Augnlæknaleysi á Akureyri

Það ástand hefur skapast um nokkurra vikna skeið að enginn starfandi augnlæknir er hér í bæ og raunar enginn í næstu nærliggjandi byggðarlögum. Þetta ófremdarástand er auðvitað langt frá því að vera boðlegt og mun hafa skapast vegna þess að þeir tveir augnlæknar, sem hér á Akureyri eru starfandi eru báðir samtímis í fríi.

Það þarf allt vinnandi fólk að eiga sinn frítíma en í þessu tilfelli er þetta óboðlegt með öllu og nánast óþolandi ástand og virðingarleysi gagnvart bæjarbúum og nágrenni.

Að enginn augnlæknir sé hér starfandi um einhverra vikna skeið þá eru sjálfsögð mannréttindi að fenginn sé afleysingaaugnlæknir til að brúa bilið því alltaf geta komið upp t.d. bráðatilfelli, sem þola helst enga bið. Eins og allir vita er bæði tímafrekt og dýrt að sækja slíka þjónustu til Reykjavíkur og ætti gjörsamlega ekki að bjóða fólki upp á slíkt ástand, það er lítilsvirðing við bæjarbúa. Án þess að verið sé beint að deila á einn né neinn verður bara að koma í veg fyrir svona uppákomu.

Að lokum verður þó að segjast eins og er að ágætur augnlæknir Ragnar Sigurðsson er í sínu árlega fríi, sem löngu er vitað fyrir og er frá áramótum og fram á sumar. Ragnar er líka orðinn það fullorð­inn að hann ætti að vera hættur að vinna fyrir mörgum árum samkvæmt íslenskum vinnureglum, en þetta er mikil tryggð við bæjarbúa.

Nýjast