Blómlegt starf og hagnaður af rekstri

Aðalfundur Völsungs var haldinn fimmtudaginn 15. júní á Grænatorgi: Rekstur félagsins er í góðu jafnvægi og skilaði félagið rúmum 10 milljóna króna hagnaði.

Stærsta skýringin á þessum hagnaði er EM peningarnir eða 6.5 milljónir sem félagið fékk frá KSÍ ásamt 1,6 milljónum sem KSÍ setur í barna- og unglingastarf. Ákveðið var að setja saman þriggja manna ráð innan knattspyrnunnar til þess að fara yfir það hvernig EM peningunum yrði best varið. Búið er að kaupa bíl til þess að minnka ferðakostnað, upptökutæki til þess að taka upp leiki og senda út, allir yngriflokka þátttakendur hafa fengið stuttbuxur og sokka, auk þess sem þjálfarar sækja námskeið.

Félagið er að velta um 78 milljónum sem er aukning um 13 milljónir á milli ára, þannig að það er eins gott að halda vel utan reksturinn sem eykst alltaf á milli ára sem er mjög ánægjulegt.

Tvær breytingar urðu á stjórninni, Berglind Jóna Þorláksdóttir og Már Höskuldsson, en hann hefur setið í stjórninni í 10 ár, gáfu ekki kost á sér áfram. Í þeirra stað komu Daníel Borgþórsson og Áslaug Guð­mundsdóttir.

Um leið og við þökkum Berglindi Jónu og Má innilega fyrir þeirra framlag til félagsins þá bjóðum við þau Daníel og Áslaugu velkomin inn í aðalstjórn Völsungs. Einnig vil ég þakka þeim Ófeigi Óskari Stefánssyni og Lovísu Björk Sigmarsdóttur kærlega fyrir þeirra setu í stjórninni, en þau eru fulltrúar ungu kynslóðarinnar innan stjórnar.

Það er mikill fengur að fá að hafa unga fólkið með okkur í stjórninni það kemur með mikilvæga punkta inn í umræðuna sem skiptir máli. Ágúst Þór Brynjarsson og Hulda Ösp Ágústsdóttir taka við af þeim.

Hlaup

Almenningsíþróttadeild sá um sólstöðuhlaup á sumarsólstöðum, miðvikudaginn 21. júní, 22 tóku þátt í þessu fyrsta hlaupi sem við erum bara ánægð með miðað við veðrið sem var í boði. Við munum örugglega gera þetta að árvissum atburði og vonandi koma fleiri og taka þátt á næsta ári. Það kom góð tillaga frá einum hlaupara um að þetta yrði styrktarhlaup sem mér líst mjög vel á.

Sund

Þær Dagbjört Lilja Daníelsdóttir og Ester Eva Ingimarsdóttir náðu lágmörkum til þess að keppa á aldursmeistaramóti Íslands í sundi sem haldið var í Laugardalslauginni helgina 23. – 25. júní. Þær fóru ásamt þjálfara sínum Árnýju Björnsdóttur og kepptu undir merkjum Völsungs en það hefur ekki verið gert í mjög mörg ár.

Það var virkilega ánægjulegt að sjá fána Völsungs hanga uppi við Laugardalslaugina innan um alla hina fánana.

Stelpurnar stóðu sig mjög vel og bættu sig í sínum greinum um margar sekúndur, glæsilegir fulltrúar Völsunga í sundi sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Fótboltinn

Fótboltinn er farinn að rúlla í öllum flokkum og menn muna ekki eftir því að það hafi verið hægt að spila á grasvellinum jafn snemma og gert var í vor.

Fyrir heimaleiki meistaraflokka Völsungs kemur leikskrá inni í Skránni en þar er hægt að sjá leikdaga hjá öllum flokkum félagsins. Báðir meistaraflokkarnir eiga heimaleiki á Mærudögunum sem er mjög ánægjulegt og þá verður brekkan vonandi full af áhorfendum.

Lokaorð

Afmælisárið er nú hálfnað og félagið á góðum stað, mikil uppsveifla í blakinu og ungir drengir hófu að æfa og keppa í Bandý eftir áramótin og ætla þeir að halda áfram í haust.

Sumarskólinn starfar af fullum krafti eins og undanfarin ár í júní og júlí og er þátttakan góð.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir hefur verið valin í landsliðshóp U- 16 ára kvenna sem tekur þátt í Norðurlandamóti í Finnlandi dagana 29. júní- 7. júlí. Það verður gaman að fylgjast með henni og við óskum henni góðs gengis í komandi verkefni.

Í október mun Bocciadeildin sjá um Íslandsmeistaramót sem er stór viðburður á afmælisári.

Þegar ég horfi yfir árið, það sem búið er og það sem er framundan, get ég ekki verið annað en bjartsýn og ánægð með starfið innan Völsungs. Þeir sem starfa fyrir félagið eiga hrós skilið fyrir gott starf.

Völsungskveðja.

Guðrún Kristinsdóttir, formaður Völsungs.

Nýjast