20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
D-vítamín er það eitthvað merkilegt??
Af hverju er nauðsynlegt fyrir okkur að taka D-vítamín? Rannsóknir sýna að of margir Íslendingar ná ekki að innbyrða ráðlagða dagskammta af D-vítamíni. D-vítamín er ekki í mörgum fæðutegundum en mest er í lýsi, feitum fiski, s.s. síld, laxi, silungi, sardínum og lúðu, og í eggjarauðu. Það getur því reynst erfitt að fá fullnægjandi skammta af D-vítamíni úr fæðunni einni saman. Að jafnaði gefur íslenskt mataræði 4–5 µg á dag af D-vítamíni, en getur gefið allt að 6–10 µg á dag hjá þeim sem borða feitan fisk a.m.k. einu sinni í viku og nota D-vítamínbætta mjólk daglega.
Einnig getum við myndað það í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólarinnar en eins og ég segi við börnin þá sjáum við sólina afar sjaldan yfir vetrartímann hér á Íslandi svo það segir sér nokkuð sjálft að sú aðferð er lítið að gagnast okkur sem búum á norðurhveli jarðar a.m.k. yfir dimmustu mánuðina. Svarið er því: Jú, það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að taka inn auka D-vítamín.
Hvað er D-vítamín? Það er fituleysanlegt vítamín sem gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum í líkamanum. Það er nauðsynlegt til að stýra kalkbúskap líkamans og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóðinu, er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina. Einnig eru vísbendingar um að D-vítamín dragi úr líkum á alls kyns sjúkdómum m.a. krabbameinum, sjálfsónæmissjúkdómum, heilabilunarsjúkdómum og hefur einnig jákvæð áhrif á vöðvastyrk og dregur úr sýkingum.
Með því að taka lýsi, lýsisbelgi eða D-vítamín á því formi sem hentar hverjum og einum getum við uppfyllt þessa ráðlögðu dagskammta! Það er einfalt, bætir heilsuna og marg borgar sig