Fræðsluverkefnið „Vöktum vorið“

Nikola María fylgist með fuglum og Lorena skráir upplýsingarnar.
Nikola María fylgist með fuglum og Lorena skráir upplýsingarnar.

Núna í vor var ráðist í samstarfsverkefni milli Grunnskóla Raufarhafnar og Rannsóknarstöðvarinnar Rifs. Var markmiðið að auka umhverfisvitund nemenda á mið- og unglingastigi grunnskólans og kynna fyrir þeim tilgang, framkvæmd og markmið rannsókna og vöktunar á viðkvæmu vistkerfi norðurslóða.

Lögð var áhersla á að nýta nærumhverfið en hin augljósa sérstaða Melrakkasléttu, hvað náttúru og fuglalíf varðar, hentar einkar vel fyrir þróunarverkefni af þessu tagi. Styrkir fengust í verkefnið frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, Menningar og viðurkenningarsjóði KEA og Sprotasjóði.

Vöktum vorið

Kennsla fór fram frá 18. apríl til 29. maí í náttúrufræði og upplýsingatæknitímum. Byrjað var á undirbúningi þar sem nemendur veltu fyrir sér hvað gerist á vorin og hvaða ferlar eiga sér stað í náttúrunni á þeim tíma. Þá leituðu krakkarnir sér upplýsinga um fugla- og dýralíf á staðnum og settu sig í stellingar sem verðandi vísindamenn.

Fjallað var um muninn á rannsóknum og vöktun, rætt um loftslagsbreytingar, mengun, gróður- og jarðvegsrof. Nemendur gróðursettu fræ í mismunandi jarðveg til að skoða áhrif hans á vöxt.

Í seinni hluta verkefnisins var farið í tvær vettvangsferðir. Í þeirri fyrri var ferðinni heitið í Bæjarvík og út á Melrakkasléttu þar sem fuglar voru skoðaðir og tegundagreindir, sagt frá rannsóknum á svæðinu og framkvæmd einföld atferlisrannsókn. Einnig hittum við Guðmund Örn Benediktsson fuglaáhugamann sem sagði frá allskonar ferðalöngum, bæði fuglum og ýmsum munum sem fundist hafa í fjörunni á svæðinu.

Fyrir seinni ferðina útbjuggunemendur sér gróðurreiti sem þeir nýttu svo til að greina og telja plöntur og áætla fjölda á fermetra.

Nemendur unnu svo úr þessum gögnum eftir kúnstarinnar reglum, spreyttu sig á tölvuforritum, svo sem Excel og Word auk þess sem sköpunargáfan fékk að njóta sín.

Nemendur kynntu verkefnið stuttlega á skólaslitum grunnskólans og var afrakstur vinnunnar þar til sýnis. Eftir skólaslit fengu allir nemendur grunn- og leikskólans ásamt foreldrum tækifæri til að prófa fjarsjá sem Náttúrustofa Norð­austurlands lánaði okkur í þetta verkefni. Yngstu nemendurnir voru sérstaklega áhugasamir að skoða fugla í fjarsjánni, þar sem þeir voru nýbúnir að vera í fuglaþema.

Næsta haust verður samstarfinu haldið áfram og seinni hluti verkefnisins ber heitið „Heimurinn og við“. Þá verður áhersla lögð á hvernig við komum fram við náttúruna, hvers vegna það sé nauðsynlegt að ganga vel um umhverfið og bera virðingu fyrir því. Komið verður inn á endurvinnslu og tilgang hennar, farið í hugmyndavinnu varðandi endurnýtingu og fleira í þeim dúr.

Grunnskóli Raufarhafnar er Grænfánaskóli og verður þessi vinna góð viðbót við það starf sem þegar hefur farið fram í skólanum.

Að lokum má geta þess að til stendur að Rif rannsóknarstöð flytji vinnuaðstöðu sína í skólahúsnæðið og mun það vonandi skapa tækifæri til enn frekara samstarfs. Það er afar jákvætt þegar fámennir skólar geta skapað sér sérstöðu og þar með styrkt stöðu sína.

Birna Björnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Raufarhafnar.

Jónína Sigríður Þorláksdóttir, verkefnastjóri Rifs rannsóknarstöðvar.

Nýjast