Að hjúkra fólki til lífs er áskorun

Lára Betty Harðardóttir
Lára Betty Harðardóttir

Deild hjúkrunarfræðinga við Eyjafjörð var stofnuð í byrjun árs 2018. Er hún deild innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vikudagur hefur birt greinar eftir hjúkrunarfræðinga sem starfa í Eyjafirði. Tilgangurinn er að kynna hin fjölbreyttu og áhugaverðu störf hjúkrunarfræðinga á svæðinu, en þau snerta alla landsmenn á öllum aldri. Að þessu sinni mun Lára Betty Harðardóttir kynna starf sitt. 

Ég heiti Lára Betty Harðardóttir og útskrifaðist með fríðum hópi hjúkrunarfræðinga frá Háskóla Íslands sumarið 2008. Námsárin voru gríðarlega skemmtileg og verkefni námsins margbreytileg. Meðfram námi vann ég ýmis störf tengd hjúkrun og má þar nefna Eir hjúkrunarheimili, Sjúkrahúsið á Hvammstranga og Vökudeild Landspítala. Þar áður hafði ég unnið á Sjúkrahúsinu á Ísafirði í þvottahúsi og býtibúri.

Ég hef unnið við hjúkrun frá útskrift vorið 2008. Eftir útskrift flutti ég norður á Dalvík og sótti um vinnu á FSA. Mér bauðst starf á slysa-og bráðamóttökunni sem ég þáði og sé aldrei ekki eftir því. Móttökurnar voru afar góðar og frábært starfsfólk kenndi mér ótal margt. Stærsti lærdómurinn var þó líklega að því meira sem ég lærði og því meiri reynslu sem ég fékk, því betur gerði ég mér grein fyrir faglegum takmörkunum og hvað ég í raun kunni lítið. Síðan hefur þessi lærdómur fylgt mér og ég passa mig á að minna sjálfa mig á þetta reglulega.

Svo var komið að því að læra meira. Ég bætti við diplómu í bráðahjúkrun um jólin 2013 og útskrifaðist þá frá HiST (Høgskolen i Sør Trøndelag) í Noregi. Þá hafði ég starfað á bráðamóttöku St.Olavs sjúkrahússins í Þrándheimi frá byrjun árs 2013 með skólanum og svo áfram í 100% starfi eftir útskrift og til haustsins 2015. Þar fékk ég líka að prófa að vera stundakennari við háskólann og var með fyrirlestra í bráðahjúkrun fyrir hjúkrunarfræðinga í sérnámi. Að starfa í öðru landi, læra á nýtt heilbrigðiskerfi og kynnast öðruvísi verklagi er gríðarlega dýrmæt reynsla fyrir hjúkrunarfræðing. Sumt er betra að heiman en margt er líka mun betra hér heima. Að hafa þennan samanburð gerði mig að víðsýnni og lausnamiðaðri fagmanneskju.

Í hjúkrun finnst mér mikilvægt að vera stöðugt á varðbergi að staðna ekki í starfi. Það er svo auðvelt að festast í hjólfarinu og finnast gott sinna verkefnunum eins og maður hefur alltaf sinnt þeim. Það tel ég í raun vera helstu áskorun fyrir hjúkrunarfræðinga í dag. Það krefst sjálfsgagnrýni, metnaðar og ábyrgðar að vera hjúkrunarfræðingur, og maður er aldrei búinn að læra nóg. Tækifærin eru óendanleg. Ef maður er tilbúinn að takast fagnandi á við verkefni sem maður sá aldrei fyrir sér að sinna, afla nýrra gagna, kynnast nýju fólki og fagna allri reynslu sem starfið býður manni uppá, þá eflist maður sem einstaklingur og fagmaður. 

Nú starfa ég í heilsugæsluhjúkrun hjá HSN á Dalvík og hef starfað þar frá haustinu 2016. Ég sinni skólahjúkrun, heimahjúkrun, almennri hjúkrunarmóttöku, ýmsum verkefnum, dreg blóðprufur og allt sem til getur fallið á heilsugæslustöð. Ásamt því er ég að klára EMT-A nám í sjúkraflutningum í vor og vinn líka sem sjúkraflutningamaður í hlutastarfi.

Það er frábært að vera hjúkrunarfræðingur. Tækifærin til geta hjálpað fólki á sínum bestu og verstu stundum gefa manni dýrmæta sýn á lífið. Reyndur hjúkrunarfræðingur var eitt sinn spurður hvernig hann ætti að lýsa starfinu sínu í einni setningu, hann svaraði: ég hjúkra fólki til lífs. Það kann að hljóma háfleygt, en mér finnst þetta góð lýsing og eftir 20 ár vona ég að ég verði ennþá að gera akkúrat það!

 

Nýjast