Fallvatnafár - framhaldið

Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens

Árið 2011 skrifaði ég grein í Akureyri Vikublað, sem þá var, undir titlinum „Fallvatnafár“. Kjarni þeirrar greinar var að skýra tilurð á þeim raforkuskorti sem mundi fara að þjaka einstök svæði sem ekki væru bein tengd stóriðju eða stórum virkjunum. Nú er svo komið að það viðbragð sem ég spáði þá að yrði er að raungerast. Sjálfstæð fyrirtæki í orkuöflun ásælast nú hverja sprænu til að virkja, til að mæta skortinum en auðvitað um leið til að hagnast á sölu á raforku á frjálsum markaði. Með nýrri frumathugun að undirlagi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) á mögulegum smávirkjunum í Eyjafirði, er staðan þannig að nærri allt vatn sem rennur til sjávar er hægt að virkja og búið að segja til um hvernig og hve mikið afl væri mögulega um að ræða.

Það er þrennt sem ég óttast við þessa skýrslu og vil hér draga fram. Í fyrsta lagi, þá tel ég AFE, skýrsluhöfunda og aðra hagsmunaaðila um of fasta í því að orku sé aðeins hægt að vinna úr vatnsafli. Áðurnefnd skýrsla er aðeins til að festa frekar í sessi þá áherslu. Eyjafjörður mun hljóta afar sérstakt yfirbragð þó ekki yrði nema af helstu kostum sem taldir eru í frummatsskýrslunni og það er mikilvægt að vernda vatnsföll í Eyjafirði sem annarsstaðar. Þannig tel ég að svæðisskipulagsnefnd Eyjafjarðar ætti að vera falið það verk að gera einskonar rammaáætlun fyrir vernd og nýtingu vatnsfalla í Eyjafirði samhliða mati á aflgetu vatnsfalla á svæðinu. Á hinn bóginn vil ég líka leggja áherslu á að orkan er allt í kringum okkur og það er alveg fráleitt að binda sig bara við vatnsföll. Hér er vindur, sól, sjávarföll og meira að segja orka af okkar eigin verkum s.s. heitavatnsborholum og rennandi vatni hvort sem það er ferskt eða til fráveitu. Allt þetta má virkja frekar og stilla saman ólíka orkuöflunarkosti til að mæta okkar orkuþörf. Næg er tækniþróun og hugbúnaðargerð í að búa til sk. „smartgrids“ og við ættum að ræða þau.

Það leiðir mig að annarri athugasemd, sem varðar orkuþörfina. Nú er mikið rætt um skort á raforku og ótrygga orku á svæðinu sem standi atvinnu uppbyggingu fyrir þrifum. Rétt er að sjálfsögðu að núverandi atvinnustarfsemi þarf meiri og tryggari orku og ef hún vill stækka eða bæta við sig, þá þarf meira. En þegar er hægur leikur að ná orku fyrir því og gott betur með þeirri orku sem hér er og hægt er að virkja með vindi og vatni og fleiru. Þá er mikilvægt að spyrja hvaða atvinnu það er sem við viljum byggja upp með meiri orku? Hvað þarf mikla orku til að standa undir sýn fólks um framtíðar atvinnu á svæðinu? Það sem ég er að segja er að til grundvallar kortlagningu orkukosta, þar sem sagt er til um hvað hægt er að virkja, hvenær og hvernig, þarf að vera atvinnustefna sem sátt þarf að ríkja um. Í mínum huga er t.d. nýjasta tilbrigðið við stóriðju, það er gagnaver, ekki heillandi framtíðarsýn í atvinnumálum svæðisins af mörgum ástæðum sem of langt er að rekja hér.

Þá að þriðja atriðinu. Orkan er auðlind og það sem gerir okkar samfélagi kleift að virka. Orkan er alltumlykjandi eins og áður sagði og feyki nóg af henni hér. Hinsvegar að virkja hana er gríðarmikil fjárfesting og því er mikilvægt að vandað sé til verka, ekki séu öll egg lögð í sömu körfu og sem mest samlegð tryggð milli ólíkra tegunda öflunar, flutnings og notkunar. Þetta er stór og flókin mynd sem er dýrt að teikna. Af þeirri einföldu ástæðu ber okkur skylda til að bera virðingu fyrir orkunni sem leidd er inn á okkar heimili og vinnustað. Förum því sparlega með orkuna, nýtum hana af hófsemd og virðingu og þá um leið minnkar þrýstingurinn á buddu bæjarbúa og náttúru Eyjafjarðar.

-Edward H. Huijbens. Höfundur skipar þriðja sætið á framboðslista VG fyrir komandi kosningar, er í stjórn Norðurorku frá 2010 og fulltrúi í svæðisskipulagsnefnd fyrir Akureyrarkaupstað og í skipulagsráði bæjarins.    

Nýjast