Fjölbreytt störf hjúkrunar
Í tilefni af nýstofnuðu félagi hjúkrunarfræðinga í Eyjafirði mun Vikudagur á næstu vikum og mánuðum birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri nágrenni þar sem þeir kynna sín störf. Í þessari viku er það Guðrún Hildur Guðmundsdóttir sem skrifar.
Ég er búin að vinna á sjúkrahúsinu á Akureyri frá útskrift. Byrjaði á Barnadeildinni með náminu mínu og var þar áfram í 2 ár eftir útskrift. Skipti þá yfir í dagvinnu og var deildarstjóri í Blóðbankanum á sjúkrahúsinu í 4 ár eða til ársins 2012. Fór þá aftur í vaktavinnu og var á Lyflækningadeild í 2 ár en endaði síðan aftur á Barnadeildinni árið 2014.
Ég hef nú sagt upp störfum á sjúkrahúsinu og er að byrja að vinna aftur í Blóðbankanum sem var að flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði á Glerártorgi í byrjun þessa árs. Ég verð þar umsjónamaður Blóðbankans og byrja þar á næstu mánuðum.
Hvaða áskoranir eru til staðar í mínu starfi og almennt í hjúkrun í dag
Það eru óteljandi áskoranir í tengslum við starfið og hjúkrun almennt. Síðustu árin þar sem ég hef verið í vaktavinnu á sjúkrahúsinu að þá mætir maður á vaktina og veit ekki hvað bíður manns hverju sinni eða í hverju maður lendir. Á Barnadeildinni er tekið á móti börnum allt frá veikum nýburum sem fara þá á vökustofu til frekari meðhöndlunar en það geta bæði verið fullburða börn og einnig fyrirburar sem hafa náð 34 vikum að aldri. Einnig tekur deildin á móti börnum og unglingum upp að 18 ára aldri með hin ýmsu vandamál.
Þegar ég var á Lyflæknigadeildinni að þá fólst það starf meira í því að sinna eldri kynslóðinni og þá fékk maður m.a. að kynnast hvað útskriftir geta gengið hægt fyrir sig. Meðalaldur fólks er að hækka og fólk kemst ekki heim til sín vegna síns sjúkdóms eða veikinda og oft eru fá úrræði í boði. Það þarf því að reyna að auka áframhaldandi hjúkrunarþjónustu fyrir þennan hóp til að það komist fyrr útaf bráðadeild. Það vantar fleiri hjúkrunarrými og aukin úrræði í heimahjúkrun og innan heilsugæslunnar til að reyna að létta á álaginu sem sífellt er að versna.
Í starfinu fylgir einnig að sinna foreldrum og/eða aðstandendum sem oft á tíðum eru áhyggjufullir yfir veikindum einstaklingsins. Þannig að það getur oft verið á ýmsu að taka á hverri vakt.
Hvaða tækifæri sérðu fyrir þér í þínu starfi og hvaða tækifæri eru almennt í hjúkrun
Ég er mjög spennt yfir því að fást við ný verkefni og að byrja aftur að vinna í Blóðbankanum. Það eru núna að meðaltali 8 blóðgjafir á dag hér í Blóðbankanum og tækifærið sem ég sé í tengslum við það er að reyna að fá fleiri blóðgjafa hér á svæðinu. Núna er Blóðbankinn kominn í nýtt og glæsilegt húsnæði á 2.hæð á Glerártorgi þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar og einnig er búið að lengja opnunartímann einn dag í viku eða á fimmtudögum til kl. 18:30. Annars er opnunartíminn frá 8:15-15 frá mánudegi til miðvikudags. Lengri opnunartími á fimmtudögum ætti því að þýða meirii sveigjanleika fyrir fólk að koma og gefa blóð því það er ekki alltaf hægt að fara úr vinnu þegar fólk er t.d. bundið til kl. 16:00. Það verður því spennandi að sjá hvernig gengur að fá nýja blóðgjafa til að koma og skrá sig, því það er alltaf vöntun á blóði og blóð getur þýtt lífgjöf eins og allir vita. Einnig væri spennandi að fá blóðbankabíl í framtíðinni eins og er í Reykjavík sem myndi fara reglulega á minni staði hér í kring, hér á norður- og austurlandi.
Hvað varðar tækifæri almennt í heilbrigðiskerfinu að þá þarf að efla hjúkrun á Íslandi. Fjölga hjúkrunarfræðingum því að það er sorgleg staðreynd að fjölda hjúkrunarfræðinga vantar til að starfa á hjúkrunarstofnunum hér á landi. Stór hluti hjúkrunarfræðinga leitar í önnur störf en hjúkrunarstörf og þarf að bregaðst við því t.d. með því að bæta launakjör svo þau verði sambærilegri við aðrar stéttir með sambærilega menntun og starfsumhverfi.
Hvað er skemmtilegast við starfið
Skemmtilegast við að vera hjúkrunarfræðingur er hvað starfið getur verið fjölbreytt og gefandi. Það hefur marga möguleika hvort sem menn kjósa að vera í vaktavinnu eða dagvinnu.
Ég er bæði búin að kynnast því að sinna veikum börnum, allt frá nýfæddum og til 18 ára aldurs og einnig fullorðnum einstaklingum. Einnig hef ég unnið með fullfríska einstaklinga sem láta gott af sér leiða og gefa blóð. Starfið getur svo sannarlega verið krefjandi en samt líka svo gefandi og skemmtilegt.
Hvar sé ég mig eftir 20 ár
Mér hefur alltaf fundist gaman að breyta til og prófa eitthvað nýtt en eftir 20 ár sé ég mig vonandi vera áfram starfandi í Blóðbankanum hér á Akureyri.
-Guðrún Hildur Guðmundsdóttir