Ágreiningur á heimilinu

Hvernig í ósköpunum á ég að brjóta þetta helvíti saman. Mynd: BK
Hvernig í ósköpunum á ég að brjóta þetta helvíti saman. Mynd: BK

Ég er búinn að vera í farsælli  sambúð í sex ár. Sambýliskona mín, Birgitta er frábær í langflesta staði og ég elska hana í drasl. Á þessum tíma erum við búin að búa til tvo ákaflega orkumikla stráka og nýlega keyptum við fallegt gamalt hús sem við hlökkum til að gera upp í rólegheitunum næstu árin. Sambúðin hefur gengið svo til áfallalaust fyrir sig og það höfum við hugsað okkur að staðfesta með hjónavígslu um páskahelgina næstu.

Það er ekki þar með sagt að aldrei hafi komið upp ágreiningsmál. Stundum hefur það endað með því að við förum í fýlu hvort við annað. Sem betur fer er það yfirleitt yfir nauðaómerkilegum hlutum og fýlan rjátlar af okkur af sjálfu sér á tiltölulega stuttum tíma. Þegar allt kemur til alls er ekki hjá því komist að við séum stundum ósammála enda erum við tvær mjög ólíkar mannseskjur með mismunandi áherslur í ýmsum efnum.

Ólíkar aðferðir

Mig langar þess vegna að fara yfir nokkra hversdaglega hluti þar sem aðferðafræði okkar hjónaefnanna er með ólíkum hætti.

Sjá einnig: Kynferðislegu brjóstin

Eins og svo mörg pör af okkar kynslóð verjum við miklum tíma í að hlusta á tónlist saman, horfa á sjónvarpsþáttaseríur og jafnvel stöku bíómynd. Við erum svo lánssöm að vera frekar samstíga í vali á þess háttar afþreyingarefni. Ekki 100 prósent samstíga samt. Þegar kemur að tónlist þá er svona fjórðungur af því sem Birgittu finnst gaman að hlusta á hundleiðinlegt. Hún hefur líka gaman af að horfa á dr. Phil og allskonar fitubolluþætti. Ég hef alveg látið mig hafa það að horfa á Biggest looser með henni en dr. Phil fær mig alltaf til að vilja missa meðvitund. Ef hann birtist á skjánum þá fer ég að gera eitthvað annað – annarsstaðar.

Stundum hlustar Birgitta á eitthvað af þessari leiðinlegu tónlist sinni þegar ég er heima. Það truflar mig ekki neitt. Ég er snillingur í því að leiða hjá mér drepaða tónlist. Ef ég hins vegar reyni að blasta Slayer þegar hún er heima varir það ekki nema í nokkrar sekúndur. Þá er Birgitta búin að koma því skýrt á framfæri að hún hafi ætlað sér að hafa kyrrðarstund.

Þegar Birgitta er ein heima notar hún gjarna tímann í að gera eitthvað sem henni finnst skemmtilegt. Henni finnst t.d. mjög gaman að sofa mikið og gerir það þegar hún fær tækifæri til. Annars horfir hún á þættina sína, dr. Phil og alls konar dramaseríur um fólk sem er annað hvort grátandi eða ríðandi. Já svo gerir hún talsvert af því að endurraða málverkunum á veggjunum. Veggirnir hjá okkur eru eiginlega eins og lifandi færiband og stundum þarf ég jafnvel að leita að sófanum þegar ég kem heim. Málið er að Birgitta kann þá list mæta vel að vera ein heima.

Ég kann ekki að vera einn heima

Ég aftur á móti sökka í því. Birgitta vinnur vaktavinnu og ég fæ því hellings æfingu í því að vera einn heima (þegar strákarnir eru sofnaðir). Ég virðist aldrei ætla að ná tökum á þessu. Algengast er að ég hef laumast til að kaupa helling af mæru og hugsa mér gott til glóðarinnar að finna einhverja gamla stórkostlega bíómynd, (konur vilja aldrei horfa á bíómyndir sem eru eldri en 3ja ára) einhverja tímalausa snilld. Ferlið er samt alltaf eins, ég úða mærunni í mig – allt of hratt og verður illt. Tveir tímar fara í það leita á internetinu að „réttu“ myndinni.

Myndin sem ég að lokum vel er undantekningalaust leiðinleg og þegar hún er hálfnuð kemur Birgitta heim og ég fer með henni í rúmið eða við förum að gera eitthvað allt annað. Ég klára þess vegna aldrei þessar myndir. Það er mér enn í fersku minni þegar ég eyddi þremur tímum í leit á Netflix að einhverju vel geymdu leyndarmáli og endaði svo á því að horfa á heimildamynd um hellaristur í Frakklandi. Ég er ekki að grínast... Hellaristur í Frakklandi!! Ég eyði ekki fleiri orðum í það.

