Ekki eintóm sæla
„Nú á það að vera ánægja og æðisleg upplifun að eiga barn“
Þessi staðhæfing hljómaði í eyrum mér í útvarpsþætti einn morguninn þegar ég var í göngutúr í haustsvalanum. Rætt var við þrjár ungar tvíburamæður sem ræddu m.a. um þá upplifun að eignast tvö börn í einu. Þáttastjórnandi sló þar fram ofangreindri fullyrðingu um upplifun þess að eignast barn. Mæðurnar ungu tóku vissulega undir þetta að hluta til en komu einnig inn á að þetta væri ekki bara dásamlegt og eintómur dans á rósum. Sjónarhorn sem heyrist kannski of sjaldan en ég verð nokkuð oft vitni af í starfi mínu sem ljósmóðir.
Þó vissulega sé fæðing barns oft á tíðum jákvæð og dásamleg reynsla er það ekki eingöngu þannig í öllum tilfellum. Þar er margt sem getur haft áhrif á. Foreldrahlutverkið er sennileg eitt stærsta og mikilvægasta hlutverk sem við tökumst á við á lífsleiðinni og það er oft afar krefjandi. Ferlið við að eignast barn reynist verðandi foreldrum mjög misjöfn upplifun. Sumir foreldrar upplifa meðgöngu og fæðingu án mikilla vandkvæða, en svo eru aðrir sem fara í gegnum þetta ferli með ýmsum krefjandi hliðarverkunum. Í fyrsta lagi er ekki öllum gefið að verða þunguð án aðstoðar og þeir foreldrar þurfa oft að ganga í gegnum frjósemisferli af mismunandi toga sem yfirleitt tekur talsvert á. Missir á meðgöngu snertir nokkuð marga foreldra og meðganga eftir slíkan missi er andlega erfið. Óttinn við að það endurtaki sig er mikill og getur valdið talsverðum kvíða.
Ýmsir líkamlegir kvillar geta einnig komið upp á meðgöngu sem leiða til þess að meðgangan tekur verulega á. Þar undir lenda gjarnan fjölburameðgöngur sem einnig geta tekið andlega á, eins og fram kom í máli þessara ungu mæðra sem við var rætt í útvarpsþættinum. Svo eru þær þunganir sem ekki endilega voru fyrirfram ákveðnar. Foreldrar í þeim sporum þurfa að takast á við flóknar tilfinningar tengt því sem í vændum er. Allir foreldrar ganga í gegnum tilfinningasveiflur tengt komandi hlutverki en það getur verið talsvert flóknara þegar þungun er óvænt og koma nýs einstaklings passar kannski illa inn í lífsmynstrið, félagslega og/eða fjárhagslega.
Fæðingin sjálf gengur svo misvel fyrir sig. Margir þurfa tíma til að jafna sig eftir þennan krefjandi atburð og eru líkamlega og andlega eftir sig. Fæðingar eru nefnilega afar mismunandi og er óréttlátt að ætla bera sig saman við vini og vandamenn þegar að því kemur. Svo margt spilar inn í sem fæðandi einstaklingur getur engu um breytt. Tíminn eftir fæðingu er því mikilvægur til endurheimtar. Svefn er oft af skornum skammti þessa fyrstu daga/vikur og þurfa nýbakaðir foreldrar, hvort sem um ræðir foreldra með fyrsta barn eða reyndari foreldra, næði til að hvílast, koma brjóstagjöf og næringu í farveg og almennt að fóta sig með nýjum einstaklingi. Þar gleymir samfélagið sér oft á tíðum og fjölskylda og vinir vilja hópast að nýja barninu og foreldrum til að fagna nýja krílinu. Þetta er jú eðlilegt en þyrfti oftar að gerast af meiri nærgætni og tillitssemi.
Að eignast barn er stór viðburður sem einkennist af blönduðum tilfinningum. Getur verið afar krefjandi en er blessunarlega oftast ánægjulegt þegar upp er staðið. Leiðin að þeirri tilfinningu er þó mögulega mislöng og misgrýtt. Að leita sér stuðnings í gegnum þetta ferli, ef þörf er á, ætti því að vera sjálfsagður hlutur og spjall við fagaðila eða góðan vin getur þar reynst vel.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Hún veitir ráðgjöf og stuðning til foreldra hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.