20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Eining-Iðja krefst krónutöluhækkana
Kjarasamningar þorra launafólks á almennum vinnumarkaði renna út um áramótin og þremur mánuðum síðar hjá launþegum á opinberum markaði. Brýnt er að verkalýðshreyfingin undirbúi komandi kjaraviðræður sem best og að sem flestir komi að þeirri vinnu.
Eining-Iðja hefur kappkostað að kalla eftir áliti félagsmanna, skoðanakannanir hafa verið gerðar og boðað hefur verið til fjölda funda á félagssvæðinu til þess að kalla eftir viðhorfi grasrótarinnar. Vel ígrunduð og skipulögð vinna við kröfugerð félagsins er nú á lokametrunum og var í þessari viku send Starfsgreinasambandi Íslands, sem fer með umboð félagsins í kjaraviðræðunum við vinnuveitendur.
Tímalínan
Í mars var formlega ákveðið hvernig undirbúningi Einingar Iðju yrði háttað varðandi mótun kröfugerðarinnar.
Í apríl lagði Eining-Iðja spurningakönnun fyrir félagsmenn sína til að afla upplýsinga um áherslur í kjaraviðræðunum. Þátttaka var mjög góð, fullgild svör bárust frá 1218 félagsmönnum. Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri sá um að greina svörin og vinna úr niðurstöðunum. Sérstaklega var þess gætt að ná til fólks af erlendum uppruna, þannig bárust 116 svör á pólsku og 82 svör á ensku. Þannig fékkst glögg mynd af vilja félagsmanna.
Í apríl og maí voru haldnir samtals 42 fundir með öllum starfsgreinum innan félagsins, þar sem sérstaklega var farið yfir kröfur einstakra hópa og vinnustaða. Samkvæmt gögnum félagsins komu um 2000 félagsmenn að þessum hluta. Þessi mikli fjöldi sýnir og sannar að félagsmenn vilja taka virkan þátt í undirbúningnum og styðja við bakið á samninganefnd félagsins. Greinilegt er að félagsmenn eru þess fullvissir að samstaða skilar árangri.
Í sumar og haust hafa fjölmargir félagsmenn komið á skrifstofur félagsins og látið í ljós vilja sinn varðandi áherslur í kjaramálum, auk þess sem efnt hefur verið til almennra funda á félagssvæðinu og drög að kröfugerðinni rædd og mótuð enn frekar.
Með þessu verklagi er undirstrikað rækilega að félagsmenn hafa tækifæri til þess að hafa áhrif á allan undirbúninginn.
Í byrjun september fór samninganefndin gaumgæfilega yfir öll framkomin áhersluatriði frá félagsmönnum og samræmdi. Haldnir voru fimm almennir félagsfundir, þar sem drög að kröfugerðinni voru kynnt og rædd ítarlega.
18. september sendi samninganefnd Einingar-Iðju kröfugerðina til Starfsgreinasambands Íslands.
4. og 5. október er ráðgert að öll félög sem eru í samfloti innan Starfsgreinasambands Íslands hafi sent sambandinu kröfugerðir sínar.
10. október er svo ráðgert að kröfugerð sambandsins verði kynnt opinberlega.
Helstu kröfur
Samninganefnd Einingar-Iðju er sammála um að stærsta krafan verði sú að launin hækki í krónum, ekki prósentum. Þannig er tryggt að lægstu launin hækki mest í prósentum talið. Sömuleiðis er nefndin einhuga um hækkun skattleysismarka, sömuleiðis að vaxta- og barnabætur hækki. Þá er lögð áhersla á að afnema ósanngjarnt tvöfalt kerfi lágmarkslauna og taxta. Kröfugerð Einingar-Iðju er ítarleg og vel ígrunduð, byggð á viðhorfum þorra félagsmanna.
Þannig næst árangur, samstaða félagsmanna er beittasta og sterkasta vopn allra verkalýðsfélaga.
Verkafólk njóti góðærisins
Yfirlýsingar vinnuveitenda að undanförnu benda til þess að kjarabaráttan verði harðari en oft áður. Allar hagtölur benda hins vegar til þess að góðæri ríki í landinu og nú gerir verkafólk kröfu um að njóta góðærisins, sem engu líkara er að hafi verið hannað að þörfum toppanna og sjálftökuliðsins.
Sterkar stoðir
Sem formaður Einingar-Iðju færi ég hér með öllum þeim sem tekið hafa þátt í undirbúningi kröfugerðarinnar bestu þakkir fyrir gott starf. Stoðir Einingar-Iðju eru sannarlega sterkar. Breið samstaða og öflugt félagsstarf á undanförnum mánuðum sýnir það og sannar.
Stöndum saman!
Samstaðan skilar árangri!
Það vitum við!
-Höfundur er formaður Einingar-Iðju