20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Akureyri til framtíðar
Nú þegar gengið er til kosninga, er vert að spyrja hvernig við viljum sjá samfélagið hér á Akureyri þróast næstu árin. Hver er staðan í dag og hvað má betur fara? Akureyri er að mörgu leyti frábær staður að búa á. Hér má finna góða leik- og grunnskóla þar sem fagmenntun starfsfólks er með mesta móti. Varla er hægt að nefna þá tómstund eða íþrótt sem ekki er aðstaða til að stunda í sveitarfélaginu. Öldrunarþjónustan er mun öflugri hér en annarsstaðar á landinu og svona mætti lengi telja.
Þá mætti spyrja sig, hvað næst? Er ekki allt bara í góðu lagi? Jú vissulega getum við verið stolt af stöðunni hér á Akureyri en í L-listanum er metnaðarfullt fólk sem horfir til framtíðar og vill að Akureyri verði framúrskarandi og ekki bara á einu sviði heldur öllum, hér á að vera mest spennandi að búa. Bæjarfélagið er stöndugt eftir ötula vinnu og útsjónarsemi starfsfólks bæjarins allt frá hruni og kominn tími til að huga enn betur að íbúum og auknum lífsgæðum.
L-listinn vill vinna áfram að vexti Akureyrar. Í landi þar sem vöxtur höfuðborgarinnar er mikill, er stöðnun sama sem hnignun. Akureyri hefur rúm til að vaxa og við ætlum að gera það sem þarf til að búa Akureyri undir mesta vaxtarskeið síðan fyrir seinna stríð. Tækifærið felst í að auka möguleika fyrir fólk að flytja vinnuna með sér til Akureyrar, nýjungum í ferðamannaþjónustu sem og tæknitengdri atvinnu. Við þurfum að skapa nútíma samfélag þar sem fólk finnur úrvals menntun fyrir börnin sín og frábæra aðstöðu fyrir allt sem fjölskyldulíf krefst. Heilnæmt samfélag sem byggir á grunngildum umhverfisverndar og sjálfbærni. Í svoleiðis samfélagi vill fólk búa og við þurfum að vera undirbúin undir holskeflu af fólki sem hefur tækifæri til að búa sér betra líf og flytur þau tækifæri með sér til Akureyrar.
Hvað er það sem fólk skoðar helst þegar það velur sér stað til að búa á? Jú það er aðbúnaður barna, möguleikar á húsnæði og atvinnu sem og önnur þjónusta og afþreying.
L-listinn mun fyrir þessar kosningar leggja fram metnaðarfulla stefnuskrá þar sem tekið verður á áskorunum í samkeppninni um fólk við suðvesturhornið. Við ætlum að koma til móts við barnafólk þegar fæðingarorlofi lýkur og auka framboð húsnæðis með margvíslegum hætti, svo að fátt eitt sé nefnt. Við munum leggja fram hugmyndir að leiðum til að auka tekjur svo að standa megi undir betri þjónustu við alla íbúa bæjarins.
L-listinn samanstendur af öflugu fólki sem vill leggja sig fram um að þjónusta bæjarbúa sem best og hefur hugrekki til þess að gera það sem þarf.
Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans