20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Afhverju varst þú að gista hjá löggunni?“
Foreldrahlutverkið er eitthvað það skemmtilegasta og mest gefandi verkefni sem ég hef tekið að mér. Ég á tvo stráka, annar þeirra er á sínu síðasta misseri í leikskóla og hinn verður þriggja ára í vor. Við foreldrarnir getum verið þakklátir fyrir tvö afskaplega vel heppnuð eintök.
Þeir eru heilbrigðir, nánast alltaf glaðir, skemmtilegir og klárir (stundum of klárir). Þeir eru líka hrikalega „duglegir“ – alveg hreint óstöðvandi hreinlega. Sjálf Duracell kanínan koðnar niður og fer að gráta þegar þeir eru í mesta hamnum. Það geri ég reyndar líka stundum. Öskurkeppnin tekur oft mikið á eftir erfiðan vinnudag, þeir eru mjög góðir í öskri – enda æfa þeir stíft.
Ég hef hlustað á dauðarokk frá fermingaraldri og hélt að ég væri góður í því að hlusta á öskur. Ó, nei! Ég er bara byrjandi. Öskrin í sonum mínum eru á allt öðru leveli – þau rota hverja einustu frumu í líkama mínum.
Þegar ég tala um börnin mín við aðra er fyrst og fremst þakklæti, ást og gleði mér ofarlega í huga svo ég tali nú ekki um ef maður bregður sér af bæ í 1-2 daga – Þá nístir mann sár söknuður eftir þessum skæruliðum. Allt þetta vill samt stundum gleymast í hinu daglega amstri. Ekki síst í miðri öskurkeppni.
Hvaða foreldri kannast ekki við að vera farið að sjá háttatíma barna sinna í hillingum rétt eftir hádegið. Stundum lendi ég í því að öskra á börnin mín – það ber sjaldnast nokkurn árangur. Sá yngri setur þá í brýnnar og horfir á mig eins og ég sé gapuxi (sem ég líklega er) og sá eldri veltist um af hlátri, hann hefur mjög gaman af því að buga föður sinn.
Ég ætlaði nú samt alls ekki að skrifa um foreldrabugun í þessu samhengi eða öskurkeppnir sona minna. Ég ætlaði að skrifa um að stundum þroskast börnin manns hraðar en maður gerir sér grein fyrir og alltaf eru þau að koma manni á óvart – stundum mjög óþægilega á óvart. Ég man að alveg frá því að eldri strákurinn fæddist kveið ég því að óþægilegar spurningar spryttu af vörum hans inni í karlaklefa Sundlaugar Húsavíkur; hvar við erum reglulegir gestir.
Fyrsta skiptið sem það gerðist er mér enn ljóslifandi í minningunni. Ég kom inn í karlaklefann og strákurinn í humátt á eftir mér. Það fyrsta sem blasti við mér voru tvö keimlík eintök af gígantískum allsberum karlmönnum, kafloðnum og voðalegum. Þeir sátu á bekk við skápana sína, sneru í mig baki og minntu mig helst á hraunbreiður.
Blóðið fraus samstundis í æðum mínum – ég skynjaði hvað var í vændum en ég hélt niðri í mér andanum og vonaði að strákurinn væri enn að hugsa um fjærstýrða bílinn sem ég bannaði honum að taka með sér í sund. Vonir mínar brustu eins og varnarlína Liverpool.
„PABBI!“ Heyrði ég son minn hrópa, hvellum rómi: „Afhverju eru feitu karlarnir alveg eins?“ Ég átti ekkert svar. Blóðrauður í framan afklæddi ég sjálfan mig og strákinn og flýtti mér inn í sturtuna. Enn þann dag í dag vona ég svo heitt og innilega að hraundrangarnir séu útlendingar.
Afhverju er brennivín til?
Nú er ég farinn að upplifa það í auknum mæli að standa rökþrota frammi fyrir pælingum eldri sonar míns. Eitt slíkt atvik varð seinnipartinn í gær: Ég og konan mín vorum búin að sækja strákana á leikskólann og vorum að keyra heim og aldrei þessu vant var engin öskurkeppni í bílnum. Við ókum í mestu makindum framhjá lögreglustöðinni og þá verður konunni minna að orði – algjörlega upp úr þurru; að hún hafi aldrei stígið fæti inn á lögreglustöðina.
Það færðist yfir mig kjánalegt glott þess sem telur sig alltaf svo óendanlega sniðugan og ég segi: „Nú, ég fékk nú stundum að gista þarna í gamla daga (hohoho).“ Þetta sagði ég fullkomlega hugsunarlaust eins og svo margt annað sem ég læt út úr mér og ekki stóð á viðbrögðunum úr aftursætinu. „Haaaa! – afhverju varst þú að gista hjá löggunni?“ Gall úr munni stráksa og hann virtist bæði í senn undrandi, hneykslaður og örlítið kvekktur.
Ég áttaði mig samstundis á því að ég hafði ratað í ógöngur en í stað þess að gera það eina skynsamlega og þegja eða skipta um umræðuefni þá fór ég að reyna útskýra málið með röksemdarfærslu fullorðinna. „Tja, sko!“ stamaði ég. „Þegar ég var unglingur þá var ég stundum pínu óþekkur og þurfti þá að sofa hjá löggunni.“
„Ha! Ég er líka stundum óþekkur, þarf ég þá líka að sofa hjá löggunni?“ spyr þá drengurinn og ekki laust við að hann sé skelkaður. „Ja, nei, nei, nei. Börn þurfa aldrei að sofa hjá löggunni en unglingar eru svona næstum því fullorðnir og eru öðruvísi óþekkir en börn,“ reyndi ég að útskýra en fann að ég var kominn út á ansi þunnan ís.
Ég herti mig og ákvað að prófa aðeins meiri hreinskilni. „Sko, þegar pabbi var unglingur – næstum því fullorðinn þá drakk hann stundum brennivín. Þú veist, þetta sem fullorðnir drekka stundum. Þá varð pabbi stundum alveg rosalega ruglaður og þá leyfði löggan honum að gista hjá sér þar til hann lagaðist og leið betur. Löggan var líka altaf góð við pabba og gaf honum kaffi svo honum liði betur,“ sagði ég og vonaði að þar með væri málið jarðað næstu 20 árin eða svo.
Þá blandaði konan sér í umræðuna og útskýrði fyrir drengnum að eiginlega ætti enginn að drekka brennivín ekki heldur fullorðnir – fullorðnir mega kannski fá sér pínu bjór við ákveðin tilefni en brennivín væri óhollt og raunar stórhættulegt.
Ekki stóð á viðbrögðum drengsins sem spurði um hæl: „Af hverju er brennivín þá til?“
Auðvitað stóðum við foreldrarnir á gati gjörsamlega rökþrota en fengum drenginn þó til að lofa því að hann myndi aldrei smakka brennivín – hann gæti þá fengið að smakka bjór þegar hann yrði 25 ára. En þá verður vodkinn líklega kominn við hlið rjómans í hillum matvöruverslananna.
Höfundur er löngu steinhættur að gista hjá lögreglunni.