senda inn fyrirspurnir og ábendingar á heimasíðuna undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið og birt undir hnappnum "Spurt og svarað" á síðunni.
-Elín Sigríður Óladóttir, samráðsfulltrúi Landsnets