Formlegt erindi til sveitarstjórnar Norðurþings

Ágæta sveitarstjórnarfólk!

Ég ætla að byrja á örfáum smásögum:

Gamall, sjóndapur Húsvíkingur hringir gáttaður í starfsstöð Íslenska Gámafélagsins (hér eftir ÍG) á Húsavík og langar að vita hvers vegna endurvinnslutunnan hans var innsigluð vegna rangrar flokkunar. Við eftirgrennslan starfsmanns ÍG kom í ljós að viðkomandi hafði óvart sett illa skolaða skyrdollu í tunnuna.

Hjón kaupa hús en flytja ekki strax inn. Eitthvað fellur til í endurvinnslutunnuna á nýja staðnum vegna endurbóta en tunnan er ekki tæmd. Skýring ÍG er að þarna búi enginn og því þurfi ekki að tæma tunnuna. Hjónin eru ekki ánægð með þetta svar og benda á að þau greiði fasteignagjöld og þar með sorphirðugjald af nýju fasteigninni og eigi því rétt á að tunnan sé tæmd. Það fæst í gegn með nokkrum eftirgangsmunum og er tunnan skilin eftir á hliðinni af ÍG einhverra hluta vegna.

Rekstraraðili gistihúss gefst upp á að nota endurvinnslutunnu vegna stöðugra innsiglana (en erlendir ferðamenn skilja ekki merkingar á slíkum tunnum) og kýs að fara sjálfur með endurvinnsluruslið til ÍG enda þótt að hann sé búinn að að greiða sorphirðugjöld.

Ritstjóri Skarps segir frá því í blaðinu þegar tunnan hans var ekki tæmd vegna þess að lítið fólksbíladekk hallaðist að henni, þ.e. aðgangur að tunnunni var hindraður skv. skýringum ÍG. Hann fékk símtal frá forstjóra ÍG, ekki til að biðjast afsökunar, heldur til að gagnrýna ritstjórann fyrir að skrifa greinina, enda starfaði ÍG eingöngu eftir reglum, sem sveitarfélagið Norðurþing setur þeim.

Ég bý á Ásgarðsvegi 5. Þar verða snjóalög nokkuð djúp á veturna og er ekki óalgengt að skafi vel bæði austan og vestan við húsið. Því ákváðum við hjónin að hafa tunnurnar okkar í sérstökum skýlum út við götu, bæði til að létta okkur snjómokstur og einnig til að auðvelda aðgengi starfsfólks ÍG að tunnunum. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að vegfarendur (bæði erlendir ferðamenn og aðrir) eiga það til að henda ruslinu sínu í tunnurnar okkar og virðist þá vera alger hending í hvorri tunnunni það lendir.

Skv. sorphirðudagatali átti að fara fram tæming endurvinnslutunna í þéttbýli dagana 8. og 9. maí sl. Líklega var það deginum seinna sem ég fór út með endurvinnslurusl og tók þá eftir að tunnan hafði ekki verið tæmd en var þess í stað komin með fallega innsiglið og búið að krossa við ranga flokkun. Eftir að hafa lúsleitað komst ég að raun um að einhver vegfarandi hafði hent tveimur jarðarberjum í þar til gerðum plastbakka í tunnuna.

Ég fór upp eftir í starfsstöð ÍG á Húsavík og ræddi við yfirmanninn og tjáði honum vandræði mín: Ég væri með tunnurnar út við götu og gæti hreinlega ekki vaktað þær allan sólarhringinn til að koma í veg fyrir að vegfarendur hentu matarleifum sínum í ranga tunnu. Hann tók mér vel og benti á að hægt væri að fá keðju með lás á tunnuna, sem hann gæti útvegað. Ég þakkaði honum fyrir og sagðist myndu hafa samband við hann í næstu viku þar sem ég væri að fara úr bænum nokkra daga og gæti því ekki tekið við lykli að þessum lás. Mér láðist hins vegar að hafa samband við hann vikuna á eftir.

Leið nú og beið

Skv. sorphirðudagatalinu átti næsta tæming endurvinnslutunna í þéttbýli að fara fram dagana 22. og 23. maí sl. Ég varð því ekki lítið hissa þegar ég fór út með endurvinnslusorp skömmu síðar og komst að því að tunnan hafði ekki verið tæmd. Til að láta ÍG njóta vafans ákvað ég að bíða nokkra daga með að kvarta því vel gat verið að eitthvað hefði komið upp á: Bilaður bíll, veikindi o.s.frv. En ekkert gerðist. Föstudaginn 2. júní fór ég loks í starfsstöð ÍG á Húsavík til að kvarta, enda hafði þá tunnan ekki verði tæmd síðan í apríl! Þurfti ég að leggja leið mína þarna upp eftir tvisvar þennan dag til að fá tunnuna loksins tæmda.

Í ljósi þess að ÍG starfar algerlega eftir tilskipunum sveitarstjórnar Norðurþings (skv. forstjóra fyrirtækisins) langar mig að fá svör við örfáum spurningum:

1. Er eitthvert refsiákvæði í samningi Norðurþings við ÍG, þ.e. ef t.d. tvö jarðarber finnast í endurvinnslutunnu skuli hún ekki tæmd næsta skipti á eftir til að refsa viðkomandi greiðanda útsvars og fasteignagjalda?

2. Bannar Norðurþing starfsmönnum ÍG að færa t.d. tvö jarðarber eða eina skyrdollu úr endurvinnslutunnu yfir í almenna sorptunnu?

3. Bannar Norðurþing starfsmönnum ÍG að færa til litla hluti eins og bíldekk til að komast að ruslatunnu?

4. Hefur Norðurþing íhugað að setja ruslatunnur á ljósastaura fyrir gangandi vegfarendur öllum til hagræðis?

5. Er eitthvert ákvæði í samningi Norðurþings við ÍG, sem bannar starfsmönnum ÍG að kanna hvort rusl sé í tunnum við hús, sem enginn býr í jafnvel þótt eigendur hússins greiði sorphirðugjöld?

Ég er útsvarsgreiðandi í Norðurþingi og greiði sveitarfélaginu auk þess himinhá fasteignagjöld en inni í þeim er m.a. sorphirðugjald. Ég fer því fram á að sveitarstjórn Norðurþings íhugi í fullri alvöru að segja upp sorphirðusamningi við ÍG og félagsvæða þennan hluta almannaþjónustunnar, enda er vitað mál að einkavæðing þessarar sömu almannaþjónustu leiðir alltaf til verri þjónustu á hærra verði. Ég bendi sérstaklega á að hér er upplagt tækifæri fyrir VG að hrista af sér amk hluta af krataslyðruorðinu.

Við Skjálfanda er skrautlegt þorp,

með skrýtnum Jóni og Gunnu.

Allir flokka eiga sorp

on’í græna tunnu.

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu skarps

- Skarpur, 8. júní 2017

Húsavík 5. júní 2017

 Í mikilli vinsemd,

Björgvin R. Leifsson,

framhaldsskólakennari á eftirlaunum og félagi í Alþýðufylkingunni

Nýjast