Fjölskyldubærinn Akureyri?
Við eigum litla stelpu sem fæddist með fæðingargalla sem heitir þindarslit. Það var læknirinn hennar hér á Akureyri sem áttaði sig á því með reynslu sinni og frumkvæði að ekki var allt sem stemmdi þegar konan mín var gengin 33 vikur.
Hann sendi okkur í segulómun og grunur hans varð að veruleika. Hann tilkynnti okkur foreldrunum þetta. Það er í raun ekki hægt að undirbúa sig undir slíkar fréttir. Aldrei.
Við pökkuðum niður í tösku og vorum flutt frá öllu okkar eftir tvo sólarhringa. Vegna þess að ekki var hægt að taka á móti Alexöndru hér í bænum.
Við þurfum að fara í höfuðborgina. Við vorum þar í 3 mánuði. Þar til Vökudeildin taldi vera kominn tími á að fara heim. Vökudeildin var okkur góð og traust.
Heim voru við loksins komin, í fjölskyldubæinn Akureyri. Það var ótrúlega spennandi að vera að komast loksins heim með litla barnið okkar. Við mættum góðum læknum og hjúkrunarfræðingum á SAk sem hafa tengst okkur og Alexöndru betur en aðeins faglega.
Enda er hún einstaklega jákvæð lítil stúlka. Stúlka sem kaus ekki að fæðast með þennan galla, en er ein af þeim heppnu sem lifir til að segja frá því. Þegar slíkt gerist þá þarf maður alla þá aðstoð sem maður getur fengið.
Manni er kippt út af vinnumarkaði og settur í stöðu sem aðstandandi. Til þess er Velferðarráðuneytið okkar og bærinn okkar.
Akureyrarbær samþykkti að leggja það fram sem við þurftum. Velferðarráð Akureyrarbæjar samþykkti það á nokkrum klukkustundum. Með snöggri afgreislu. Vel gert.
Til að gera langa sögu stutta, eftir nokkrar ferðir fram og til baka á Landsspítalann og nokkrar aðgerðir, þá komum við alveg heim í nóvember á síðasta ári. Frá febrúar 2017 til dagsins í dag hef ég ekki geta unnið vegna hennar. Á þeim tíma hefur móðir heldur ekki geta unnið.
Það varð svo að við skráðum okkur út sjálf af sjúkrahúsinu í febrúar á þessu ári til að koma barninu okkar í eðlilegra umhverfi vegna seinagangs kerfisins eftir að hafa beðið þar í yfir 3 mánuði. Við vorum orðin leið á að bíða. Hvað þá að horfa upp á litlu stelpuna okkar löngu orðna heimferðar tilbúna, en hún sat pikkföst inni á sjúkrahúsi.
Vegna skriffinsku. Svo hún gæti þroskast og dafnað eins og jafnaldrar hennar gera þá fórum við með hana heim. Heim til sín í dótið sitt.
Þessi aðgerð okkar hafði ekkert með SAk að gera. Starfsmenn þar hafa verið okkur ómetanleg. En við værum líklega enn inni á einhverri deild inni á SAk í dag ef við hefðu ekki gripið til einhverra róttækra aðgerða. Vegna kerfisins og ákveðinna starfsmanna hér í bæ sem sýnt hafa verkefninu áhugaleysi frá fyrstu komu okkar norður.
Kennt svo seinagangi sínum kerfinu um og falið sig þar á bakvið. Látið okkur svo vita með bréfpóstum til okkar foreldra mörgum vikum eftir spurningar frá okkur. Síendurtekið.
Við höfum þurft að gera allt sjálf. Sækja um allt. Og fá í gegnum kerfið erfið mál. Sjálf, ekki með þeirra aðstoð. Enginn starfsmaður hér í bæ sem vinnur fyrir bæinn í velferðarmálum hefur sýnt þessu máli með hana Alexöndru okkar frumkvæði, orku, áhuga eða áræðni.
Nema nú fyrst einn aðili, innan Akureyrarbæjar sem aðstoðar okkur af áhuga með það sem aðrir eru komnir með á hælana fyrir löngu. Hann ýtir á eftir þeim. Það eitt er stórt áhyggjumál.
Nú þegar málinu okkar fer senn að ljúka með þessa aðstoð á næstu 18 mánuðum eða svo, þá er ég meira að hugsa um næsta mál svipað þessu sem upp kemur hér í bæ. Þarf næsta fjölskylda að ganga í gegnum allt það sem við höfum þurft að kyngja?
Eitthvað þarf að gera. Þarf mögulega að skipta út fólki? Það er sanngjörn spurning þykir mér.
Mögulega hafa þeir sem nú starfa í þessu ekki getuna eða kunnáttu til að takast á við slík mál sem koma inn á borð þeirra. Við höfum aldrei komið fram við dóttir okkar sem veika. Hún fær sama uppeldi og hvert annað barn.
