Framsýn Stéttarfélag - Stjórnvöld, vegagerðin og fjárveitingavaldið hysji upp um sig buxurnar
„Á sama tíma og ákveðnir þingmenn Norðausturkjördæmis tala fyrir styttingu þjóðvegarins frá Akureyri til Reykjavíkur, fer lítið fyrir áhuga þeirra á að tryggja eðlilegar samgöngur austan Vaðlaheiðar til Akureyrar. Nú er svo komið að brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn, sem verið hefur aðal samgönguæðin til Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar og nærsveita, þolir ekki frekari þungaumferð og hefur henni verið lokað fyrir umferð stærri ökutækja. Þess í stað hefur þungaflutningum verið beint á einbreiða brú á þjóðvegi 1. við Fosshól, sem einnig er löngu hætt að svara kröfum tímans. Umferð þar um er þung og myndast ítrekað langar raðir ökutækja beggja vegna brúarinnar með tilheyrandi slysahættu fyrir vegfarendur. Það bætir ekki úr skák að brúin við Ófeigsstaði hefur að mestu verið lokuð undanfarið fyrir almennri umferð, þar sem nú standa yfir á henni bráðabirgðaviðgerðir.
Framsýn bendir á að góðar samgöngur innan héraðs og til næstu markaðssvæða er lífæð byggðanna austan Vaðlaheiðar og krefst þess að hlutaðeigandi aðilar, stjórnvöld, vegagerðin og fjárveitingavaldið hysji upp um sig buxurnar og hefji þegar í stað framkvæmdir við byggingu nýrrar brúar yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði, sem leysa muni núverandi brú af hólmi. Þá verði flýtt framkvæmdum við nýja brú yfir Skjálfandafljót við Fosshól og brúin færð framar á samgönguáætlun m.a. í ljósi áherslna um greiðar og öruggar samgöngur.
Markmið Framsýnar er að vegasamgöngur í Norðausturkjördæmi verði bættar með góðum tengingum við höfuðborgarsvæðið. Framsýn skorar á stjórnvöld og þingmenn kjördæmisins að ganga til liðs við félagið hvað þessa sýn varðar í samgöngumálum, með það að markmiði að efla byggð og atvinnulíf í fjórðungnum.“