Glerárvirkjun II – íslensk framkvæmdagleði í hnotskurn
Nú eru framkvæmdir við nýja virkjun Fallorku í Glerá komnar vel á veg. Framkvæmdin var umdeild enda um að ræða rask á lítt röskuðum og nú skilgreindum fólkvangi Akureyrar, þó mörk hans umlyki umrædda framkvæmd haganlega. Vinstri Græn á Akureyri héldu á lofti efasemdum um að framkvæmdin væri ráðleg en stóðu þó með henni á grundvelli þess að um græna orku í þágu Akureyrar væri að ræða, aðgengi mundi batna að nýstofnuðum fólkvang, vatnsbúskap árinnar yrði viðhaldið og að síðustu það, að við fengum fullvissu fyrir því að við framkvæmdir yrði fyllstu varúðar gætt.
Vinna við síðasta áfanga þrýstilagnar að miðlunarlóni Glerárvirkjunar II, sem rísa á neðan við vatnslindir Akureyrar inni á Glerárdal, hófst í lok maí. Því miður hefur sú fullvissa sem okkar var veitt í orði um varúð við framkvæmd, ekki reynst vera á borði. Efni hefur verið tekið án leyfis úr óröskuðum árhjöllum, sem eru nokkuð sjaldgæfir við mynni Glerárdals. Í undirbúningsskýrslu verkfræðinga var talað um að framkvæma ekki á varptíma, sem ekki er farið eftir.
Í umsókn um framkvæmdaleyfi var talað um að vernda og merkja sérstaklega fornminjar, það var ekki gert. Ekki virðist áhugi á að hanna stíflu þannig að hún losi aur sem safnast í stíflustæði. Einnig átti að gæta vel að haugsetningu efnis en þar hefur verið farið út fyrir þau mörk sem skilgreind voru. Allt þetta eru okkur mikil vonbrigði, en það sem birtist okkur hér umfram allt er sú staðreynd að þegar kemur að vernd náttúru og menningararfleiðir okkar þykir flestum orðskrúðið nægja.
Það segjast allir aðspurðir vilja vernda náttúru og sögu okkar en það er í athöfnum sem raunveruleikinn birtist. Það skortir raunverulega virðingu fyrir náttúrunni. Þegar sest er undir stýri á stórri jarðýtu, þá verður mófuglinn voða smár og steininn sem staðið hefur í 10.000 ár og allar kynslóðir Íslandsbyggðar hafa getað barið augum, mélast á augabragði. Þetta er einfalt og menn yppta bara öxlum. Þetta viðhorf og framferði er búið að stýra gerðum okkar gagvart náttúru um nokkurt skeið.
Nú er svo komið að framganga okkar er farin að hafa hnattræn áhrif. Við búum á sk. mannöld, nýju jarðsögulegu skeiði þar sem maðurinn flytur til meira efni og mótar meira land en allir náttúrulegir rofferlar samanlagt. Þegar afl okkar er þvílíkt verður að þroska nýja siðferðisvitund. Kjarni hennar er virðing fyrir náttúru, skilyrðislaus og djúpstæð virðing fyrir því sem staðið hefur um aldir alda.
-Edward H. Huijbens, varabæjarfulltrúi VG á Akureyri