Þar sem settar eru reglur og mörk. Ástina fær hún ótakmarkaða frá öllum sem koma henni nær. Staðan er þessi í dag og er ástæða þessa bréfs. Hún er nú byrjuð í leikskóla. Þar hefur verið ráðinn frábær starfsmaður á vegum Akureyrarbæjar til að sinna henni, hennar tækjum og hennar sérþörfum.
Þann starfsmann þarf að þjálfa í slíkt verkefni. Ég bauð mig fram í það verkefni fyrir bæinn. Gegn því að fá greitt fyrir þá vinnu eðlilega. Ég byrjaði 13 águst.
Ég sóttist eftir einhverjum launum í þetta verkefni þar sem ég þekki Alexöndru ásamt móður hennar að við teljum best, og ættum að vera best til þess fallin að þjálfa þennan nýja starfsmann. Akureyrarbær og velferðarráð ásamt Heilbrigðisstofnun Norðurlands höfðu samþykkt margfalda þá upphæð sem við sækjumst eftir i laun með heimahjálp á sínum tíma þegar við komum heim, sem við afþökkuðum.
Þeir þurftu ekki einu sinni að borga það. Við tókum það á okkur til að vera með henni og losa hana af spítalanum á sínum tíma vegna seinagangs. Því áætlaði ég að það ætti að vera til peningur fyrir þetta ferli þar sem það löngu hefði verið samþykkt stór fjárhæð í hana.
Þetta þjálfunarferli á leikskólanum sem ætti ekki að taka lengri tíma en tvo til þrjá mánuði er einhver lítil prósentutala af allri upphæðinni sem samþykkt var. Staðan er samt þessi.
Frá því hún byrjaði þann 13. águst er hvorki ég né móðir á heimilinu okkar, að þiggja laun frá Akurararbæ fyrir að aðstoða Akurayrarbæ við það að þjálfa nýjan starfsmann leikskólans sem er ráðinn á vegum Akureyrarbæjar.
Ég sit frá klukkan 8 til 14, launalaus á leikskólanum til fulls taks ef eitthvað kemur upp á, og tek allan þátt í að þjálfa starfsmanninn upp. Fyrir Akureyrarbæ. Ráðningasamningslaus.
Sem er á ábyrgð Akureyrarbæjar. Ég sit þar launalaus og get ekki stundað vinnu fyrir utan það þar sem stelpan kemur með mér heim klukkan 14. Málið stendur í dag, þann 10. september þannig, að ekkert hef ég heyrt frá starfsfólki Akureyrarbæjar eða HSN nema frá aðilanum sem er að ýta á eftir málinu fyrir okkur. Hann ýtir en ekkert gerist.
Síðasti póstur frá þeim starfsmanni sem hefur haft málið inni á borði sínu frá upphafi, segir orðrétt í honum þann 22 ágúst sl, að “það sé ekkert víst að þú fáum frekari laun fyrir þetta.” Það er það síðasta sem ég hef heyrt. Samt er farið fram á að ég sitji hér að þjálfa starfsmann þeirra.
Það er auðvitað ódýrast fyrir bæinn að nota pabbann, sem kann á stelpuna. Að fá hann að sitja í leikskólanum frá 8 til 14 alla virka daga. Ódýrast fyrir Akureyrarbæ. Þannig hefur þetta verið frá upphafi. Ef ég gengi hér út í dag, þá vitum við að ef eitthvað kæmi fyrir Alexöndru þá er það á ábyrgð Akureyrarbæjar. En ég myndi aldrei gera slíkt. Ekkert foreldri myndi gera slíkt.
Er Akureyrarbær að nýta sér það í sinn hag? Hvað er ódýrast fyrir fjölskyldubæinn Akureyri?
Á sama tíma telur bærinn nóg að heimilið okkar skili umönnunargreiðslum og engu öðru inn á heimilið mánaðarlega. Að það sé nóg fyrir okkur. Umönnunargreiðslur eru 150.000 á mánuði og eru nú einu tekjurnar sem koma inn á heimili okkar. Það telur Akureyrarbær nóg til að reka fjölskyldu. 150.000 á mánuði. Það taldi Akureryrarbær nóg fyrir okkur um sl mánaðarmót. Það er innkoman okkar núna.
Á meðan þá sit ég á leikskólanum, sem umyggjusamur faðir sem vill dóttir minni allt gott og sé til þess að nýji starfsmaðurinn á þeirra vegum lærir á tækin sem dóttir mín er föst í. Meðan sviðsstjórinn svarar engu og segir ekkert.
Þetta gott fólk er fjölskyldubærinn Akureyri. Ég geri mér grein fyrir því að metnaðarfullir starfsmenn innan velferðar hér í bæ og víðar, verða eilítið uggnir þegar þeir lesa þetta. Jafnvel reiðir og finna til leiða.
En þetta er eingöngu starfsmaður Akureyrarbæjar sem á hér aðallega sök. Bærinn kláraði sitt fyrir löngu. Akureyrarbær er ekki svona vil ég meina.
Þeir einfaldlega réðu til starfa rangan aðila til að sinna erfiðum málum sem þessum sem svo bitnar á bænum. Ykkur er frjálst að deila þessu.
-Ásgeir Ólafsson Lie