20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Áskoranir og tækifæri í stjórnun árið 2023
Flest öll fylgjumst við vel með og fögnum alls kyns þróun og breytingum í umhverfi okkar, væntanlega einna helst allri þeirri áhugaverðu tækniþróun sem við sjáum nánast daglega og virðist verða meiri og hraðari með hverjum degi. Tækniþróun sem getur sparað kostnað en ekki síður tækniþróun sem getur losað um hæfni, búið til ný tækifæri og skapað aukið virði.
Aðrar stórar breytingar í umhverfi okkar nú og á undanförnum árum eru t.d. aukin alþjóðavæðing, aukin áhersla á umhverfismál, aukið langlífi, aukin fjölmenning o.fl.
Aðrar minni en áhrifamiklar breytingar eru t.d. breyttar hugmyndir fólks um vinnu, breyttar fjölskyldugerðir, fjölgun kynja, vaxandi einstaklingshyggja, aukinn einmannaleiki, væntingar um aukna og almenna velsæld og það aukna virði sem fólk er almennt farið að setja á tíma sinn.
En af hverju þessi upptalning á breytingum þegar ræða á um áskoranir og tækifæri í stjórnun? Vegna þess að þessar breytingar hafa allar áhrif á framtíð vinnu, vinnustaða, vinnuumhverfis, vinnuafls og vinnumarkaðar. Það er því mikilvægt að taka þær með í umræðuna um stjórnun í dag, en það hefur sennilega sjaldan verið jafn snúið og á sama tíma jafn mikilvægt og nú, að sinna stjórnun vel.
Þær áskoranir sem við höfum áður glímt við og þær aðferðir sem við höfum áður beitt í stjórnun eru mjög líklega ekki þær sem munu skapa okkur mestan árangur til framtíðar litið.
Viðskiptavinir, skjólstæðingar, starfsfólk og aðrir hagaðilar vinnustaða eru stöðugt að uppfæra sínar hugmyndir og væntingar um hvernig þeir vilja lifa og starfa og því mikilvægt að stjórnun og stjórnunaraðferðir séu reglulega endurskoðaðar til að tryggja sem bestan árangur, á allan þann fjölbreytta hátt sem við getum mælt árangur, fjárhagslegan og ófjárhagslegan. Má í því samhengi benda á velsældarvísa á vef Hagstofunnar, þar sem birtir eru mælikvarðar um hagsæld og lífsgæði á Íslandi.
Stjórnun sem verkfæri til árangurs
Eitt helsta áhyggjuefni margra stjórnenda í dag er hvernig megi auka og mæla framleiðni starfsfólks, ekki síst þegar starfsfólk er farið að vinna meira í fjarvinnu en margir stjórnendur eru vanir.
Einnig eru margir vinnustaðir að glíma við skort á vinnuafli, aukna starfsmannaveltu og minna umburðarlyndi starfsfólks fyrir þáttum í starfsumhverfinu sem það telur ekki í lagi.
Algengasta ástæða þess að fólk svo íhugar, eða segir upp starfi er samband við næsta yfirmann.
Það má því ljóst vera að það blasa við okkur ýmsar áskoranir en á sama tíma tækifæri, þegar kemur að því að nota stjórnun sem verkfæri til enn frekari árangurs.
Hvernig getum við endurskoðað stjórnun og stjórnunaraðferðir til að bregðast við þessum þáttum?
Flestir vinnustaðir á Íslandi teljast litlir eða meðalstórir – þar sem stjórnendur taka oft ekki nægan tíma í að lesa í breytingar og framtíðina og til að sinna stjórnun starfsfólks, til að byggja upp traust, bæta samstarf, veita gagnlega og uppbyggjandi endurgjöf, hvetja fólk til almennra dáða, vaxtar og þroska.
Þar liggja heilmikil tækifæri til breytinga.
Komdu á opinn fræðslufund Mannauðs, þriðjudaginn 7. mars kl. 9:00-9:45, sem haldinn er í húsnæði Símey, Þórsstíg 4.
Skráning á www.mannaudsfolk.is