Enn eru samningar lausir

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Grunnskólakennarar eru eina ferðina enn samningslausir. Vinnuveitendum okkar virðist um megn að gera langtímasamning sem gerir kjör og starf kennara eftirsóknarvert. Margir hrópa hátt um gengi nemenda í alls konar prófum og könnunum, mest útlendum, og aðrir eru stóryrtir af sama tilefni. Menn greinir á um af hverju nemendum á Íslandi gengur illa í þessum útlenskum könnunum. Bent er á löndin í kringum okkur þar sem betur gengur og flestir vilja vera í þeirra sporun, þangað til kemur að launaumræðu og aðstæðum kenanra. Þá skella allir skoltinum aftur og enginn hefur skoðun hvað þá ákvörðunarvald. Kennarar vilja gjarnan fá svör við fjórum spurningum og hefur undirrituð sent öllum bæjarfulltrúum og varamönnum í bæjarstjórn Akureyrar eftirfarandi bréf. Að sjálfsögðu býst ég við greinagóðu og vitrænu svari frá þeim öllum, ýmist sem einstaklingi eða flokki, enda eru þetta vinnuveitendur okkar grunnskólakennara.

Heil og sæl.

Eina ferðina enn eru grunnskólakennara í kjarabaráttu og þeim finnst lítið miða. Á menntakerfinu virðast allir hafa skoðun en engum kemur við, sér í lagi þegar grunnskólakennarar fara fram á launahækkun í samræmi við sambærilegar stéttir. Grunnskólakennarar upplifa afskiptaleysi og finna það á eigin skinni. Gripið er til stóryrði þegar eitthvað bjátar á í erlendum samanburði nemenda, og samræmdu prófunum, en lítið heyrist þegar samanburður launa og aðstæður kennara ber á góma.

Grunnskólakennarar á Akureyri vilja gjarnan fá svör við eftirfarandi spurningum frá launagreiðanda sínum og stjórnmálaframboðum í komandi kosningum.

1. Af hverju eru laun grunnskólakennara mun lægri en meðallaun landsmanna?


2. Af hverju eru laun grunnskólakennara mun lægri en laun sérfræðinga hjá ríki og á almennum markaði?


3. Af hverju eru laun grunnskólakennara mun lægri en í öðrum OECD ríkjum og það þrátt fyrir að þjóðartekjur séu hér hærri og verðlag í hæstu hæðum?

4. Hvernig hyggst þitt stjórnmálaafl beita sér í komandi kosningum þegar launamál grunnskólakennara ber á góma sem og aðstæður kennara í grunnskólum bæjarins?

Ég vel að taka út klausu úr skýrslu sveitarfélaganna eftir vinnu í Bókun 1 (sem gekk upp og ofan hér í bæ) og segir margt um ástandið í grunnskólum Akureyrarbæjar  ,,Eins og fram hefur komið eru vísbendingar um að mikil aukning hafi orðið á aga-, félags- og hegðunarvanda nemenda. Það veldur miklu álagi í skólum og vantar sárlega stuðning og úrræði" (feitletrun er mín).

Það er ósk mín að svar berist við þessum fyrirspurnum ýmist frá einstaklingum eða framboðum til bæjarstjórnarkosninganna í vor.

Með vinsemd og virðingu,

Helga Dögg Sverrisdóttir, trúnaðarmaður í Síðuskóla.

Nýjast