Blússur eins og Barbapabbi

Ég vil meina það að heimilisverkunum sé deilt nokkuð jafnt á milli okkar en við deilum kannski ekki alltaf sömu sýn á það hvernig þau verk eigi að vinnast úr hendi. Í fyrradag var ég t.d. skammaður fyrir að brjóta þvottinn ekki nógu fast saman. HA? Hvað þýðir það eiginlega? Ég fór strax að ímynda mér að þegar Birgitta er ein heima þá rífur hún sig úr að ofan,  blastar græurnar með Slayer (já, þetta er mín ímyndun) í botni og rotar þvottinn inn í skáp.

Annars viðurkenni ég það fúslega að samanbrot á þvotti er ekki mín sterkasta hlið og ég reyni eftir fremsta megni að víkja mér undan því. Ekkert er verra en að brjóta saman fötin hennar Birgittu. Flestar blússurnar hennar eru í laginu eins og Barbapabbi for cry‘n out loud,- getur einhver sagt mér hvernig maður brýtur svoleiðis saman? Nei, ég hélt ekki. Það er ekki hægt. Nú er líklega öruggast að taka það skýrt fram að Birgitta er alls, alls ekki í laginu eins og Barbapabbi en hvers vegna fötin hennar eru það er mér hulin ráðgáta.

Mér finnst þó mjög gaman að brjóta saman handklæði. Þau eru öll með fjögur 90 gráðu horn og þess vegna viðráðanleg í frágangi. Afhverju geta ekki bara öll föt verið ferköntuð eins og handklæði?

„Það er komin súr lykt í þetta“

Af þvottaverkunum er ég líklega duglegastur við að setja í vél. Ég er ekkert að flækja hlutina og hendi öllu óflokkuðu inn og stilli á 40 gráður og yfirleitt sleppur það til. Ég gleymi hins vegar oftar en ekki að taka út úr vélinni. Í verstu tilfellunum bíður þvotturinn innilokaður í vélinni í allt að tvo sólarhringa (t.d. þegar Birgitta er á tveimur næturvöktum í röð) eða allt þar til Birgitta rekur augun í það. Þá sendir hún mér illskulegt augnaráð og segir mér að ég þurfi að þvo allt draslið aftur. „Það er komin súr lykt í þetta,“ segir hún en líklega er það bara svipurinn á henni sem er súr. Hún veit nefnilega ekki að einstaka sinnum er það ég sjálfur sem uppgötva tveggja daga þvott í vélinni. Þá hika ég ekki sekúndubrot, geng rösklega til verks og hengi helvítis þvottinn upp. Og ég get sagt ykkur það með hönd á brjósti að þá er ekkert kvartað yfir lykt. Líklega er súr lykt þannig í eðli sínu að maður þarf að ákveða fyrirfram að hún sé til staðar til að finna hana.

Ég fæ stundum að vita að ég sé sóði og það sé drasl út um allt eftir mig. Það má vera að það sé sannleikskorn í þessu hjá henni þó yfirleitt færi hún vel í stílinn. Birgitta er heldur enginn heimsmeistari í umgengni. Hún hefur t.d. aldrei á ævinni gengið frá smjörinu og ostinum inn í ísskáp þegar hún er búin að nota það.

Helvítis tvíverknaður

Nú ætla ég að að segja ykkur frá hrikalegasta lestinum í fari Birgittu. Hún étur helvítis helling af eggjum,- allt í lagi með það en svo flysjar hún skurnina af egginu niður á eldhúsbekkinn, 45 cm. frá andskotans ruslafötuopinu. Það er  ekki sóðaskapurinn sem fer í taugarnar á mér þó vissulega sé hann til staðar, heldur tvíverknaðurinn. Það er ekkert í veröldinni sem setur langlundargeð mitt úr meira jafnvægi en tvíverknaður. Afhverju flysjar hún ekki bara beint niður í ruslafötuna. Það er engin glóra í þessu. En auðvitað hef ég aldrei orð á svona hlutum, ég burðast bara með þá í sálinni.

Hvort aðferðafræðin við heimilsstörfin hjá okkur hjúunum stafi af því að æxlunarfærin mín eru danglandi en hennar ekki, skal ósagt látið. Ég get þó sagt það með ró í sálinni að á meðan ágreiningsmálin á heimilinu eru ekki merkilegri en þetta þá mun ég óhræddur segja já við altarið um páskana.

Höfundur sér um klósettþrifin á heimili sínu

Nýjast