20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Byggðalínan og raforkuöryggi
Á undanförnum árum hefur farið fram töluverð umræða um mikilvægi þess að styrkja meginflutningskerfi raforku í landinu og þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Sú umræða hefur fyrst og fremst snúist um hina svokölluðu byggðalínu. Elsti hlutinn, milli Blönduvirkjunar og Akureyrar, er yfir 40 ára gamall og getur flutt um 100 MW við bestu skilyrði. Flutningsgeta og stöðugleiki Byggðalínunnar er takmörkuð, eins og fyrirtæki á Norðurlandi hafa kynnst á undanförnum árum. Á Akureyri hefur ástandið haft hamlandi áhrif á atvinnuuppbyggingu í bænum, enda ekki hægt að afhenda orku til fyrirtækja sem óska eftir 5 – 10 MW tengingu.
Það er því forgangsverkefni hjá Landsneti að laga þessa alvarlegu stöðu sem er uppi í dag. Leggja þarf áherslu á öfluga tengingu milli helstu framleiðslueininga á Norður- og Austurlandi, sem bætir stöðuleika flutningskerfis og dugar næstu kynslóð. Núverandi tenging nálgast endamörk, hvort sem varðar líftíma eða flutningsgetu. Umbætur eru því óhjákvæmilegar.
Mikilvægt er að styrkja sem allra fyrst tenginguna á milli Blönduvirkjunar (Blöndustöð) og Fljótsdalsvirkjunar (Fljótsdalsstöð). Tengja þarf saman þessar virkjanir í þremur áföngum, með Kröflulínu 3 (120 km), Hólasandslínu 3 (70 - 80km) og Blöndulínu 3 (107 km).
Breytingar hafa orðið á forgangsröð verksins. Kröflulína 3 mun rísa fyrst, enda er umhverfismat á lokametrum hjá Skipulagsstofnun. Umhverfismat vegna Hólasandslínu 3 er komið vel á veg og reiknað með að framkvæmdir hefjist árið 2019. Þriðji áfangi verður síðan tenging á milli Akureyrar og Blöndustöðvar.
Mikilvægt er í framhaldinu að tengja saman orkuframleiðslusvæðin suðvestan- og norðaustanlands. Það verkefni þarfnast frekari rannsókna, eins og forstjóri Landsnets hefur bent á. Sterkt meginflutningskerfi raforku er mikilvægt fyrir þróun atvinnulífs og mannlífs á Norður- og Austurlandi.
Núverandi ástand er óboðlegt gagnvart atvinnulífinu á Norðurlandi, uppbygging flutningskerfisins er algert forgangsmál sem þolir enga bið. Þetta verðum við að laga fyrir okkur öll.
-Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður