„Frábært að þetta sé að koma frá þér“

Stefanía Sigurdís.
Stefanía Sigurdís.

Á síðasta ári byrjaði ég með jafnréttisfyrirlestra fyrir grunn- og framhaldsskóla á Norðurlandi. Verkefnið hefur verið ótrúlega gefandi og bæði kennarar og nemendur hafa tekið fyrirlestrinum mínum mjög vel. Í fyrirlestrinum fjalla ég meðal annars um femínisma, karlmennskuna, kvenleikann og hvernig það hefur áhrif á okkur og samfélagið í dag.

Ísland hefur náð miklum framförum í kynjajafnrétti og er ég mjög stoltur Íslendingur hvað það varðar. Að mínu mati er helsta vandamál kynjamisréttis hérlendis eitthvað sem ekki er hægt að breyta með því að skrifa ný lög eða þess háttar. Vandamálin liggja frekar í þeim óskrifuðu gildum og viðmiðum sem ríkja í samfélaginu í dag. Þetta er vissulega ný áskorun því við getum ekki breytt þessu einn tveir og bingó því þetta liggur djúpt í undirmeðvitundinni. Þessi vandamál eru í raun þessi uppbygging og krafa sem við setjum á konur og karla til að haga sér á einn eða annan hátt eða samkvæmt „sínu hlutverki“ í samfélaginu. Hvernig við horfum á fólk og komum fram við það er lykilatriði í þessari baráttu.

Nokkrum sinnum á mínu ferli sem fyrirlesari hef ég fengið athugasemdina „frábært að þetta sé að koma frá þér, svona sætri ungri stelpu“. Þessi athugasemd hefur fengið mig til að hugsa. Í fyrsta lagi þá, já það er frábært að þetta sé að koma frá mér, sem ungri konu sem getur talað af eigin reynslu og náð betur til krakkanna því ég er nálægt þeim í aldri. Það sem hefur verið að fara fyrir brjóstið á mér er athugasemdin varðandi útlit mitt og af hverju það eigi sér stað í umræðunni. Er það að vera „aðlaðandi“ í augum þessa fólks eitthvað sem gefur mér leyfi til að tala um skoðanir mínar og gildi. Hvað ef ég væri ekki „aðlaðandi“ í þeirra augum? Væru skoðanir mínar minna virði?

Kennararnir sem létu þessar athugasemdir falla hafa eflaust ekki meint neitt illt með þeim en þær fengu mig til að hugsa nánar út í þetta. Hvaða verðmiði fylgir útliti? Boðskapurinn sjálfur ætti að skipta mestu máli en ekki útlit einstaklingsins sem ber hann. Á öllum mínum fyrirlestrum hefur mér liðið vel og finnst mér krakkar jafnt og kennarar bera virðingu fyrir mér og boðskap fyrirlestrarins. Ekki misskilja mig, ég er ótrúlega þakklát fyrir öll þau tækifæri sem ég hef fengið upp á síðkastið og hvað fólk hefur tekið mér vel en alltaf má þó kafa dýpra í hlutina. Væru móttökurnar kannski ekki þær sömu ef ég væri ekki „ung og sæt stelpa“. Er bein tenging á milli þess sem við berum virðingu fyrir og því sem okkur finnst „aðlaðandi“? Og ef svo er, myndi þá vera bein tenging á milli þess sem okkur finnst ekki „aðlaðandi“ og þeim sem við berum ekki virðingu fyrir.

Um daginn rakst ég á áhugaverða málsgrein sem að tengir þetta í raun við jafnréttisbaráttuna í heild sinni, hún hljómar svo: „Ef þú segist bera virðingu fyrir konum en berð einungis virðingu fyrir þeim konum sem þér þykja aðlaðandi, þá berðu ekki virðingu fyrir konum“.

Fyrir mér er femínismi jafnréttisbarátta sem í raun snýst um gagnkvæma virðingu. Virðing fyrir manneskju, gildum hennar og réttindum. Þessi pistill er ekki hugsaður sem árás á einn eða neinn heldur áminning um það hvað má og getur farið betur í samfélaginu. Ég trúi að gagnrýnin hugsun sé lykilatriði þegar kemur að því að betrumbæta samfélagið. Það er enginn fullkominn og sama hversu gamall einstaklingurinn er þá getur hann alltaf lært eitthvað nýtt og bætt sjálfan sig. Kennum hvert öðru og verum óhrædd við það að gera mistök því þannig lærum við, tökum gagnrýni og notum hana til að verða betri manneskjur. Ég tel að heimurinn væri allt öðruvísi í dag ef við bærum raunverulega virðingu hvert fyrir öðru. Að bera virðingu fyrir manneskjunni sama hvaðan hún er, hver hún er eða hvernig hún lítur út. Bera virðingu fyrir réttindum og gildum hennar eins og þau væru þín eigin.

Nú skora ég á mína góðu vinkonu sem stendur ásamt mér á bakvið hlaðvarpsþættina VAKNAÐU. Hana Ásthildi Ómarsdóttur, ég veit hún mun ekki bregðast, hún hefur alltaf eitthvað skemmtilegt og áhugavert til frásagnar. Þangað til næst.

-Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir

 

 

Nýjast