Forðumst slysin – nýtum tækifærin

Reinhard Reynisson skrifarREinhard

Hef nokkuð lengi verið að velta fyrir mér hvernig þróa og byggja mætti aðlaðandi miðbæjarkjarna hér á Húsavík. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar og ýmislegt gerst undanfarin ár sem styður við það.

Mögnuð uppbygging hvalaskoðunar á miðhluta hafnarsvæðisins sem er í raun hluti miðbæjarkjarnans, veitingastarfsemi og nú síðast þekkingarstarfsemin á Stéttinni eru allt þættir í sterkri miðbæjarmynd Húsavíkur. Metnaðarfullar framkvæmdir á vegum Húsavíkurkirkju er svo annar þáttur í því að skapa hluta miðbæjarmyndarinnar.

Galin hugmyndafræði

Það sem hins vegar vantar er að efla verslunar- og þjónustuhlutverk miðbæjarins. Þar hefur kannski vantað ákveðnar forsendur, þ.e. að Samkaup sem hér reka alla dagvöruverslun væru reiðubúin að byggja upp aðstöðu til framtíðar. Nú virðist orðin breyting á miðað við fréttir af hugmyndum um að byggja annan verslunar- og þjónustukjarna sunnan við bæinn. Hugmyndafræðin að því öllu saman er hins vegar í besta falli galin að mínu mati og má bara alls ekki ná fram að ganga. Í henni felst hvorki meira né minna en stórslys í skipulagsmálum sem taka myndi áratugi fyrir bæinn að ná sér af. Hugmyndin byggir beinlínis á því að draga sem mest af verslun og þjónustu úr miðbænum, meira að segja að setja upp sölutorg sem m.a. gæti hýst jólamarkað!

En nóg um það, ég treysti því bara að skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins átti sig á hvílík fyrra þessar hugmyndir eru og að sveitarfélagið taki sér tak og hafi raunverulega forystu í skipulagsmálum um að byggja hér upp aðlaðandi miðbæjarsvæði í samvinnu við verslunar- og þjónustuaðila og aðra fjárfesta.

Hvað þarf til að gera góðan miðbæ?

Það er þekkt í byggða- og skipulagsfræðum að aðlaðandi miðbæjarsvæði þar sem fjölþætt starfsemi er til staðar laðar að sér fólk, eykur samskipti og er til þess fallin að viðhalda verðmæti fasteigna. Hvernig byggja megi upp aðlaðandi og sjálfbæra minni bæi hefur verið viðfangsefni norrænna byggðarannsókna um árabil og á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið gefið út sérstakt rit byggt á rannsóknum um það hvernig stuðla megi að uppbyggingu minni bæja á norðurslóðum. Þar talar allt með því að efla miðbæjarkjarnann með því að þétta þjónustuna þar en dreifa henni ekki um allt.

Það er því grundvallar atriði að staðsetja megin dagvöruverslun bæjarins á miðbæjarsvæðinu. Hún tryggir tiltölulega tíð erindi allra hópa samfélagsins í miðbæinn og minni og sérhæfðari verslunar- og þjónustuaðilar njóta góðs af sambýlinu. Staðsetning dagvöruverslunar gerir einnig mun stærri hluta íbúanna kleift að nota virka ferðamáta (ganga, hjóla) til að sinna verslunarerindum sínum. Gleymum því ekki að á undaförnum árum hefur orðið talsverð íbúðarþétting við Útgarð, steinsnar frá miðbænum. Þá er mikill þéttleiki í Reitnum og fyrirséð að þar verður stærstur hluti íbúarfjölgunar í bænum á næstu árum.

En þá kemur að því nákvæmlega hvar og hvernig koma eigi tiltölulega stórri byggingu fyrir sem gerir þess utan kröfu um bílaaðgengi fyrir þá sem lengra eiga að sækja eða verða að nota bíl af öðrum ástæðum. Nú þegar eru hin stóru bílastæði sem einkenna miðbæinn eru alls ekki til þess fallin að gera hann aðlaðandi.

Lausnin sem ég sé er að byrja á því að byggja bílakjallara á svæðinu sem afmarkast af Vallholtsvegi, Stjórnsýsluhúsi, Kaupfélagshúsi og Íslandsbanka.

Fjárfesting til framtíðar

Þar með verður til ráðstöfunar dýrmætt rými i hjarta bæjarins sem rúmar vel myndarlegt dagvöruverslunarrými og fleira en fyrir er á svæðinu talsvert rými fyrir smærri verslunar- og þjónustuaðila. Svæðið má þá auðveldlega hanna þannig að það verði aðlaðandi fyrir gangandi umferð og til dvalar.

Auðvitað kostar bílakjallari sitt en gleymum því ekki að við erum hér að tala um fjárfestingu til 50-100 ára. Fjárfestingu sem skilur á milli þess hvort hér tekst að skapa aðlaðandi miðbæ sem íbúar og gestir eiga erindi í og hefðu ánægju af að sækja eða að miðbæ sem verði áfram líflaus og að stórum hluta bílastæði.

Okkar miðbær á Húsavík

Með þessu þurfum við ekki að rífa nein hús á svæðinu heldur getum byggt til viðbótar við það sem er. Þannig virðum við líka byggingarsögu bæjarins. Sveitarfélagið á hannaða útfærslu á því að ljúka byggingu Stjórnsýsluhússins með því að bæta hæð ofan á syðri hluta hússins. Eigendur Gb5 ehf. hafa í nokkur ár reifað hugmyndir um mögulegar byggingar á svæðinu sem myndu bæði hýsa dagvöruverslun en einnig íbúðir á efri hæðum. Þessi leið heldur því líka opnu að Vallholtsvegurinn verði áfram opinn niður á Garðarsbrautina, nokkuð sem verður mikilvægara við fjölgun íbúða á svæðinu og einnig vegna aðgengis að Stjórnsýsluhúsinu, byggingarvöruverslun og fleiru á svæðinu.

Hefjumst handa

Ég legg því til að sveitarfélagið taki nú þegar upp viðræður við hagsmunaaðila á svæðinu, lóðarhafa og rekstraraðila dagvöruverslunar um stofnun þróunarfélags um miðbæjaruppbygginguna. Tækifærið sem er núna kemur nefnilega ekki oft upp og því væri sorglegt ef það glataðist í einhverri skammsýni þröngra einkahagsmuna. Sveitarstjórn og skipulagsyfirvöldum ber að gæta almannahagsmuna í störfum sínum, þ.m.t. að beina ákvörðunum stærri einkaaðila í þá átt að hámarka almannahagsmuni. Að lokum hvet ég svo öll sem þykir vænt um bæinn að hugsa þessi mál útfrá heildarmyndinni og til lengri tíma.

 

 

 

 

Nýjast