Eru díselrafstöðvar það sem koma skal?

Á málþingi um raforkumál á Norðurlandi sem Eyþing hélt í liðinni viku, í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV), Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnu- þróunarfélag Þingeyinga, kom fram í máli Guðmundar Ásmundssonar forstjóra Landsnets að fyrirtækið væri farið að skoða möguleika á því að koma upp díselrafstöðvum til að tryggja raforkuöryggi á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar.

Lítið gerst

Á málþinginu ræddi ég þá stöðu sem við búum við í raforkumálum hér á svæðinu og að ég væri orðinn langeygur eftir framkvæmdum. Staðan er raunverulega þannig að í dag er erfiðleikum bundið að taka við nýjum atvinnutækifærum hér á Eyjafarðarsvæðinu í óbreyttu ástandi og fyrirtæki hér í bæ hafa þurft að koma sér upp varaflsstöðvum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.

Nýlegt dæmi er dótturfyrirtæki bæjarins Norðurorka, sem hefur á liðnum árum sett sér afar metnaðarfulla umhverfisstefnu og það er sárt til þess að hugsa að fyrirtækið þurfi að notast við díselrafstöðvar til þess að draga úr áhættu við rekstur. Og Norðurorka er ekkert einsdæmi.

Er árið 2021 raunhæft?

Því miður hefur lítið sem ekkert gerst í uppbyggingu meginflutningskerfi raforkunnar á síðasta áratug og staðan er grafalvarleg. Fram kom í máli Guðmundar Ásmundsonar á málþinginu að Landsnet legði nú áherslu á lagningu Kröflulínu 3 og hefði lagt fram frummatsskýrslu vegna þeirrar framkvæmdar. Í framhaldi að Kröflulínu yrði svo ráðist í Hólasandslínu og væri undirbúningsvinna vegna lagningu þeirrar línu að hefjast. Fram hefur komið að lagningu Blöndulínu 3 hefur verið slegið á frest vegna andstöðu landeigenda bæði í Skagafirði og Hörgársveit.

Aðspurður svaraði Guðmundur því til að tenging milli Fljótsdals og Eyjafjarðar með Kröflu- og Hólasandslínu yrði í fyrsta lagi komin á 2021 en til þess þyrfti allt að ganga upp. En er það raunhæft?

Skortir stefnu

Í umræðum um raforkuflutninga er gjarnan þrýst á okkur sveitarstjórnarfólk um að við beitum okkur í þessum málum. Því miður er það svo að sveitarstjórnarfólk eitt og sér getur lítið gert í þessum málum annað en að beita þrýstingi á ríkið og það höfum við gert. Mikilvægt er að ríkið marki stefnu í raforkuflutningum, eins og því ber skv. lögum, en í drögum að byggðaáætlun er gert ráð fyrir að flutnings- og dreifikerfi raforku eigi að mæta þörfum atvinnulífs og almennings allstaðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og afhendingaröryggi.

Já fögur fyrirheit en því miður er langt í land að þau náist. Því virðist hreinlega skorta skilning ráðamanna og meirihluta þjóðarinnar á þeirri stöðu sem við búum við í raforkumálum. Frekari uppbygging samfélags og atvinnu byggist á því að innviðir eins og raforkuflutningar séu í lagi og á það skortir verulega. Við þurfum því að halda áfram að beita þrýstingi á stjórnvöld og við sættum okkur ekki við að díselrafstöðvar séu það sem koma skal.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

formaður bæjarráðs Akureyrar og formaður Eyþings

Nýjast